Íslenska stjórnardeildin

Síðast breytt: 2021.06.23
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Íslenska stjórnardeildin var stofnuð í innanríkisráðuneytinu danska samkvæmt konungsúrskurði frá 10. nóvember 1848. Í tillögu A.W. Moltke forsætisráðherra til Danakonungs segir, að íslensk, færeysk og grænlensk mál hafi hingað til að mestu fallið undir rentukammerið. Dómsmál hafi endanlega verið afgreidd í kansellíinu, nú dómsmálaráðuneytinu, og málefni æðri skóla í stjórnarnefnd háskólans og æðri skóla („Direction for universitetetet og de lærde skoler“). nú kirkju- og kennslumálaráðuneytinu. Þó hafi í öllum mikilvægari málum verið haft bréfasamband við rentukammerið. Nauðsynlegt sé að halda við samhengi mála, sem verða til vegna sérstakra aðstæðna og krefjast nákvæmrar þekkingar á hjálendunum og hafa mikil áhrif á meðferð málanna. Því hafi ríkisráðið álitið að réttast væri að stofna sérstaka deild fyrir íslensk, færeysk og grænlensk mál til þess að flýta málsmeðferð. Deildarstjórinn yrði síðan í sambandi við þau ráðuneyti sem málin heyri undir.1Lovsamling for Island XIV, bls. 206-209.

Mánuði síðar var tilkynnt um skipulag stjórnardeildarinnar og innanríkisráðuneytisins.2Lovsamling for Island XIV, bls 209-213.

Innanríkisráðuneytið gaf út þau fyrirmæli 16. júní 1849 um embættisafgreiðslur að málin ætti stíla til ráðuneyta, sem færu með þau mál, en væri einhver vafi á, hvaða ráðuneyti færi með málið, ætti að senda það til innanríkisráðuneytisins. Allar afgreiðslur varðandi Ísland ætti að senda innanríkisráðuneytinu.3Lovsamling for Island XIV, bls. 303. Síðar sama ár fór innanríkisráðuneytið fór fram á það við dómsmálaráðuneytið 21. ágúst 1849, að skjöl 5-6 síðustu ára varðandi Ísland, sem og skjöl vegna endurskoðunar, yrðu afhent íslensku stjórnardeildinni. En stjórnardeildin sjálf yrði að sækja eldri skjöl.4Lovsamling for Island XIV, bls. 327-328.

Málefni Íslands og Færeyja fóru undir dómsmálaráðuneytið 1. nóvember 1855 og íslenska stjórnardeildin þar með. Þó heyrði skrifstofustjórinn áfram undir kirkju- og kennslumálaráðuneytið í þeim málum, sem því ráðuneyti tilheyrðu.5Lovsamling for Island XVI, bls, 350-351.

Endurskoðunardeild var stofnuð innan innanríkiráðuneytisins árið 1860 sem m.a. átti að taka yfir endurskoðunarskrifstofu íslenzkra, færeyskra og grænlenskra reikninga í dómsmálaráðuneytinu.6Lovsamling for Island XVIII, bls. 68-70.

Sérstakt stjórnarráð Íslands var stofnað 1. ágúst 1874 samkvæmt stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands 5. janúar 1874 og auglýsingu frá 14. júlí sama ár. Öll mál, viðvíkjandi Íslandi, sem hingað til hefðu verið afgreidd í hinni íslenzku stjórnardeild, er heyrði undir dómsmálastjórnina, og að því er snerti kirkju- og skólamál, undir kirkju- og kennslustjórnirna, yrðu frá 1. ágúst lögð undir stjórnarráðið fyrir Ísland, og öll sérstakleg, íslenzk málefni yrðu framvegis afgreidd í þessu stjórnarráði, að undantekinni endurskoðun íslenzkra reikninga, sem 1. reikningastjórnardeild fjárhagsstjórnarinnar skyldi hafa á hendi fyrst um sinn eins og hingað til. 16. júlí var Christian Sophus Klein dómsmálaráðherra skipaður einnig Íslandsráðherra frá 1. ágúst sama ár.7Stjórnartíðindi 1874 A,bls. 2; Lovsamling for Island XXX, bls. 847-849.

Með stjórnskipunarlögum nr. 16 3. október 1903 um breyting á stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands 5. janúar 1874 var ákveðið, að ráðherra Íslands hefði aðsetur í Reykjavík og með lögum nr. 17 3. október 1903 um aðra skipun á æðstu umboðsstjórn Íslands var ákveðið að stofna stjórnarráð fyrir Ísland í Reykjavík.

Skjalasafn íslensku stjórnardeildarinnar var sent Hannesi Hafstein verðandi ráðherra snemma árs 1904.8ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin Isl. journal 20, nr. 508. Bréfaskráning í íslensku stjórnardeildinni var í upphafi eftir rentukammerkerfi, bréf skráð í þeirri tímaröð sem þau bárust en bréfum um sama eða svipuð málefni safnað saman og færslur sýndar í bréfadagbók. Snemma á árinu 1864 var farið að skrá bréf eftir málefnum, kansellíkerfi. Við frágang á skjalasafni stjórnardeildarinnar voru málsskjöl sett í arkir og utan á þær skrifaðar upplýsingar um síðasta mál í örkinni, svo að fara verður í bréfadagbækur til þess að finna upplýsingar um önnur mál, sem í örkinni gætu legið.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island XIV, bls. 206-209.
2 Lovsamling for Island XIV, bls 209-213.
3 Lovsamling for Island XIV, bls. 303.
4 Lovsamling for Island XIV, bls. 327-328.
5 Lovsamling for Island XVI, bls, 350-351.
6 Lovsamling for Island XVIII, bls. 68-70.
7 Stjórnartíðindi 1874 A,bls. 2; Lovsamling for Island XXX, bls. 847-849.
8 ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin Isl. journal 20, nr. 508.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 2 af 2 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 89