Tíund var eignarskattur, sem var lögleiddur á Íslandi á árunum 1096 eða 1097. Skyldu allir telja fram og virða eignir sínar á hreppssamkomu að hausti og sverja, að rétt væri tíundað. Tíundarlög urðu upphaf reglubundinnar eignakönnunar og átti jarðamat að hundraðatali þangað rætur að rekja.1Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 509, tíund.
Verðgildi jarðeigna var reiknað í hundruðum og hefur dýrleiki sennilega í upphafi farið eftir því hve marga gripi jörð gat borið (síðan hefur sú regla raskast), ennframur hlunnindum, ítökum í öðrum jörðum og byggingum.2Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 209, hundrað.
Eitt hundrað í jörðu var miðað við 120 álnir vaðmáls, sem var jafnt og ein kýr „8 vetra og eigi yngri en að öðrum kálfi, heil og heilspenuð“ eða jafnt og sex ær, loðnar og lembdar í fardögum. — Gísli Gunnarsson sagnfræðiprófessor taldi líklegt, að bændur hefðu komið sér saman um hundraðatal jarða á 11. öld.3https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2256, sótt 19. ágúst 2024. — Heimildir um dýrleika (hundraðatal) jarða eru harla brotakenndar framan af öldum, en dýrleiki fór ekki aðeins eftir því, hve margar skepnur jörð gat borið, heldur einnig hlunnindum, sem jörðinni fylgdu.)
Í kjölfar siðaskipta jukust mjög konungseignir. Þá var farið að leggja áherslu á að gera jarðabækur yfir jarðeignir konungs og kirkju. Poul Huitfeldt höfuðsmanni var í erindisbréfi árið 1552 boðið að láta gera jarðabók yfir allt veraldlegt og andlegt góss á Íslandi.4Íslenzkt fornbréfasafn XII, bls. 355–363, sjá bls. 359 og 363. Upp úr því fara að verða til ýmsar heimildir um konungs- og kirkjueignir, sem kalla má jarðabækur eða jarðabókaígildi. Elsta varðveitta jarðabók yfir klaustraeignir og konungsjarðir er frá 1550–1579. En það er fyrst í jarðabókum yfir konungseignir frá árunum 1638–1639 að sjá má dýrleika á konungsjörðum. Árið 1657 gaf konungur höfuðsmanni fyrirmæli um, að samin yrði jarðabók yfir allar fasteignir landsins.5Lovsamling for Island I, bls. 252. Framkvæmdin reyndist erfið og aðeins brot er varðveitt. Danakonungur lagði sérstakan skatt, stríðshjálparskatt, á Íslendinga með bréfi 31. maí 1679.6Lovsamling for Island I, bls. 370–372. Stríðshjálparskattinn skyldi greiða í eitt skipti fyrir öll á grundvelli allsherjar jarðamats. Landskuld var þá í meginatriðum notuð sem skattstuðull. Jarðabækur sýslumanna frá árunum 1681–1683, þessu tengdar, eru varðveittar úr flestum sýslum landsins, ekki þó af Norðurlandi.7ÞÍ. 1928–011 Rentukammer D2/1.
Heimild: Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Reykjavík 2021. Þar er á bls. 207–244 fjallað um jarðabækur og fyrirmæli um þær á árunum 1550–1682. Á bls. 292–309 er yfirlit um jarðabækur frá þessum tíma og í hvaða söfnum þær eru varðveittar.
Í framhaldi af þessu urðu til nokkrar heildarjarðabækur í tengslum við embætti landfógeta á Íslandi. Jarðabók Johanns Kleins frá 1681 sýnir landskuld og leigur (kúgildi) á jörðum.8ÞÍ. 1928–011 Rentukammer E/3. Nefna má þrjár aðrar, sem einnig sýna dýrleika.9ÞÍ. 1928–011 Rentukammer E2, E/4 og E/5.
Skjöl: Leita má að jarðabókaefni í Rentukammeri frá þessum tíma í skjalaskrá Þjóðskjalasafns á vefnum undir leitarorðinu jarðabók og skjalamyndaranum Rentukammer. Þá má benda á ýmislegt jarðabókaefni, sumt mun yngra, í handritadeild Landsbókasafns – Háskólabókasafns, t.d. Lbs. 54 fol., Lbs. 55, fol.
