Erfðafjárskattur

Síðast breytt: 2021.06.03
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín
Afgivt af arv

Erfðafjárskattur var tekinn upp á Íslandi samkvæmt tilskipun konungs frá 12. september 1792, sem var birt á alþingi árið eftir. Allir erfingjar skyldu greiða fjögurra prósenta skatt eða fjóra ríkisdali af hverju hundraði ríkisdala eða þess virðis. Undanþegin skattinum voru maki, börn eða aðrir skylduerfingjar, þ.e. faðir og móðir, systkini, þegar þau erfðu ásamt móður, eða þeirra börn. Ekki var greiddur skattur af arfi, sem var minna en 100 dala virði, fjármunum og eignum, sem gefnar voru til opinberra þarfa í ríkjum og löndum Danakonungs, eftirlaunum, sem arflátandi hafði haft til umráða meðan hann lifði og ekki heldur af arfi, sem færðist úr landi. Af honum voru greiddir „sjettepenger“ í konungsféhirslu, þ.e. 1/6 hluti arfsins rann til konungs. Einnig var þar gerð grein fyrir, hvernig fara skyldi með skipti.1Lovsamling for Island VI, bls. 38–44; Alþingisbækur Íslands XVII, bls. 116 (c-liður).

Eftir 1792 varð erfðafjárskattur þáttur í tekjuhlið Jarðabókarsjóðsreikninga landfógeta.

Konungleg tilskipun 8. febrúar 1810 mælti fyrir um hálfs prósents skatt af fasteignum við eigendaskipti og við erfðir. Gilti það einnig við makaskipti, þegar um milligjöf var að ræða eða hærra afgjald, sem og gjöf í lifanda lífi. Þá átti að greiða skatt við ábúendaskipti á jörðum, sem virðist þó einkum hafa verið miðað við aðstæður í Danmörku og Noregi. Skattinn átti einnig að gjalda af peningainnstæðum, skipum, búshlutum og lausafé.2Lovsamling for Island VII, bls. 349–357.

Ákveðið var með opnu bréfi 18. ágúst 1812, að ekki skyldi greiða erfðafjárskatt af dánarbúum, þegar eign búsins næði ekki 100 ríkisdölum,eftir að skuldir hefðu verið dregnar frá.3Lovsamling for Island VII, bls. 434–435. Erfðalögunum var breytt með tilskipun 25. september 1850.4Lovsamling for Island XIV, bls. 607–617, íslenskur texti. Þær breytingar verða ekki raktar hér né síðari breytingar. Hið sama á við um breytingar á erfðafjárskatti.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island VI, bls. 38–44; Alþingisbækur Íslands XVII, bls. 116 (c-liður).
2 Lovsamling for Island VII, bls. 349–357.
3 Lovsamling for Island VII, bls. 434–435.
4 Lovsamling for Island XIV, bls. 607–617, íslenskur texti.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 67