Heimanfylgja prinsessu

Síðast breytt: 2021.06.03
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Kristján I. Danakonungur gifti Margréti dóttur sína Jakobi III. Skotakonungi árið 1479. Heimanfylgja hennar átti að vera 60.000 gyllini og vegna fjárskorts setti Kristján konungur Hjaltland og Orkneyjar að veði en leysti veðið aldrei til sín. Síðan hafa eyjarnar tilheyrt Skotlandi og síðar Stóra-Bretlandi.1Saga Íslands V, bls. 72.

Danakonungar áttu löngum í fjárhagsvandræðum. Þó leitaði aðeins einn þeirra til Íslendinga til þess að gera dóttur sína hæfilega úr garði. Árið 1749 gerði Friðrik V. hjúskaparsamning við Ernst Friderich Carl hertoga af Saxlandi vegna Lovísu dóttur sinnar og því var gefin út tilskipun 4. nóvember 1749 um „princesseinde-styrs paabud” í Noregi. Skyldu allir, sem hefðu laun eða eftirlaun frá konungi, án tilillits til kyns, greiða skatt á næsta ári, á tveimur gjalddögum. Þeir, sem hefðu 200 ríkisdala laun eða meira, skyldu greiða fimm prósent í hvert skipti og sömuleiðis af aukatekjum og gjöldum, sem embættunum fylgdu. Þeir, sem fengju laun undir 200 ríkisdölum að 100 ríkisdölum, greiddu tvo ríkisdali hvert skipti en af launum undir 100 ríkisdölum einn ríkisdal.2Lovsamling for Island III, bls. 21. Tilskipunin var ekki birt á Íslandi, en var milduð vegna Íslendinga með konungsúrskurði 28. júní 1751 eins og kemur fram í rentukammerbréfi til Skúla Magnússonar landfógeta 15. apríl 1752, sem birt var á alþingi sama ár:

Var upplesið cammer-collegii missive til landfógetans af 15. Aprilis a.c. áhrærandi hans Majest. allra-náðugustu resolution af 28. Junij 1751 um princessindens styrs útlag hér í landi, so vel af konglegum betienter, sem hafa til árlegra launa yfir 100 rixd., sem af jarða góts eigendum, hvörra árleg innkomst af þeirra gótsi yfirstígur áðurnefnda summu, að sérhvör þessara skuli betala 1/10 p<art> af öllu því, sem þeirra embætti, klaustur eður umboð samt eigindóms góts þeirra innrentar.3Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 78; sbr. Lovsamling for Island III, bls. 96, 119–121.

Íslendingar báru sig illa undan skattheimtunni og gekk hún ekki ýkja vel eins og sjá má af Jarðabókarsjóðsreikningum og bréfum í skjalasöfnum landfógeta og rentukammers. Konungleg tilskipun um breyttan skattstofn og eftirgjöf til ekkna tveggja biskupa og linun á skatti frá fjórum sýslumönnum var gefin út 10. maí 1756 og útdráttur birtur á alþingi sama ár:

1. Hans kongl. Majest. allranáðugasta resolution angaaende princessinde styhrens innköllun, að hann einasta eftir þeim anfærðu föstu inntektum af sýslum, klaustrum og presta-köllum takist. 2. Communicerast, að hans Majest. hafi allra-náðugast eftirgefið biskups-ekkjunum princessinde styhren, sem af stólunum svarast skyldu, og 3. Að sýslumönnunum hr. Birni Markússyni, Arnóri Jónssyni og Erlendi Ólafssyni, samt sýslumannsins Guðmundar Sigurðssonar sterf-búi, sé eftir gefinn helmingur þess princessinde styhrs, sem þeim tilkom að svara, en ei fleirum.4Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 215; sbr. Lovsamling for Island III, bls. 237–238.

Dæmi um streð Íslendinga vegna heimanfylgju prinsessunnar má sjá í Alþingisbókum Íslands árið 1757, þar sem fjallað er um upptöku á hluta þess fiskjar, sem Högni Sigurðsson prófastur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð lagði inn í Eyrarbakkaverslun, og eftirgjöf konungs til prófastsins á skattgjaldinu.5Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 273, 21. liður.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Saga Íslands V, bls. 72.
2 Lovsamling for Island III, bls. 21.
3 Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 78; sbr. Lovsamling for Island III, bls. 96, 119–121.
4 Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 215; sbr. Lovsamling for Island III, bls. 237–238.
5 Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 273, 21. liður.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 54