Vegna óánægju með eldri jarðabækur var Árna Magnússyni og Páli Vídalín falið árið 1702 að vinna að nýrri jarðabók. Skyldu þeir kanna dýrleika jarða, landskuld, kúgildatölu og kvaðir á hverri jörð, auk hlunninda, sem þeim fylgdu, og skrá nákvæmlega fjölda búpenings á hverri jörð.10Lovsamling for Island I, bls. 582–592. Jarðabókin varð umfangsmikil jarðalýsing en ekki fasteignaskrá. Hún hefur verið gefin út á prenti auk ýmissa skjala, sem tengdust jarðabókarverkinu. Frumskjölin eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands. Jarðabækurnar úr Múla- og Skaftafellssýslum brunnu í Kaupmannahöfn árið 1728.11ÞÍ. 1928–011 Rentukammer D2/2–6; E/6–16. Sjá og Lbs. 57 fol. í handritadeild Landsbókasafns – Háskólabókasafns. Þar er hluti frumrits Rangárvallasýslu. — Hér má einnig nefna handrit í handritadeild Landsbókasafns – Háskólabókasafns: ÍBR. 22 8vo. „Jarðabók yfir allar jarðir á Íslandi“, skrifað um 1720.
Í skjalasafni landfógeta er innbundin bók, nefnd Um tekjur af sýslum 1753 eða Jarða- og bændatal 1752–1767.12ÞÍ. Skjalasafn landfógeta. Landf. XXII. 3. Eru þar skýrslur frá sýslumönnum í öllum sýslum nema Vestmannaeyjum og Gullbringusýslu, þar sem skráðar eru jarðir í hverri sýslu, eignarhald, ábúendur, jarðarhundruð/dýrleiki, landskuldir, kúgildi, lausafjártíund, skattur og gjaftollur.13Bjarni Vilhjálmsson, „Jarðir og bændur 1753“, Nýjar kvöldvökur 53. árgangur, 4. hefti, bls. 207–209.
Hegningarhússskattur komst á árið 1759. Hann áttu jarðeigendur að greiða en ekki leiguliðar.14Lovsamling for Island III, bls. 346–348. Því má í fylgiskjölum fyrstu hegningarhússreikninganna finna heimildir um dýrleika jarða, a.m.k. úr sumum sýslum.15ÞÍ. Skjalasafn landfógeta. Landf. XV. 1–2.
Skúli Magnússon landfógeti gerði á sjöunda áratug 18. aldar nýja jarðabók, sem kennd hefur verið við árið 1760 og einnig nefnd „Harmoniska jarðabókin“. Studdist Skúli þar við eldri jarðabækur og nýjar upplýsingar frá sýslumönnum, einkum um kúgildi. Þessi jarðabók hlaut aldrei konungsstaðfestingu, en samt var farið eftir henni.
Skjölin eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands, sjá ÞÍ. Rentukammer 1928 E/17–38 og næstu númer á eftir, þar sem eru samrit og önnur gögn. — Í handritadeild Landsbókasafns – Háskólabókasafns eru jarðabækur frá 1760 í Lbs. 118 fol.–Lbs. 123 fol.
Í öllum þessum jarðabókum var matið miðað við það, sem verið hafði að fornu (fornt mat), eða landskuldin tvítugfölduð til þess að setja á eitthvert samanburðarmat.
Breytingar á jarðadýrleika / jarðamati.
Yrðu jarðir fyrir verulegum skemmdum á túni og engjum, voru þær lækkaðar í tíundarmati. Magnús Már Lárusson prófessor segir elstu dæmi þess frá 15. öld.16Magnús Már Lárusson, „Á höfuðbólum landsins“, Saga IX (1970), bls. 80.
Alþingi samþykkti árið 1671 vegna tíundar af bændajörðum, sem eigi fengjust byggðar til fullrar leigu vegna spjalla, að tíundin yrði að fara eftir mati sýslumanns og tólf manna, tilnefndra af honum í héraði, ef bændur vildu ekki greiða tíundina.17Lovsamling for Island I, bls. 336; Alþingisbækur Íslands VII, bls. 228–229.
