Frá fornu fari og fram eftir öldum héldu lögmenn dómþing heima í héraði. Dæmi eru um að haldin hafi verið fjórðungsþing, eftir að yfirrétturinn á alþingi kom til sögunnar, þar sem dæmt var í málu sem stefnt hafði verið til alþingis, en þau ekki náð dómi þar.
Þess eru nokkur dæmi að aukalögþing (extralögþing) væru haldin á 18. öld, þar sem lögmenn dæmdu heima í héraði í stað þess að dæmt væri í málunum á alþingi.
Konungsbréf var gefið út 2. apríl 1745 þar sem fram kom að lögmenn á Íslandi, hver í sínu lögmannsdæmi, skyldu halda aukalögþing í sakamálum utan alþingis við Öxará. 1Lovsamling for Island II, bls. 548. Undirrótin mun hafa verið umsókn 11 sýslumanna um að sakamenn mætti færa til Bessastaða, þegar dómar hefðu verið kveðnir upp í héraði (undirréttardómar), og þeir yrðu geymdir þar á kostnað konungs. Varðhald sakamanna, þangað til dómar í málum þeirra hefðu fallið á lögþingi eða yfirrétti, væri sýslumönnum til mikils kostnaðar. Sagði rentukammer í bréfi 8. maí 1745, að sú skylda sýslumanna héldist óbreytt. Konungur hefði ákveðið, að í sakamálum skyldi undir eins halda aukalögþing og því yrði málsmeðferð hraðari og uppihaldskostnaður fanga sýslumönnum léttbærari. 2Lovsamling for Island II, bls. 551–552; ÞÍ. Amtm. II. 8A. Rentukammerbréf til amtmanns 1743–1745. Í framhaldi af því var gefið út konungsbréf 20. maí 1746 um það, hvernig lögmönnum yrði bættur kostnaður af aukalögþingum. 3Lovsamling for Island II, bls. 564–566; Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 298–300. Aukalögþing féllu niður, þegar landsyfirréttur var stofnaður með tilskipun 11. júlí 1800. 4Lovsamling for Island VI, bls. 464–473 (1. grein).
Aukalögþingsdómar gátu gengið hratt fyrir sig, svo sem vegna máls Kálfagerðisbræðra úr Eyjafirði árið 1751. Einn þeirra fannst myrtur 1. febrúar það ár. Játuðu á sig morðið bræður hans tveir, ásamt þriðja manni. Voru þeir allir dæmdir til dauða á héraðsþingi þann 22. febrúar. Sá dómur var staðfestur á aukalögþingi 27. sama mánaðar. 5ÞÍ. Skjalasafn Alþingis. Lögmannsbók Sveins Sölvasonar. Aftakan mun óðar hafa farið fram.
Engar aukalögþingsbækur hafa varðveist, en vitað er, að þær voru til. Heimildir um aukalögþing má finna í lögmannsbók Sveins Sölvasonar, í dómsskjölum yfirréttarins í skjalasafni stiftamtmanns yfir Íslandi, bréfasöfnum stiftamtmanns og amtmanns yfir Íslandi, bréfabókum amtmanns, ýmsum dómabókum sýslumanna og víðar.
(Heimild: Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl I 1690–1710. Reykjavík 2011, bls. 84–88.)
Tilvísanir
↑1 | Lovsamling for Island II, bls. 548. |
---|---|
↑2 | Lovsamling for Island II, bls. 551–552; ÞÍ. Amtm. II. 8A. Rentukammerbréf til amtmanns 1743–1745. |
↑3 | Lovsamling for Island II, bls. 564–566; Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 298–300. |
↑4 | Lovsamling for Island VI, bls. 464–473 (1. grein). |
↑5 | ÞÍ. Skjalasafn Alþingis. Lögmannsbók Sveins Sölvasonar. |