Hreppaskilaþing / hreppskilaþing / hreppstjóraþing

Síðast breytt: 2025.03.17
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín

Hreppsbændum var skylt að sækja eða senda fulltrúa á þrjár samkomur, þ.e. á einmánuði, eftir vorþing og um veturnætur. Á haustsamkomu, eftir setningu tíundarlaga, skyldu menn telja fram með svörnum eiði og greiða tíund fyrir Marteinsmessu (11. nóvember).1Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 205.

Jónsbók segir bændur skylda að sækja fjögur þing:

Það þing sem konungsbréf skal upplesa og manndrápsþing og manntalsþing til jafnaðar, og það þing er hreppstjórn heyrir til.2Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 148.

Í reglugerð um tekjur presta og kirkna á Íslandi, 17. júlí 1782, 1. og 2. grein segir, að hver bóndi skuli árlega sækja hreppstjóraþing og gefa þar upp eigur sínar til tíundarvirðingar.3Lovsamling for Island IV, bls. 664–666. Til þessara ákvæða er vísað í hreppsstjórainstrúxinu frá 24. nóvember 1809, VIII. og IX. kafla.4Lovsamling for Island VII, bls. 312–313.

Með opnu bréfi 21. apríl 1847 var ákveðið, að hreppsstjóraþing á Íslandi skyldu haldin tvisvar á ári, vorþing á tímabilinu 16.–24. júní, þó í Skaftafellssýslum í fardagavikunni í byrjun júní, haustþing á tímabilinu 1.–20. október. (Lovsamling for Island XIII, bls. 674–676.)) Konunglegt frumvarp um þetta efni var lagt fram á Alþingi árið 1845. Í álitsskjali um frumvarpið segir, að hreppsstjóraþing hafi einungis verið haldin á haustin í vesturumdæminu (Vesturamtinu), í hinum bæði haust og vor, og hvergi bundin við vissan tíma. Nauðsynlegt sé, að skipa þessum þingum eftir fastri reglu. Þingmenn hafi greint á um, hvort halda skyldi bæði þingin, en flestir viljað tvö þing: Vorþing, einkum til tíundarframtals og til búskapartöflunnar (búnaðarskýrslna), haustþing, eins og viðgengist hefði, til þess að ráðstafa sveitarómögum og niðurjöfnunar aukaútsvara til fátækra.5Tíðindi frá Alþíngi Íslendínga 1845, bls. 283–285, sjá og bls. 122–130, 172–175 og viðbæti bls. 25–29. Vorþingatíminn var ákveðinn 6.–24. júní með opnu bréfi 18. ágúst 1864. Í Skaftafellssýslum hélst hann þó óbreyttur. (Lovsamling for Island XIX, bls. 118–119.)) 

            Tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi, 4. maí 1872, mælir svo fyrir í 6. grein, að hreppsnefndarkosningar fari fram á hreppaskilaþingi á vorin, nema um aukakosningar sé að ræða. Hreppsnefndarfundi skyldi halda a.m.k. tvo á ári, haust og vor, í heyranda hljóði og boða til þeirra með þingboði, samkvæmt 12. grein. Hreppsnefndin hafði umsjón með þinghúsi hreppsins eftir 18. grein og gerði áætlun um tekjur hreppsins og útgjöld og jafnaði niður því, sem fátækratíund og aðrar tekjur hrykkju ekki til fyrir útgjöldum samkvæmt 19. grein.6Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III, bls. 395–396, 398, 400–401. Ákvæði um hreppsnefndarfundi í heyranda hljóði er ekki í 26. grein sveitarstjórnarlaga nr. 43/1905 og fundarstaður að vali hreppsnefndar eða oddvita. 7Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 240.

            Hreppaskilaþingin héldust þó áfram.

            Árið 1878 tóku gildi lög um tekjuskatt nr. 23/1877, sem kváðu svo á í 13. grein, að á hreppastefnum á haustum og í kaupstöðum á fundi, sem haldinn skyldi í októbermánuði ár hvert, skyldu hreppsbúar eða kaupstaðarbúar gefa skattanefndum skýrslu um tekjur sínar.8Stjórnartíðindi 1877 A, bls. 102.