Árið 1755 hafði Þykkvabæjarklaustur verið leigt með miklu lægra afgjaldi en áður og endurmat jarða ákveðið. Ekki varð af matinu vegna Kötlugoss árið 1755. Rentukammer fól Skúla Magnússyni landfógeta 6. maí 1769 að meta jarðir Þykkvabæjarklausturs, svo ákveðið yrði, hvað létt yrði á bændum í hlutfalli við þá afgjaldslækkun til þriggja ára, sem klausturhaldarinn hafði fengið vegna skemmda af Heklugosi (þ.e. Kötlugosi) árið 1755.18Lovsamling for Island III, bls. 633–634.. Skúli landfógeti endurmat konungsjarðir í Skaftafellssýslu árið 1769, en leiguliðar kvörtuðu yfir því mati. Konungsúrskurður um mat á Kirkjubæjarklausturs-, Þykkvabæjarklausturs- og Flögujörðum var gefinn út 5. apríl 1771. Samkvæmt konungsúrskurðinum skyldi Björn Markússon lögmaður sunnan og austan meta klausturjarðirnar og Flögujarðir til verðs ásamt 6 eiðsvörnum mönnum.19Lovsamling for Island IV, bls. 51–55. Þetta mat þótti algerlega misheppnað og Magnús Ólafsson varalögmaður og Jón Jónsson, settur sýslumaður í Rangárvallasýslu, skyldu meta jarðirnar að nýju eftir konungsúrskurði frá 28. apríl 1777.20Lovsamling for Island IV, bls. 400–401.
Í skjalasafni landfógeta er að finna ýmis skjöl varðandi konungsjarðir, þ.e. úttektir, jarðamatsskjöl, eignaskrár, leigusamninga o.fl. Þar eru einnig athuganir á konungsjörðum í Skaftafellssýslum árið 1769.21ÞÍ. Skjalasafn landfógeta. Landf. XXIII. Umboðsskjöl.
Í kansellíbréfi til stiftamtmanns 11. mars 1778 kemur fram, að Jón Jakobsson, sýslumaður í Eyjafirði, hefði lækkað mat á 5 jörðum í Bakkasókn í Öxnadal, í eigu kirkjunnar og kirkjubóndans. Mál þetta skyldi rekið eftir landslögum en stiftamtmaður aðstoða sóknarprestinn við að fá nýja skoðun.22Lovsamling for Island IV, bls. 430.
Einhver tregða virðist hafa verið á því að breyta jarðadýrleika, a.m.k. á konungsjörðum. Þannig tilkynnti Rentukammer amtmanni í Vesturamti árið 1833, að mat á jörð yrði ekki lækkað vegna sandfoksskemmda, heldur yrði tíundin lækkuð í 6 ár. Þó ekki fyrr en sýnt hefði verið fram á, að jarðarhús hefðu verið flutt á heppilegri stað.23Lovsamling for Island X, bls. 397–398. Árið 1838 var aftur neitað um endurmat á nokkrum jörðum en landskuld lækkuð. Jafnframt var leyft endurmat á einni jörð, af því að hjáleigurnar höfðu verið teknar undan henni.24Lovsamling for Island XI, bls. 301–302.
Jarðabækur og jarðamöt frá 19. öld
Jarðamat 1800–1806
Árið 1800 var gefinn út konungsúrskurður um skipun nefndar til þess að gera nýja jarðabók fyrir Ísland. Fékk nefndin erindisbréf frá Rentukammeri sama ár. Var hún lögð niður árið 1806.25Lovsamling for Island VI, bls. 452–461, 475–481; Lovsamling for Island VII, bls. 80–81. Átti nefndin að meta hvað hver jörð gæfi af sér, reiknað í hundraða verðreikningi. Kúgildi, þ.e. ein kýr eða 6 ær, eða 6 fiskavættir, til dæmis, voru metin 1 hundrað (120 álnir). Jarðamat þetta var aldrei staðfest af konungi.
Skjölin eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands, sjá ÞÍ. 1928–011 Rentukammer E/56–76. Sjá einnig ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns. Stiftamt. III. 228. Skjöl um jarðamat 1801–1803: Bréf jarðamatsnefndar til stiftamtmanns 1801–1803.
Fram kemur í Rentukammerbréfi til setts stiftamtmanns 6. febrúar 1830, að jarðabókin frá 1760 ætti að gilda um konungs- og kirkjujarðir og hinar veraldlegu.26Lovsamling for Island IX, bls. 480–481.
