Eftirlaun úr opinberum sjóðum, ríkissjóði og landssjóði / Styrkir – Ekknasjóður

Síðast breytt: 2023.05.05
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Ekknasjóður / Hinn almenni ekknasjóður / Enkekassen (ekkjukassi)

Hinn almenni ekknasjóður, Enkekassen, spratt upp úr „Land-Militair-Etatens Pensionskasse“, sem upphaflega varð til árið 1707, en formlega stofnaður 1739 og ætlaður til þess að styrkja ekkjur og föðurlaus börn manna úr landhernum. Árið 1740 var sjóðurinn einnig látinn ná til borgaralegra embættismanna og 1741 til sjóhersins. Sá sjóður lenti í fjárhagsvandræðum vegna takmarkaðra tekna. Því varð Ekknasjóðurinn til og honum sett stofnskrá 30. ágúst 1775. Þannig varð til skyldutrygging allra giftra embættismanna, hvort sem þeir voru almennir/borgaralegir eða í hernum. Sjóðurinn var einnig opinn fyrir alla aðra, sem vildu fá ekknaeftirlaun. 1Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I, 1., bls. 516–518; Lovsamling IV, bls. 161–179. Árleg eftirlaun áttu að vera í hlutfalli við laun hvers þess, sem í sjóðinn greiddi eða frá 10 ríkisdölum upp í 400. Tekjur sjóðsins voru ætlaðar: 1) Allir konunglegir starfsmenn skyldu, hvort sem þeir voru kvæntir eða ekki, greiða fyrstu mánaðarlaunin eða fyrstu launahækkun í sjóðinn. 2) Innborgun, sem í raun var stofninn að eftirlaununum. Þessi innborgun gat samsvarað eins eða fleiri ára launum og fór eftir aldri greiðanda og konu hans. Sérstök tafla sýndi, hvernig innborgunin skyldi vera. 3).Vextir af fé sjóðsins. Ákveðnar reglur giltu vegna nýrra hjónabanda, hvort sem um var að ræða ekkjur eða ekkla.

Ný innborgunartafla var gefin út 1785 og 4. ágúst 1788 var reglunum breytt þannig, að hver, sem naut launa úr konungssjóði og skipaður var af konungi, skyldi stofna til ekknaeftirlauna við hjónaband. Prestar máttu ekki, að viðlagri 100 ríkisdala sekt, gifta embættismenn nema tryggð væri greiðsla í Ekknasjóðinn. Embættismenn, sem ekki höfðu fallið undir þessa reglu og ekki höfðu tryggt konum sínum önnur eftirlaun, áttu að greiða afturvirkar innborganir.2Lovsamling V, bls. 129–136, 545–562. Sagt er, að í danska ríkinu hafi þetta náð til allra presta, dómara, málflutningsmanna, fógeta, starfsmanna við hirðina og í einokunarfélögum. Ákvæðið um, að prestar mættu ekki gifta embættismenn nema þeir hefðu greitt í Ekknasjóðinn, var ítrekað árið 1820.3Lovsamling VIII, bls. 169–170. Þá var árið 1823 skýrt tekið fram, að íslenskir embættismenn væru skyldugir til þess að greiða í sjóðinn, þótt þeir hefðu haldið annað.4Lovsamling VIII, bls. 479–480.

Embættismenn, a.m.k. þeir íslensku, gátu fengið undanþágu frá greiðslu í Ekknasjóðinn, ef þeir sýndu með áreiðanlegum vottorðum, að konur þeirra myndu ekki lifa þá, samkvæmt rentukammerbréfi 1792.5Lovsamling VI, bls. 49–50.

            Árið 1826 birtist auglýsing um skyldu ákveðinna embættismanna til þess að greiða í ekknasjóðinn, þar á meðal presta. Þessi auglýsing var birt á Íslandi árið 1830, en tekið fram, að þetta næði aðeins til þeirra, sem vildu tryggja ekkjum sínum eftirlaun ekki minni en 20 ríkisdali silfurs árlega. Þetta átti einnig að ná til málflutningsmanna, landlæknis og héraðslækna.6Lovsamling IX, bls. 15–16, 91–92, 597–598. Reglur um ekknasjóðsgreiðslur nokkurra embættismanna á Íslandi birtust einnig árið 1826.7Lovsamling IX, bls. 88–89.

Skipulagi rentukammersins var breytt eftir konungsboði 30. desember 1840 og skrifstofur urðu málefnatengdar. Í framhaldi af því var stjórn ekknasjóðsins lögð niður 26. febrúar 1842 og sjóðurinn fór undir „ríkisfjárnefnd“ („den kongelige finantsdeputation“).8Lovsamling XI, bls. 714–719, Lovsamling XII, bls. 258–259. Breyting á stofnskrá sjóðsins var gerð árið 1842 vegna innborgunarskyldu.9Lovsamling XII, bls. 356–359.

Ekknasjóðurinn hætti að taka við nýjum innborgunum árið 1845, sennilega vegna þess að lífaldur var rangt reiknaður í töflum, sem stuðst var við. Þess vegna urðu útborganir meiri en sjóðurinn stóð undir. Eftirlaunagreiðslur héldu þó áfram. Síðasta eftirlaunaekkjan í Danmörku dó árið 1921. Í staðinn átti að greiða til Lífsábyrgðar- og framfærslustofnunarinnar. Gilti það fyrir íslenska embættismenn frá árinu 1855.10Lovsamling XIII, bls. 313–314; Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I, 1., bls. 517–518.

Eftirlaunareikningar Ekknasjóðs fyrir árin 1842–1902 eru í skjalasafni landfógeta í Þjóðskjalasafni Íslands (ÞÍ. Landf. XIX) en voru áður hluti af Jarðabókarsjóðsreikningum. Þótt sjóðurinn fengi skipulagsskrá árið 1775, sjást greiðslur úr honum ekki fyrr en löngu síðar í Jarðabókarsjóðsreikningunum.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I, 1., bls. 516–518; Lovsamling IV, bls. 161–179.
2 Lovsamling V, bls. 129–136, 545–562.
3 Lovsamling VIII, bls. 169–170.
4 Lovsamling VIII, bls. 479–480.
5 Lovsamling VI, bls. 49–50.
6 Lovsamling IX, bls. 15–16, 91–92, 597–598.
7 Lovsamling IX, bls. 88–89.
8 Lovsamling XI, bls. 714–719, Lovsamling XII, bls. 258–259.
9 Lovsamling XII, bls. 356–359.
10 Lovsamling XIII, bls. 313–314; Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I, 1., bls. 517–518.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 36