Búnaðarskýrslur

Síðast breytt: 2020.05.09
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Búnaðarskýrslur eru væntanlega í skjalasöfnum presta og prófasta vegna aðstoðarskyldu þeirra við skýrslugerðina eða þær hafa verið notaðar við útreikninga á greiðslum til kirkna og klerka eins og tíundarskýrslur.

Rentukammerið sendi umburðarbréf til sýslumanna og landfógetans á Íslandi, dagsett 12. mars 1785, þar sem fyrirskipað var, að í hverri sýslu skyldu hreppstjórar í maílok þess árs telja nautgripi, sauðfé og hross á hverjum stað svo nákvæmlega, að þeir gætu unnið að því eið, ef þurfa þætti. Voru eyðublöð send til útfyllingar.1Lovsamling for Island V, bls. 137–138.

Með bréfi til Stefáns Þórarinssonar, amtmanns í Norður- og Austuramti, 7. ágúst 1787, samþykkti rentukammerið þá tillögu hans að gera skyldi árlegar hagskýrslur („oeconomiske tabeller“).2Lovsamling for Island V, bls. 483–484. Var þar í raun eingöngu um búnaðarskýrslur að ræða. Búnaðarskýrslur miðuðust framan af við fardaga, en árið 1889 var farið að miða þær við almanaksárið. Búnaðarskýrslur á prentuðu formi komu til sögunnar árið 1853.

Upplýsingar þær, sem krafist er og finna má í búnaðarskýrslum, eru breytilegar, og þær verður að taka með fyrirvara, hvað sannleiksgildi talna, sérstaklega um áhöfn, áhrærir. Í búnaðarskýrslum frá 1788 á að koma fram heiti býlis og ábúanda, fólksfjöldi á býlinu og fjöldi verkfærra fyrir utan ábúanda, áhöfn býlisins í 11 liðum (kýr, kelfdar kvígur, naut og uxar, kálfar, mylkar ær, veturgamlar gimbrar, veturgamlir sauðir og hrútar, sauðir og hrútar eldri en veturgamlir, tamin hross, ótamin hross, folöld), túngarðalengd, túngarðahleðsla þetta ár, fjöldi kálgarða, sem nýttir eru, lengd skurða til vatnsveitinga, skurðir grafnir þetta ár, mór nýttur til eldiviðar, bátar, skráðir í þremur liðum (tein- og áttæringar, sex og fjögurra manna för, minni bátar), og loks orsakir þess, að tiltekin lengd túngarða hafi ekki verið hlaðin.3ÞÍ. Skjalasafn rentukammers: B12/7. Isl. Journal 8, nr. 517. Í búnaðarskýrslum frá 1853 eru talin býli og ábúendur (mannanöfn), gripir og fénaður í níu aðalliðum (kýr og kelfdar kvígur, griðungar og geldneyti eldri en veturgömul, veturgamall nautpeningur, ær (undirliðir tveir: með lömbum og geldar), sauðir og hrútar eldri en veturgamlir, gemlingar, geitfé veturgamalt og eldra, hestar og hryssur fjögurra vetra og eldri, trippi veturgömul til þriggja vetra), skip og bátar í fjórum liðum (þiljuskip, tólf-, tein- og áttæringar, sex og fjögurra manna för, minni bátar og byttur), kálgarðar í tveimur liðum (fjöldi í ræktun og ummál í ferhyrndum föðmum) og loks jarðabætur í fimm liðum (skurðir til vatnsveitinga, þúfnasléttun í ferföðmum, túngarðahleðsla í föðmum, færikvíar og nýtt mótak).4ÞÍ. Skjalasafn Vesturamts: VA III, 413. Búnaðarskýrslur 1853–1853. Í búnaðarskýrslum frá 1889 eru: Framteljendur (mannanöfn, býli), ábúðarhundruð, gripir og fénaður í fardögum í 11 aðalliðum (kýr og kelfdar kvígur, griðungar og geldneyti eldri en veturgömul, veturgamall nautpeningur, kálfar, ær (undirliðir tveir: með lömbum, geldar), sauðir og hrútar eldri en veturgamlir, gemlingar, geitfé, hestar og hryssur fjögurra vetra og eldri, trippi veturgömul til þriggja vetra, folöld), land ræktað og yrkt í fardögum í tveimur liðum (tún í dagsláttum og kálgarðar og annað sáðland), jarðabætur á árinu í þremur liðum (skurðir til vatnsveitinga, túngarðar og þúfnasléttun), jarðargróði í fjórum aðalliðum (hey með tvo undirliði: töðu og úthey í hestburðum, þá rótarávextir með tvo undirliði: jarðepli og rófur og næpur í tunnum, þriðji liður var svörður eða mór í hestburðum og fjórði hrís eða skógarviður í hestburðum).5ÞÍ. Skjalasafn Vesturamts: VA III, 425. Búnaðarskýrslur 1885–1889.

Prestum var með kansellíbréfi til biskupa, 25. nóvember 1797, boðið að aðstoða hreppstjóra við gerð og hreinritun búnaðarskýrslna, sem einnig kemur fram í „hreppstjórainstrúxinu“ 24. nóvember 1809.6Lovsamling for Island VI, bls. 310; VII, bls. 313 (IX. kafli, 18. grein). Ekki hefur verið athugað, hversu mikið hefur verið um slíka aðstoð eða hve lengi hreppstjórar hafa talið sig hafa þarfnast hennar.

Lítið er um búnaðarskýrslur í skjalasöfnum presta og prófasta, en þeirra er að leita í skjalasöfnum rentukammers, stiftamtmanns, amtmanna, landshöfðingja, sýslumanna og Hagstofu Íslands.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island V, bls. 137–138.
2 Lovsamling for Island V, bls. 483–484.
3 ÞÍ. Skjalasafn rentukammers: B12/7. Isl. Journal 8, nr. 517.
4 ÞÍ. Skjalasafn Vesturamts: VA III, 413. Búnaðarskýrslur 1853–1853.
5 ÞÍ. Skjalasafn Vesturamts: VA III, 425. Búnaðarskýrslur 1885–1889.
6 Lovsamling for Island VI, bls. 310; VII, bls. 313 (IX. kafli, 18. grein).
Var efnið gagnlegt?
Nei | 1 8 af 9 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 236