Jarðamat 1848–1861
Í konungsúrskurði 8. júní 1842 um skattakerfi og jarðaskrár var lögð áhersla á, að Rentukammer tæki að sinna nýju jarðamati fyrir Ísland.27Lovsamling for Island XII, bls. 349–351. Árið 1843 fól Rentukammer Jóni Johnsen landsyfirréttardómara að safna hagfræðilegum (statistiskum) upplýsingum um jarðeignir á Íslandi og gefa út og stiftamtmanni boðið að láta sýslumenn senda Jóni upplýsingar.28Lovsamling for Island XII, bls. 616–619. Jón hafði þá þegar hafið söfnun heimilda um jarðir og árið 1847 gaf hann út ritið Jarðatal á Íslandi, ásamt brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum, ágripi úr búnaðartöflum 1855(sic., rétt 1835)–1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða á landinu.
Tilskipun um nýjan jarðadýrleika á Íslandi var gefin út og staðfest 27. maí 1848 og sýslumönnum, matsmönnum og yfirmatsmönnum gefin erindisbréf 1. september sama ár.29Lovsamling for Island XIV, bls. 106–111, 171–180. Sýslumenn önnuðust gagnaöflun og skýrslur voru gerðar.
Skjöl frá 1849–1850: Bækur, sem sýslumenn hafa sent frá sér, eru sérstakur flokkur í skjalasafni Íslensku stjórnardeildarinnar í Þjóðskjalasafni, sem ekki hefur enn (2024) verið sett inn í leitarbæra skrá. Í skjalasöfnum sýslumanna í Þjóðskjalasafni má finna gögn þessa mats, t.d. eru jarðamatsskjöl frá 1849 í safni sýslumannsins í Norður-Múlasýslu og bæjarfógetans á Seyðisfirði, ÞÍ. 004 OB/3 örk 6. Í skjalasafni Árna Thorsteinson landfógeta er jarðamatið 1849–1850, leiðrétt af jarðamatsnefndinni, sem skipuð var 1855.30ÞÍ. Einkaskjalasafn Árni Thorsteinson E. 273, askja nr. 17. — Þá má nefna skjöl í handritadeild Landsbókasafns – Háskólabókasafns: Lbs. 718 8vo. „Jarðabók yfir allar jarðir á Íslandi“, skr. ca. 1840–1850 og JS. 114 fol. Jarðabók 1849 (vantar í Vesturamt).
Samkvæmt konungsúrskurði 18. maí 1855 var tillaga innanríkisráðuneytisins um framkvæmd jarðamatsins lögð fyrir Alþingi til meðferðar.31Lovsamling for Island XVI, bls. 189–194; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 86–87, 113.
Árið 1855 var skipuð ný nefnd til frekari úrvinnslu jarðamatsins eða þeir Vilhjálmur Finsen landfógeti og bæjarfógeti í Reykjavík og alþingismennirnir Jón Guðmundsson málafærslumaður og Jón Pétursson landsyfirréttardómari. Tillaga þeirra kom fyrir Alþingi samkvæmt konungsúrskurði 27. maí 1857.32Lovsamling for Island XVI, bls. 313–314; Lovsamling for Island XVII, bls. 102–107; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 183–184, 313–314. Eftir konungsúrskurði 27. maí 1859 var tillaga að tilskipun um nýja jarðabók lögð síðan fyrir Alþingi.33Lovsamling for Island XVII, bls. 508–518; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 272.
Tilskipun um nýja jarðabók fyrir Ísland var gefin út 1. apríl 1861. Skyldi hún taka gildi 6. júní 1862.34Lovsamling for Island XVIII, bls. 176–185; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 448–461. Frumvarp til nýrrar jarðabókar fyrir Ísland kom út árið 1861 og síðar sama ár Ný jarðabók fyrir Ísland, samin eptir tilskipun 27. maímánaðar 1848 og allramildilegast staðfest með tilskipun 1. aprílmánaðar 1861.
Skjöl vegna jarðabókarnefndarinnar 1855–1861: ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin J. I. 1. 1856: Jarðamatið, skjöl og skýrslur. ÞÍ. Einkaskjalasafn Árni Thorsteinson E. 273, askja nr. 8, þar eru skjöl vegna jarðamatsins 1855–1859 o.fl., og í öskju nr. 17 er jarðamatið 1849–1850, leiðrétt af jarðamatsnefndinni, sem skipuð var 1855. Landsbókasafn – Háskólabókasafn: Lbs. 194 fol. Skýrslur til undirbúnings jarðamatinu 1861 með leiðréttingum og athugasemdum Vilhjálms Finsens.
Einhver vafi kom upp um álnafjölda í jarðahundruðum eftir nýja matinu og dómsmálaráðuneytið sagði í bréfi til stiftamtmanns 29. júní 1864, að gamla reglan um 120 álnir í hundraði stæði, en ekki 100 álnir.35Lovsamling for Island XIX, bls. 82–83; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II, bls. 60.
