Búnaðarsjóður var stofnaður í Norður- og Austuramtinu árið 1804. Annar búnaðarsjóður var stofnaður í Vesturamtinu árið 1827. Í Suðuramtinu varð aldrei til slíkur sjóður. Úr þessum sjóðum voru veittir styrkir til verklegra framkvæmda, fyrst og fremst í landbúnaði.
Sjóðir þessir urðu til af stofnfé eins og segir um hvorn sjóð hér á eftir. Búnaðarsjóði Vesturlands áskotnaðist gjafafé og styrkur, en óvíst er með hinn sjóðinn vegna heimildaskorts. Engin árgjöld munu hafa runnið í þessa sjóði, þeir fengu aðeins vexti af eigin fé og útlánum.
Sjóðir þessir voru framan af undir stjórn amtmanna í hvoru amti. Það breyttist með tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi frá árinu 1872. Þá urðu amtsráð yfir sveitarstjórnarmálefnum í hverju amti samkvæmt 1. grein tilskipunarinnar og eftir 2. lið 52. greinar skyldu þau hafa á hendi stjórn opinberra stofnana og gjafafjár, sem amtmennirnir hefðu einir stjórnað, að undanskildum Dómsmálasjóði, nema stofnskrár og gjafabréf mæltu öðruvísi fyrir.1Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III, bls. 394–432. Ársreikningar sjóða, sem amtsráðin réðu yfir, eru prentaðir í B-deild Stjórnartíðinda eftur að þau fóru að koma út Þar eru einnig fundargerðir amtsráðanna með umfjöllun um málefni Búnaðarsjóða amtanna.
Amtmannsembættin voru lögð niður 1. október 1904 eftir 6. grein laga um aðra skipun á æðstu umboðsstjórn Íslands nr. 17/1903 en amtsráðin 31. desember 1907 samkvæmt 85. grein sveitarstjórnarlaga nr. 43/1905.2Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 74–77; Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 232–263. Þá var búnaðarsjóðunum ráðstafað með ólíkum hætti í ömtunum eins og sjá má í frásögnum um einstaka sjóði.
Fjallað er stuttlega um búnaðarsjóði amtanna og starfsemi þeirra í ritinu Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Þar segir m.a., að störf sjóðanna og ætlunarverk hafi verið mjög hliðstæð starfsemi Búnaðarfélags Suðuramtsins. Gæfumunurinn hdiverið sá, að þessir búnaðarsjóðir áttu ekki neitt skipulagt félagsstarf sem bakhjarl til þess að efla þá að fé.3Þorkell Jóhannesson, Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937. Búnaðarfélag Íslands aldarminning I. Reykjavík 1937 bls. 216–220. Búnaðarfélag Suðuramtsins varð grundvöllur Búnaðarfélags Íslands.