Fyrsta skrifstofa Stjórnarráðs Íslands

Síðast breytt: 2021.06.23
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

1. skrifstofa Stjórnarráðs Íslands varð til, þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904 með einum ráðherra. Stjórnarráðinu var skipt í þrjár deildir/skrifstofur. 1. skrifstofa var í raun dómsmála-, skólamála- og kirkjumáladeild. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 317-320.

Mál, sem heyrðu undir 1. skrifstofu í upphafi, voru m.a.: Alþingiskosningar, blindrastofnanir, bókasöfn (þar með Landsskjalasafn), dóms- og lögreglumál, erfðamál, ríkisborgararéttur, heiðursmerki, heilbrigðismál, hjúskaparmál, kennslumál, kirkjumál, landhelgismál, lögræði og lögræðissvipting, náttúruvernd, ómyndugrafé, sifjamál (þar með ættleiðingar), strandmál, sýslumenn og bæjarfógetar, tombólur og lotterí, utanríkismál, vísindamál, þjóðminjar og Þjóðminjasafn, ættarnöfn.

Árið 1917 var ráðherrum fjölgað í þrjá og 1. skrifstofa varð dóms- og kirkjumáladeild, sem varð dóms- og kirkjumálaráðuneyti árið 1921. (Heitið 1. skrifstofa hélst  þó áfram. Raunar var farið að nota merkingu dóms- og kirkjumálaráðuneytis á kili bréfaskrárbóka 1. skrifstofu árið 1927). Málaflokkar 1. skrifstofu voru taldir upp árið 1917: Dómsmál, lögreglustjórn (þar með strandmál), veiting réttarfarslegra leyfisbréfa, yfirumsjón hegningarhússins og fangahúsa, klerka- og kirkjumál, ættar-, erfða-, persónu- og eignarréttarmál, heilbrigðismál (þar með yfirsetukvennamál), kennslumál nema búnaðarskólamál, alþingiskosningar og útgáfa Stjórnartíðinda. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 327-328.

Forsætisráðherraembættið fylgdi yfirleitt 1. skrifstofu, en árið 1924 voru nokkur mál falin forsætisráðherra sérstaklega: Almenn ákvæði um framkvæmdastjórn ríkisins, skipun ráðherra og lausn, forsæti ráðneytisins, skipting starfa ráðherranna, mál sem snertu Stjórnarráðið í heild og utanríkismál. Þá var forsætisráðherra  forseti bankaráðs Íslands. (Má því segja að þá hafi forsætisráðuneytið orðið til með sínu skjalasafni). Að öðru leyti má segja að þau mál hafi fylgt 1. skrifstofu, sem ákveðin voru árið 1917. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 329-330. Þar er vísað til konungsúrskurðar nr. 64, 29. desember 1924 um skipun og skiptingu starfa ráðherra.1Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 164-165

Umsjón með jarðeignum ríkisins (kirkjujörðum og þjóðjörðum (sem áður voru í atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu)) og jarðakaupum ríkisins voru falin starfsmanni í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu árið 1936. Var það kallað „Skrifstofa kirkjujarða og þjóðjarða“ en jarðeignadeild frá 1952-1953. Fór hún undir atvinnumálaráðuneytið sem landbúnaðarmál árið 1958. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 363-364.

Árið 1938 var stofnuð utanríkismáladeild. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 331.

Upp úr því urðu meiri breytingar á ráðuneytum og þar með stjórnarskrifstofum og 1. skrifstofa sem slík fór að fella fjaðrirnar. Árið 1939 varð til félagsmálaráðuneyti og þangað fóru heilbrigðsismálin úr 1. skrifstofu með öðrum félagsmálum, sem komu úr 2. skrifstofu. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 371. Síðustu færslur í bréfadagbók 1. skrifstofu eru frá árinu 1942. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið varð arftaki 1. skrifstofu nema þeirra mála sem fóru til forsætis- og utanríkisráðuneyta. Menntamálaráðuneytið tók til starfa árið 1946 þótt það væri ekki formlega stofnað fyrr en árið 1947.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 164-165
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 40