Rentukammer hét með bréfi 22. febrúar 1794 verðlaunum til hreppstjóra og búenda í Norður- og Austuramtinu fyrir ýmsar búnaðarframfarir og lét Stefán Þórarinsson amtmaður auglýsa það á alþingi sama ár.1Alþingisbækur Íslands XVII, bls. 157–160; Lovsamling for Island VI, bls. 162–164. Stefán amtmaður lagði til við rentukammer 12. september 1804, að verðlaunafé, sem safnast hefði fyrir (ekki verið úthlutað), yrði notað sem stofnfé búnaðarsjóðs (oeconomisk fond) fyrir amtið og lagt í Jarðabókarsjóð til ávöxtunar. Rentukammerið bauð landfógeta 26. september 1805 að taka við fénu, 115 ríkisdölum, og greiða amtmanni 4% vexti af því árlega.2Lovsamling for Island VI, bls. 767–768. Bréf amtmanns 12. september 1804 og samþykki fjármálaskrifstofunnar (finantskollegísins) 21. september 1805 um ávöxtun fjárins í konungssjóði liggja í skjölum íslensku stjórnardeildarinnar.3ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin X. 3, Isl. Journal 10, nr. 171. Árið 1862 hefur þar verið safnað saman ýmsum skjölum um fjárrreiður opinberra stofnana og ómyndugra frá alllöngu tímabili. Bréf amtmanns og fjármálaskrifstofunnar eru með merkingar rentukammers: Isl. Journ. 11, nr. 538 og 743).
Takmörkuðum sögum fer af þessum sjóði framan af, því að skjalasafn Norður- og Austuramtsins brann á Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1874. Reynandi er að leita í skjalasöfnum sýslumanna vegna úthlutunar styrkja og í fréttum blaða eftir að þau komu til sögunnar. Eftir 1874 má finna heimildir um sjóðinn í skjalasafni Norður- og Austuramts undir orðunum Búnaðarsjóður og Búnaðarsjóðurinn.4Sjá t.d. ÞÍ. Skjalasafn Norður- og Austuramts 0-264 B/10–12 og FB/37. E.t.v. víðar, en hugkvæmni verður að ráða. Einnig er heimilda að leita í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem birtar eru fundargerðir amtsráðsins og reikningar sjóða undir stjórn þess.
Norður- og Austuramtinu var skipt um áramótin 1891–1892. Varð Norður-Þingeyjarsýsla í Austuramtinu ásamt Norður-og Suður-Múlasýslum. Búnaðarsjóði Norður- og Austuramtsins var skipt eftir mannfjölda í ömtunum samkvæmt manntali 1890. Hlaut Norðuramtið 16/25 hluta sjóðsins en Austuramtið 9/25 hluta.5Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 116–119; Stjórnartíðindi 1891 B, bls. 156–157.
Amtsráð Norðuramtsins ráðstafaði sjóðum í umsjón þess á fundi 10. júní 1907. Var samþykkt að fela Ræktunarfélagi Norðurlands stjórn Búnaðarsjóðsins eftirleiðis. Vöxtum skyldi árlega verja til eflingar búnaði í Norðuramtinu, en höfuðstól mátti ekki skerða. Skyldi félagið stjórna sjóðnum eftir reglugerð, sem Stjórnarráðið samþykkti.6Stjórnartíðindi 1907 B, bls. 150, 9. liður. Slík reglugerð með staðfestingu Stjórnarráðsins hefur ekki fundist.
Ekki hefur verið kannað, hvernig Ræktunarfélag Norðurlands fór með Búnaðarsjóðinn. Félagnu virðist hafa verið slitið (2024), en skjöl þess eru a.m.k. einhverju leyti varðveitt í Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Ræktunarfélag Norðurlands gaf út Ársskýrslu Ræktunarfélgs Norðurlands, síðar Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands á árunum 1904–1989.
Tilvísanir
↑1 | Alþingisbækur Íslands XVII, bls. 157–160; Lovsamling for Island VI, bls. 162–164. |
---|---|
↑2 | Lovsamling for Island VI, bls. 767–768. |
↑3 | ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin X. 3, Isl. Journal 10, nr. 171. Árið 1862 hefur þar verið safnað saman ýmsum skjölum um fjárrreiður opinberra stofnana og ómyndugra frá alllöngu tímabili. Bréf amtmanns og fjármálaskrifstofunnar eru með merkingar rentukammers: Isl. Journ. 11, nr. 538 og 743). |
↑4 | Sjá t.d. ÞÍ. Skjalasafn Norður- og Austuramts 0-264 B/10–12 og FB/37. |
↑5 | Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 116–119; Stjórnartíðindi 1891 B, bls. 156–157. |
↑6 | Stjórnartíðindi 1907 B, bls. 150, 9. liður. |