Hegningarhús var stofnað á Íslandi með konungsúrskurði 20. mars 1759. Til þess skyldi renna allur sakeyrir, svo og skattur, sem lagður yrði á jarðeignir og eigendur greiddu en ekki leiguliðar. Árið 1764 voru Þingeyraklaustur og Arnarhóll í Seltjarnarneshreppi lögð til hegningarhússins. Tekjurnar af Þingeyraklaustri voru afnumdar árið 1773. Þá skyldi Arnarhóll tekinn undan hegningarhússsjóði, en afgjald af jörðinni var ekki greitt í Jarðabókarsjóð fyrr en árið 1803. 1Lovsamling for Island III, bls. 346–350, 510–512, 553–554,738–739; Lovsamling for Island IV, bls. 112.
Árið 1772 (konungsbréf 4. apríl) lögðust sjóðnum til legorðsbrotatekjur, þegar vatns- og brauðsvist fyrir slík afbrot var afnumin en sektir komu í staðinn. Þetta var tekið af með bréfi 11. október 1806. 2Lovsamling for Island III, bls. 748; Lovsamling for Island VII, bls. 96. Einnig skyldu embættismenn greiða í sjóðinn 5% af fyrsta árs embættislaunum sínum samkvæmt konungsúrskurði frá 9. ágúst 1786. 3Lovsamling for Island V, bls. 298–299.
Hegningarhússskattur af stólsjörðum og kirkjueignum var felldur niður frá ársbyrjun 1793, þó ekki af bændakirkjueignum. Skatturinn var síðan afnuminn með öllu frá árslokum 1796 og jafnframt var sakeyrir tekinn af hegningarhússsjóði. 4Lovsamling for Island VI, 90–91, 168–169, 261–262.
Árið 1814 gafst stiftamtmaður upp á rekstri hegningarhússins og sendi fangana heim. 5Björn Þórðarson: Refsivist á Íslandi 1761–1925. Reykjavík 1926, bls 125–126. Hegningar- og betrunarhússvist á Íslandi var afnumin, þangað til öðru vísi yrði ákveðið, með konungsbréfi 3. maí 1816. Sérstakur hegningarhússreikningur var þó haldinn til ársloka 1819.
Reikningsár hegningarhússreikninga var jafnan almanaksárið nema árið 1813, þá var reikningnum skipt í tvennt.
Oft má sjá eignarhald á jörðum (konungsjörð, bændaeign o.s.frv.) í þingsvitnum um hegningarhússkatt, sem eru í hegningarhússreikningum, en sjaldnast nöfn eigenda.
Hegningarhússreikningar eru varðveittir í skjalasafni landfógeta í Þjóðskjalasafni Íslands.
Heimildir:
Björk Ingimundardóttir: Skjalasafn landfógeta 1695–1904, Reykjavík 1986, bls. 88.
Björn Þórðarson: Refsivist á Íslandi 1761–1925. Reykjavík 1926.
Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 481–482 (Stjórnarráðshúsið).
Tilvísanir
↑1 | Lovsamling for Island III, bls. 346–350, 510–512, 553–554,738–739; Lovsamling for Island IV, bls. 112. |
---|---|
↑2 | Lovsamling for Island III, bls. 748; Lovsamling for Island VII, bls. 96. |
↑3 | Lovsamling for Island V, bls. 298–299. |
↑4 | Lovsamling for Island VI, 90–91, 168–169, 261–262. |
↑5 | Björn Þórðarson: Refsivist á Íslandi 1761–1925. Reykjavík 1926, bls 125–126. |