Alþingi

Síðast breytt: 2021.05.26
Áætlaður lestími: 2 mín

Alþingi, þjóðþing Íslendinga, var háð á Þingvöllum við Öxará frá stofnun um 930 til ársins 1798. Kom saman í Reykjavík árin 1799–1800 en var lagt þá niður. Endurreist í Reykjavík sem ráðgjafarþing árið 1845 og varð löggjafarþing árið 1874.

Alþingi var allsherjarþing 930–1271 með löggjafar- og dómsvald um allt Ísland til ársins 1262. Á árunum 1271–1662 nefndist þingið oft Lögþing. Löggjafarvald var þá í höndum Noregskonungs (síðar Danakonungs) og alþingis. Grundvallarbreyting varð á skipun Alþingis samkvæmt lögbókunum Járnsíðu (á árunum 1271–1273) og Jónsbók (1281). Umboðsmenn konungs (sýslumenn) og umboðsmenn þeirra (sóknarmenn/sóknarar) voru skyldugir að sækja Alþingi og þeir tilnefndu 140 nefndarmenn til alþingisfarar eftir Járnsíðu, en 84 eftir Jónsbók. Af þeim kvöddu lögmenn 36 til setu í lögréttu. Lögmenn stjórnuðu störfum Alþingis. Lögrétta fór með löggjafarvald, með konungi, og dómsvald. Konungur einn gat rift lögmannsúrskurði. Yfirréttur var stofnaður á Alþingi árið 1593 með 24 dómendum og sama ár varð til embætti alþingisskrifara.

Alþingi starfaði nær eingöngu sem dómstóll á árunum 1662–1800. Löggjafarvaldi lauk þó ekki að fullu fyrr en um 1700. Þá urðu dómsstörf aðalverkefni lögréttu (kallaðist oft lögþingisréttur eða Öxarárþing), en lögmenn dæmdu einir eftir 1718 og lögréttumenn urðu aðeins þingvottar. Fækkaði lögréttumönnum mjög á 18. öld og urðu fjórir frá 1796. Í lögréttu voru lesnar upp tilskipanir konungs, jarðir boðnar upp til sölu eða leigu, birt ýmis skjöl svo sem kaup- og veðbréf og þinglýsingar. Yfirdómur starfaði áfram á Alþingi en dómendum var fækkað.

Alþingi var lagt niður með konungsúrskurði 6. júní 1800 og í stað lögréttu og Yfirdóms var stofnaður Landsyfirréttur í Reykjavík, sem kom saman eftir þörfum.

Konungleg tilskipun um ráðgjafarþing á Íslandi, sem kallaðist Alþingi, var gefin út 8. mars 1843. Fyrsti fundur þess hófst 1. júlí 1845. Alþingi var þá skipað 20 þjóðkjörnum þingmönnum, einum úr hverju kjördæmi (sýslum og Reykjavík) til sex ára og varamönnum. Konungur skipaði sex þingmenn (konungkjörna þingmenn). Kosningarréttur og kjörgengi voru bundin ströngum eignaréttarákvæðum. Konungsfulltrúi átti setu á Alþingi, án atkvæðisréttar. Alþingi skyldi koma saman í Reykjavík í einni málstofu annað hvert ár og sitja fjórar vikur. Það var konungi til ráðgjafar um löggjafarefni en hafði ekki samþykktarvald. Ef meirihluti Alþingis vildi koma máli fram, var venjulega samþykkt bænarskrá eða tillaga til konungs, sem send var konungsfulltrúa.

Alþingi fékk löggjafarvald í íslenskum sérmálum ásamt konungi með stjórnarskrá 5. janúar 1874, sem og fjárveitingavald með samþykkt fjárlaga og stofnun landssjóðs. Konungur gat synjað lagasamþykktum þingsins og gerði það oft. Kjörtímabil var sex ár fram til 1920 en síðan fjögur ár. Alþingi skiptist í tvær málstofur, efri og neðri deild, en sameiginlegir fundir nefndust sameinað Alþingi. Þingræði komst á með stjórnarskrárbreytingu árið 1903. Þá var skipaður íslenskur ráðherra, búsettur á Íslandi, með ábyrgð fyrir Alþingi.

Þingmannafjöldi og kjördæmaskipun hafa breyst í áranna rás sem og þingtími. Árið 1991 varð Alþingi að einni málstofu. Embætti umboðsmanns Alþings var stofnað með lögum árið 1987 til þess að standa vörð um ýmis réttindi einstaklinga gagnvart stjórnvöldum.

Heimild

Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 11–14).

Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 71