Jarðamöt á 20. og 21. öld
Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður lagði fram frumvarp til laga um nýtt jarðamat á Alþingi árið 1915.36Alþingistíðindi 1915 A, bls. 457–458. Í nefndaráliti neðri deildar er minnst á frumvarp skattanefndar frá 1907 um jarðamat, sem frumvarpið muni byggt á.37Alþingistíðindi 1915 A, bls. 1222, 7. liður.. Málið fór tvisvar sinnum í gegnum báðar deildir með töluverðum breytingum. Endanleg gerð er í Alþingistíðindum 1915 A, bls. 1677–1681. Staðfest sem lög um fasteignamat nr. 22/1915, 3. nóvember.38Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 79–82.
Lög þessi kváðu á um það, að allar jarðeignir, lóðir og hús á Íslandi skyldi meta til peningaverðs tíunda hvert ár. Fyrsta mat eftir lögunum skyldi fara fram árin 1916–1918 og því næst 1930 og svo hvert ár, er ártalið stæði á tug. Ef fasteign varð fyrir miklum skemmdum eða verðmæti rýrnaði til muna milli þess, sem lögákveðið mat færi fram, gat eigandi krafist endurvirðingar. Einnig gæti landsstjórnin látið fara fram nýtt mat á fasteignum, sem hækkuðu mjög í verði án tilkostnaðar af hálfu eiganda (1. grein). Í hverri sýslu og kaupstað skyldi skipa 3 menn í fasteignamatsnefnd og sömuleiðis 3 varanefndarmenn. Þriggja manna yfirmatsnefnd skyldi vera í hverri sýslu (lögsagnarumdæmi) og kaupstað (10. grein). Landsstjórn skyldi semja fasteignabók fyrir allt landið samkvæmt matsgerðum fasteignamatsnefnda með áorðnum breytingum. Átti hún að gilda frá 1. apríl eftir að matinu væri lokið, í fyrsta sinn frá 1. apríl 1920 (16. grein). Við gildistöku fasteignabókarinnar yrði Ný jarðabók fyrir Ísland úr gildi (18. grein).
Reglugerð um fasteignamat með leiðbeiningum um gerð þess var gefin út 26. janúar 1916.39Stjórnartíðindi 1916 B, bls. 13–29. Fasteignamatsnefndum var gefinn skilafrestur fram á árið 1919 með lögum nr. 19/1918 og lögum nr. 47/1919.40Stjórnartíðindi 1918 A, bls. 31; Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 153–154. Fasteignabók samkvæmt þessum lögum var gefin út árið 1921 en öðlaðist gildi 1. apríl 1922.41https://baekur.is/bok/0efe82c4-f00b-45e7-b0d8-ca5b5f8a4bf4/0/1/Fasteignabok#page/n0/mode/2, sótt 6. júní 2024.
Gerðabækur fasteignamatsnefnda og yfirmatsnefnda frá þessum tíma eru varðveittar í Þjóðskjalasafni Íslands. Óvíst er um varðveislu á vinnugögnum nefndanna. Þau geta e.t.v. að einhverju leyti verið varðveitt í héraðsskjalasöfnum. Matsbækur úr Reykjavík eru ekki komnar inn í leitarbæra tölvuskrá haustið 2024.
Skjöl: Gögn fastaeignamatsins 1916–1918 sjá: ÞÍ. Fjármálaráðuneytið 1935–007 AA/1–18, AB/1–7.
Samfara þessum fasteignamatslögum voru árið 1915 sett lög nr. 58/1915 um mælingar á túnum og matjurtagörðum42Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 179. og lög um mat á lóðum og löndum í Reykjavík nr. 59/1915.43Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 180–181. Frá lögunum nr. 58/1915 eru túnakortin í Þjóðskjalasafni sprottin. Þau má sjá á vef safnsins undir Heimildir.is / Stafrænar heimildir / Jarðir.
Ný reglugerð um fasteignamat var gefin út 24. maí 1929. Skyldi undirmati vera lokið fyrir 15. júlí 1930 og síðan á sama hátt tíunda hvert ár.44Stjórnartíðindi 1929 B, bls. 135–143.