            Lög um lausafjártíund nr. 6/1878 segja í fyrstu grein, að hver maður, karl eða kona, sem ætti 60 álna eða hálft hundrað í tíundarbæru lausafé, skyldi tíunda það á hverju ári. Á vorhreppaskilum skyldi telja fram fyrir hreppsstjóra eða bæjarstjóra lausafjáreign í fardögum og á hausthreppaskilum það, sem farist hefði frá vorframtali, sem og pening, sem undanþeginn væri tíund. Tvenn hreppaskil skyldu haldin á ári samkvæmt 4. grein: Á vori, 12.–24. júní, og hausti, 1.–20. október. Hver búandi maður skyldi mæta á hreppaskilaþingi, sem hann ætti sókn að, og telja fram tíundarbært lausafé sitt, hjúa sinna og annarra, sem á hans vegum væru, ef þeir mættu ekki sjálfir. Lágu við sekt, ef menn mættu ekki eða létu fullveðja mann mæta fyrir sig. Hér var um að ræða fátækra-, kirkju- og preststíund eftir 12. grein laganna.9Stjórnartíðindi 1878 A, bls. 58, 60, 62. Konungstíund hvarf úr sögunni.

            Sett voru sérstök lög um hreppskilaþing nr. 69/1921, 27. júní: Í hverjum hreppi og kaupstað skyldi halda tvö hreppskilaþing á ári, vorþing 1.–20. júní og haustþing 1.–20. október. Var hver búandi og aðrir, sem lögskil ættu að gera á hreppskilaþingi, skyldir til þess að sækja það eða setja gildan mann í sinn stað, að viðlögðum sektum.10Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 223. Í athugasemdum með lagafrumvarpinu segir að fella eigi lausafjártíundarlögin úr gildi, en ekki væri hægt að komast hjá hreppskilaþingum, því að þar væru vor og haust framkvæmd ýmis lögboðin störf, svo sem framtal til hagfræðiskýrslna, kosning hreppsnefndarmanna og ýmissa annarra starfsmanna í þarfir þjóðfélagsins, birting laga og stjórnarráðstafanna m.m. Ennfremur venjulega tekin til umræðu ýmis mál, sem sveitina vörðuðu sérstaklega.11Alþingistíðindi 1921 A, bls. 126–127. Samkvæmt 11. grein sveitarstjórnarlaga nr. 43/1905, 10. nóvember, áttu hreppsnefndarkosningar að fara fram í júní.12 Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 234. Alþingismönnum hefur líklega þótt heppilegt, að kosningar færu fram á hreppaskilaþingum.

            Opinbert framtal varð úr sögunni með lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 74/1921, 27. júní, sem komu til framkvæmda á næsta ári. Þar segir í 31. grein, að allir, sem hefðu skattskyldar tekjur, skyldu fyrir febrúarlok ár hvert afhenda skattanefnd skriflega skýrslu, að viðlögðum drengskap, um tekjur sínar síðastliðið ár og eignir í árslok.13Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 287–288.

            Lögin um hreppskilaþing nr. 69/1921 voru numin úr gildi með 110. grein sveitarstjórnarlaga nr. 58/1961, 29. mars.14Stjórnartíðindi 1961 A, bls. 140. Í staðinn kom ákvæði í 31. grein laganna um heimild eða skyldu til almennra sveitarfunda.15Stjórnartíðindi 1961 A, bls. 127. Ekki hefur verið kannað, hvort eða hvernig sveitarfélög fóru eftir lögunum frá 1921.

            Friðrik G. Olgeirsson sagnfræðingur lýsir niðurjöfnun útsvara og tíundarskráningu á hreppaskilaþingum á vorin í bók sinni Í þágu þjóðar.16Friðrik G. Olgeirsson, Í þágu þjóðar. Saga skatta og skattkerfisbreytinga á Íslandi 1877–2012 I. Reykjavík 2013, bls. 22.

(Heimildir um hreppaskilaþing er einkum að finna í hreppsbókum (hreppsstjóra og sveitarstjórna), sem eru varðveittar í héraðsskjalasöfnum og að nokkru leyti í Þjóðskjalasafni Íslands.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 205.
2 Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 148.
3 Lovsamling for Island IV, bls. 664–666.
4 Lovsamling for Island VII, bls. 312–313.
5 Tíðindi frá Alþíngi Íslendínga 1845, bls. 283–285, sjá og bls. 122–130, 172–175 og viðbæti bls. 25–29.
6 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III, bls. 395–396, 398, 400–401.
7 Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 240.
8 Stjórnartíðindi 1877 A, bls. 102.
9 Stjórnartíðindi 1878 A, bls. 58, 60, 62.
10 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 223.
11 Alþingistíðindi 1921 A, bls. 126–127.
12 Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 234.
13 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 287–288.
14 Stjórnartíðindi 1961 A, bls. 140.
15 Stjórnartíðindi 1961 A, bls. 127.
16 Friðrik G. Olgeirsson, Í þágu þjóðar. Saga skatta og skattkerfisbreytinga á Íslandi 1877–2012 I. Reykjavík 2013, bls. 22.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 2