Alþingistollur

Síðast breytt: 2021.05.26
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Alþingi var endurreist samkvæmt tilskipun konungs frá 8. mars 1843, kosningar fóru fram árið 1844 en þing kom ekki saman fyrr en árið 1845.

Kostnaður við þinghaldið lenti í fyrstu eingöngu á Jarðabókarsjóði, en 18. júlí 1848 gaf Danakonungur út opið bréf um það, hvernig endurgjalda ætti Jarðabókarsjóði alþingiskostnaðinn og önnur tilheyrandi útgjöld: Fæðispeninga alþingismanna, endurgjald á ferðakostnaði þeirra og annan kostnað, sem af Alþingi leiddi og ekki skyldi lenda á ríkissjóði samkvæmt konunglegum úrskurðum, skyldi endurgreiða Jarðabókarsjóði, sem greiddi hann til bráðabirgða. Endurgreiðslan átti að fást með því að jafna þremur fjórðu af öllum kostnaðinum á allar jarðir á landinu eftir leigumála þeirra, en jafna einum fjórða á lausafjártíundarhundruðin. Lénsjarðir presta, kirkjujarðir og spitalajarðir og aðrar jarðir, lagðar til guðsþakka (þar með til fátækra), þ.e. kristfjárjarðir, skyldu verða undanþegnar álögu. Dómsmálaráðherra skyldi segja fyrir um, hvernig ætti að finna þann hluta, sem hver jörð ætti að gjalda. Það gjald áttu leiguliðar að inna af hendi en jarðeigendur endurgjalda þeim.1Lovsamling for Island XIV, bls. 141–143, íslenskur texti bls. 142–143. Fengu hreppstjórar brátt reglur um, hvernig meta ætti jarðir til greiðslu alþingistolls, svo og sýslumenn, sem skyldu leiðbeina hreppstjórum og vera til eftirlits og innheimta tollinn á manntalsþingum.2Lovsamling for Island XIV, bls. 143–149. Alþingistollur var afnuminn með lögum nr. 9/1876, 11. febrúar.3Stjórnartíðindi 1876 A, bls. 50–51.

Heimild um Alþingi

Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 11–14).

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island XIV, bls. 141–143, íslenskur texti bls. 142–143.
2 Lovsamling for Island XIV, bls. 143–149.
3 Stjórnartíðindi 1876 A, bls. 50–51.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 32