Árið 1931 var gerð breyting á fasteignamatslögunum frá 1915, lög nr. 41/1931. Ný fasteignamatsbók átti að gilda frá 1. apríl 1932.45Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 81. Gekk það eftir og árið 1932 kom út Fasteignabók, löggilt af fjármálaráðuneytingu samkv. lögum nr. 41, 8. sept. 1931: öðlast gildi 1. apríl 1932. Fasteignamat þetta var unnið með sama hætti og hið næsta á undan,
Skjöl vegna fasteignamats, sem kennt er við árið 1930, eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands en ekki komin inn í leitarbæra tölvuskrá haustið 2024.46ÞÍ. Fjármálaráðuneytið Eitthvað af skjölum gæti verið í skjalasöfnum sýslumanna.
Ný lög um fasteignamat, nr. 3, voru sett 6. janúar 1938.47Stjórnartíðindi 1938 A, bls. 5–8. Allar fasteignir, jarðir og hús á landinu skyldi meta til peningaverðs tíunda hvert ár. Undirbúningur mats skyldi hefjast þegar og matinu lokið fyrir árslok 1941 og fasteignabók fullprentuð fyrir árslok 1942 (1. grein). Tíunda hvert ár skyldi skipa þrjá menn í fasteignamatsnefnd í hverri sýslu og hverju bæjarfélagi (9. grein) og fjármálaráðherra skipa þrjá menn í yfirfasteignamatsnefnd (10. grein). Reglugerð um fasteignamatið birtist þá um vorið.48Stjórnartíðindi 1938 B, bls. 81–85. Fasteignabók: löggilt af fjármálaráðuneytinu samkvæmt lögum nr. 3, 6. jan. 1938 kom út á árunum 1942–1944.
Skjöl þessa fasteignamats, sem kennt hefur verið við 1942, eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands en ekki komin í leitarbæra tölvuskrá árið 2024.49ÞÍ. Fjármálaráðuneytið Einnig eru einhver gögn, sem tengja má þessu mati, í skjalasafni Fasteignamats ríkisins í Þjóðskjalasafni Íslands.50ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65. Eitthvað af skjölum gæti verið í skjalasöfnum sýslumanna.
Ákveðið var í fasteignamatslögum nr. 70, 12. apríl 1945, að allar jarðir, lóðir og hús á landinu skyldi meta til peningaverðs tuttugasta og fimmta hvert ár (1. grein). Milli þess, sem aðalmat færi fram, skyldi meta öll ný hús og fasteignir, sem breyttust verulega að verðmæti. Það mat skyldu úttektarmenn í hreppum framkvæma en í kaupstöðum og þar, sem ekki væru úttektarmenn, skyldi skipa til þess tvo menn (12. grein).51Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 137–141.
Lög um samræmingu á mati fasteigna, nr. 33/1955, voru sett 14. maí 1955.52Stjórnartíðindi 1955 A, bls. 58–59. Árið 1955 skyldi fara fram endurskoðun fasteignamats frá 1942 og aukafasteignamatsins, sem gert hefði verið síðan. Verkið átti þriggja manna landsnefnd að vinna. Fasteignabók í þremur bindum kom út á árunum 1956–1957 eða: 1: Mat fasteigna í sýslum samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955; 2. Mat fasteigna í kaupstöðum, öðrum en Reykjavík samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955; 3. Mat fasteigna í Reykjavík samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955.
Skjöl vegna þessarar endurskoðunar eru í Þjóðskjalasafni Íslands.53ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65.
Ný lög um fasteignamat og fasteignaskráningu, nr. 28/1963, voru sett 29. apríl 1963.54Stjórnartíðindi 1963 A, bls. 213–218. Allar fasteignir á landinu, sem ekki væru sérstaklega undanteknar samkvæmt þeim lögum, skyldu metnar til peningaverðs. Allsherjarmat skyldi fara fram fimmtánda hvert ár og nefnast aðalmat fasteigna. Þegar aðalmati væri lokið, skyldi fjármálaráðherra löggilda fasteignamatsskrá og kveða á um frá hvaða tíma hún gilti. Fasteignamatsnefndir í héruðum framkvæmdu aðalmat fasteigna undir yfirstjórn yfirfasteignamatsnefndar. Fasteignamatsnefndir skyldu, eftir því sem við yrði komið, skoða þær eignir, sem meta skyldi. Þær áttu að senda yfirfasteignamatsnefnd öll matsgögn ásamt matsgerðum til endurskoðunar og samræmingar. Að því verki loknu átti nefndin að senda fjármálaráðherra matsskrárnar til löggildingar. Í lögunum voru ákvæði um fasteignamöt milli aðalmata (aukamöt, endurmöt). Fasteignamat ríkisins átti að vera sérstök deild í Fjármálaráðuneytinu og fjalla um fasteignamatsmálefni og varðveita öll gögn, sem vörðuðu fasteignamat. Hefjast skyldi handa við að koma upp sem nákvæmastri skráningu fasteigna í landinu („matrikel“).
