Bólusetningarbók

Síðast breytt: 2020.05.09
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Bólusetningarbækur allnokkrar eru í skjalasöfnum presta, sem víða gegndu bólusetjarastörfum. Fyrsta ársetning í bólusetningarbók er 1806 en sú síðasta 1908.

Bólusóttir voru afar mannskæðar. Talið er, að um þriðjungur Íslendinga hafi fallið í svonefndri Stórubólu, sem gekk á árunum 1707-1709. Bólusótt gekk hvað síðast sem faraldur á Íslandi kringum áramótin 1839-1840 en var bundin við Suðurland og Vestmannaeyjar. Mannfallið varð mest á Suðurnesjum. Jón Steffensen prófessor ritaði grein um bólusóttir á Íslandi, sem birtist í greinasafni hans Menning og meinsemdir, ritgerðasafn um mótunarsögu íslenzkrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir.1Jón Steffensen, „Bólusótt á Íslandi“, Menning og meinsemdir, ritgerðasafn um mótunarsögu íslenzkrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir. Reykjavík 1975, bls. 275-319.

Kúabólusetningar hófust hér á landi á síðara hluta 18. aldar, en fast skipulag komst ekki á þær fyrr en á 19. öld. Í því sambandi skal nefna kansellíauglýsingu um útbreiðslu bólusetningar 19. apríl 1805, tilskipun um bólusetningar í Danmörku og Noregi 3. apríl 1810 og auglýsingu kansellís um bólusetningu í Danmörku og Noregi 19. nóvember 1811. Sú síðasta var aftur send til Íslands 9. maí 1818.2Lovsamling for Island VI, bls. 737-739; VII, bls. 359-366, 403-406, 784.

Kröfur um bólusetningu snerta prestsverk og skyldur presta í eftirtöldum atriðum: Samkvæmt bólusetningartilskipuninni 1810 mátti ekki gefa saman hjón án bólusetningarvottorða, og auglýsingin 1811 bauð, að engan mætti ferma án bólusetningar. Þá skyldu prestar skrá nöfn bólusettra í prestsþjónustubók eða sérstaka, löggilta bók.

Kansellíbréf til stiftamtmanns, amtmanna og biskups 16. maí 1818 bauð, að prestum og skólanemum yrði kennd bólusetning, t.d. á prestastefnu. Ekki mætti skipa prest til starfa, nema hann kynni vel til bólusetningar og vildi taka að sér bólusetningu á sóknarbörnunum, annað hvort sjálfur eða með aðstoðarmanni. Hver prestur skyldi fá löggilta bók til þess að skrá í bólusetta og gefa landlækni skýrslu árlega.3Lovsamling for Island VII, bls. 785-787. Nánari útfærsla á þessari auglýsingu er í fyrirmælum til stiftamtmanns og amtmanna á Íslandi 18. júlí 1821.4Lovsamling for Island VIII, bls. 266-269.

Ný fyrirmæli um bólusetningu birtust 24. mars 1830. Þar segir, að hver prestur skuli vera bólusetjari í kalli sínu og skrá allar bólusetningar. Í stórum prestaköllum með mörgum sóknum máttu vera aðstoðarbólusetjarar.5Lovsamling for Island IX, bls. 493-497. Héraðslæknar voru síðan settir yfir þessa bólusetjara.

Bólusetningarskylda presta var afnumin með lögum um bólusetningar nr. 4/1898, 26. febrúar, sem tóku gildi 1. janúar næsta ár.6Stjórnartíðindi 1898 A, bls. 12-17.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Jón Steffensen, „Bólusótt á Íslandi“, Menning og meinsemdir, ritgerðasafn um mótunarsögu íslenzkrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir. Reykjavík 1975, bls. 275-319.
2 Lovsamling for Island VI, bls. 737-739; VII, bls. 359-366, 403-406, 784.
3 Lovsamling for Island VII, bls. 785-787.
4 Lovsamling for Island VIII, bls. 266-269.
5 Lovsamling for Island IX, bls. 493-497.
6 Stjórnartíðindi 1898 A, bls. 12-17.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 3 af 3 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 342