Skjöl fasteignamats, sem unnið var að miklu leyti árið 1964, eru í Þjóðskjalasafni Íslands.55ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65. Hugsanlega getur eitthvað leynst í skjalasöfnum sýslumanna.
Næst komu lög um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, 20. maí 1976.56Stjórnartíðindi 1976 A, bls. 237–244. Halda skyldi skrá um allar fasteignir í landinu, þar sem fram kæmu upplýsingar um eiginleika eignanna og rétt til þeirra. Hverja fasteign skyldi meta til verðs eftir því sem næst yrði komist á hverjum tíma. Gerð og viðhald skráningarinnar annaðist sérstök ríkisstofnun, Fasteignamat ríkisins, sem starfaði á ábyrgð Fjármálaráðuneytisins. Viðkomandi sveitarstjórn væri ábyrg fyrir, að Fasteignamati ríkins bærust upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, gerð í umdæmum þeirra og breytingar á þeim. Sveitarstjórn skyldi að jafnað fela byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags upplýsingagjöf um fyrrgreind atriði. Fasteignamat ríkisins annaðist mat fasteigna samkvæmt lögum þessum. Yfirmat fasteigna annaðist yfirfasteignamatsnefnd fyrir landið allt. Fasteignamat ríkisins átti að taka við öllum eignum og gögnum, sem væru í vörslu fasteignamatsins í Reykjavík eða utan Reykjavíkur.
Skjöl: Skjala vegna fasteignamata allt frá 1944 er helst að leita í skjalasöfnum Fasteignamats ríkisins, sem að hluta eru komin Þjóðskjalasafn Íslands, og síðar Fasteignaskrár ríkisins. Vera má að skjöl vegna framkvæmda á jörðum eða annarra breytinga á þeim og nýs mats, sem af því leiddi, liggi í skjalasöfnum sveitarstjórna og sýslumanna.
Árið 2001 komu lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.57Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 7–14. Fasteignamat ríkisins skyldi annast fasteignaskráningu og rekstur gagna- og upplýsingakerfis, er nefndist Landskrá fasteigna og væri á tölvutæku formi. Viðkomandi sveitarstjórn væri ábyrg fyrir, að Fasteignamati ríkins bærust upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, gerð í umdæmum þeirra og breytingar á þeim. Sveitarstjórn skyldi að jafnað fela byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags upplýsingagjöf um fyrrgreind atriði. Yfirmat fasteigna annaðist yfirfasteignamatsnefnd fyrir landið allt.
Með lögum nr. 83/2008 kom Fasteignaskrá ríkisins í stað Fasteignamats ríkisins.58https://www.althingi.is/altext/stjt/2008.083.html, sótt 1. júlí 2024.
Fasteignaskrá Íslands og Þjóðskrá voru sameinaðar í eina ríkisstofnun, er nefndist Þjóðskrá Íslands, með lögum nr. 77/2010.59https://www.althingi.is/altext/stjt/2010.077.html, sótt 1. júlí 2024.
Fasteignaskrá var flutt frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með lögum nr. 36/2022.60https://www.althingi.is/altext/stjt/2022.036.html, sótt 2. júlí 2024. Þar er í 12. grein eftirfarandi viðbót við 2. grein laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001:
Stofnunin sér um fasteignaskrá og tengdar skrár og annast rekstur gagna- og upplýsingakerfa fasteignaskrár og útreikning fasteignamats og brunabótamats samkvæmt lögum sem um þau málefni gilda hverju sinni.61https://www.althingi.is/altext/stjt/2022.036.html, sótt 3. október 2024.
Tilvísanir
↑1 | Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 509, tíund. |
---|---|
↑2 | Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 209, hundrað. |
↑3 | https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2256, sótt 19. ágúst 2024. |
↑4 | Íslenzkt fornbréfasafn XII, bls. 355–363, sjá bls. 359 og 363. |
↑5 | Lovsamling for Island I, bls. 252. |
↑6 | Lovsamling for Island I, bls. 370–372. |
↑7 | ÞÍ. 1928–011 Rentukammer D2/1. |
↑8 | ÞÍ. 1928–011 Rentukammer E/3. |
↑9 | ÞÍ. 1928–011 Rentukammer E2, E/4 og E/5. |
↑10 | Lovsamling for Island I, bls. 582–592. |
↑11 | ÞÍ. 1928–011 Rentukammer D2/2–6; E/6–16. |
↑12 | ÞÍ. Skjalasafn landfógeta. Landf. XXII. 3. |
↑13 | Bjarni Vilhjálmsson, „Jarðir og bændur 1753“, Nýjar kvöldvökur 53. árgangur, 4. hefti, bls. 207–209. |
↑14 | Lovsamling for Island III, bls. 346–348. |
↑15 | ÞÍ. Skjalasafn landfógeta. Landf. XV. 1–2. |
↑16 | Magnús Már Lárusson, „Á höfuðbólum landsins“, Saga IX (1970), bls. 80. |
↑17 | Lovsamling for Island I, bls. 336; Alþingisbækur Íslands VII, bls. 228–229. |
↑18 | Lovsamling for Island III, bls. 633–634. |
↑19 | Lovsamling for Island IV, bls. 51–55. |
↑20 | Lovsamling for Island IV, bls. 400–401. |
↑21 | ÞÍ. Skjalasafn landfógeta. Landf. XXIII. Umboðsskjöl. |
↑22 | Lovsamling for Island IV, bls. 430. |
↑23 | Lovsamling for Island X, bls. 397–398. |
↑24 | Lovsamling for Island XI, bls. 301–302. |
↑25 | Lovsamling for Island VI, bls. 452–461, 475–481; Lovsamling for Island VII, bls. 80–81. |
↑26 | Lovsamling for Island IX, bls. 480–481. |
↑27 | Lovsamling for Island XII, bls. 349–351. |
↑28 | Lovsamling for Island XII, bls. 616–619. |
↑29 | Lovsamling for Island XIV, bls. 106–111, 171–180. |
↑30 | ÞÍ. Einkaskjalasafn Árni Thorsteinson E. 273, askja nr. 17. |
↑31 | Lovsamling for Island XVI, bls. 189–194; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 86–87, 113. |
↑32 | Lovsamling for Island XVI, bls. 313–314; Lovsamling for Island XVII, bls. 102–107; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 183–184, 313–314. |
↑33 | Lovsamling for Island XVII, bls. 508–518; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 272. |
↑34 | Lovsamling for Island XVIII, bls. 176–185; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 448–461. |
↑35 | Lovsamling for Island XIX, bls. 82–83; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II, bls. 60. |
↑36 | Alþingistíðindi 1915 A, bls. 457–458. |
↑37 | Alþingistíðindi 1915 A, bls. 1222, 7. liður. |
↑38 | Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 79–82. |
↑39 | Stjórnartíðindi 1916 B, bls. 13–29. |
↑40 | Stjórnartíðindi 1918 A, bls. 31; Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 153–154. |
↑41 | https://baekur.is/bok/0efe82c4-f00b-45e7-b0d8-ca5b5f8a4bf4/0/1/Fasteignabok#page/n0/mode/2, sótt 6. júní 2024. |
↑42 | Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 179. |
↑43 | Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 180–181. |
↑44 | Stjórnartíðindi 1929 B, bls. 135–143. |
↑45 | Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 81. |
↑46 | ÞÍ. Fjármálaráðuneytið |
↑47 | Stjórnartíðindi 1938 A, bls. 5–8. |
↑48 | Stjórnartíðindi 1938 B, bls. 81–85. |
↑49 | ÞÍ. Fjármálaráðuneytið |
↑50 | ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65. |
↑51 | Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 137–141. |
↑52 | Stjórnartíðindi 1955 A, bls. 58–59. |
↑53 | ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65. |
↑54 | Stjórnartíðindi 1963 A, bls. 213–218. |
↑55 | ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65. |
↑56 | Stjórnartíðindi 1976 A, bls. 237–244. |
↑57 | Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 7–14. |
↑58 | https://www.althingi.is/altext/stjt/2008.083.html, sótt 1. júlí 2024. |
↑59 | https://www.althingi.is/altext/stjt/2010.077.html, sótt 1. júlí 2024. |
↑60 | https://www.althingi.is/altext/stjt/2022.036.html, sótt 2. júlí 2024. |
↑61 | https://www.althingi.is/altext/stjt/2022.036.html, sótt 3. október 2024. |