Í konungsúrskurði 8. júní 1842 um skattakerfi og jarðaskrár var lögð áhersla á, að Rentukammer tæki að sinna nýju jarðamati fyrir Ísland.1Lovsamling for Island XII, bls. 349–351. Árið 1843 fól Rentukammer Jóni Johnsen landsyfirréttardómara að safna hagfræðilegum (statistiskum) upplýsingum um jarðeignir á Íslandi og gefa út og stiftamtmanni boðið að láta sýslumenn senda Jóni upplýsingar.2Lovsamling for Island XII, bls. 616–619. Jón hafði þá þegar hafið söfnun heimilda um jarðir og árið 1847 gaf hann út ritið Jarðatal á Íslandi, ásamt brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum, ágripi úr búnaðartöflum 1855 (sic., rétt 1835)–1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða á landinu.
Tilskipun um nýjan jarðadýrleika á Íslandi var gefin út og staðfest 27. maí 1848 og sýslumönnum, matsmönnum og yfirmatsmönnum gefin erindisbréf 1. september sama ár.3Lovsamling for Island XIV, bls. 106–111, 171–180. Sýslumenn önnuðust gagnaöflun og skýrslur voru gerðar.
Skjöl frá 1849–1850: Bækur, sem sýslumenn hafa sent frá sér, eru sérstakur flokkur í skjalasafni Íslensku stjórnardeildarinnar í Þjóðskjalasafni, sem ekki hefur enn (2024) verið sett inn í leitarbæra skrá. Í skjalasöfnum sýslumanna í Þjóðskjalasafni má finna gögn þessa mats, t.d. eru jarðamatsskjöl frá 1849 í safni sýslumannsins í Norður-Múlasýslu og bæjarfógetans á Seyðisfirði, ÞÍ. 004 OB/3 örk 6. Í skjalasafni Árna Thorsteinson landfógeta er jarðamatið 1849–1850, leiðrétt af jarðamatsnefndinni, sem skipuð var 1855.4ÞÍ. Einkaskjalasafn Árni Thorsteinson E. 273, askja nr. 17. — Þá má nefna skjöl í handritadeild Landsbókasafns – Háskólabókasafns: Lbs. 718 8vo. „Jarðabók yfir allar jarðir á Íslandi“, skr. ca. 1840–1850 og JS. 114 fol. Jarðabók 1849 (vantar í Vesturamt).
Samkvæmt konungsúrskurði 18. maí 1855 var tillaga innanríkisráðuneytisins um framkvæmd jarðamatsins lögð fyrir Alþingi til meðferðar.5Lovsamling for Island XVI, bls. 189–194; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 86–87, 113.
Árið 1855 var skipuð ný nefnd til frekari úrvinnslu jarðamatsins eða þeir Vilhjálmur Finsen landfógeti og bæjarfógeti í Reykjavík og alþingismennirnir Jón Guðmundsson málafærslumaður og Jón Pétursson landsyfirréttardómari. Tillaga þeirra kom fyrir Alþingi samkvæmt konungsúrskurði 27. maí 1857.6Lovsamling for Island XVI, bls. 313–314; Lovsamling for Island XVII, bls. 102–107; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 183–184, 313–314. Eftir konungsúrskurði 27. maí 1859 var tillaga að tilskipun um nýja jarðabók lögð síðan fyrir Alþingi.7Lovsamling for Island XVII, bls. 508–518; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 272.
Tilskipun um nýja jarðabók fyrir Ísland var gefin út 1. apríl 1861. Skyldi hún taka gildi 6. júní 1862.8Lovsamling for Island XVIII, bls. 176–185; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 448–461. Frumvarp til nýrrar jarðabókar fyrir Ísland kom út árið 1861 og síðar sama ár Ný jarðabók fyrir Ísland, samin eptir tilskipun 27. maímánaðar 1848 og allramildilegast staðfest með tilskipun 1. aprílmánaðar 1861.
Skjöl vegna jarðabókarnefndarinnar 1855–1861: ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin J. I. 1. 1856: Jarðamatið, skjöl og skýrslur. ÞÍ. Einkaskjalasafn Árni Thorsteinson E. 273, askja nr. 8, þar eru skjöl vegna jarðamatsins 1855–1859 o.fl., og í öskju nr. 17 er jarðamatið 1849–1850, leiðrétt af jarðamatsnefndinni, sem skipuð var 1855. Landsbókasafn – Háskólabókasafn: Lbs. 194 fol. Skýrslur til undirbúnings jarðamatinu 1861 með leiðréttingum og athugasemdum Vilhjálms Finsens.
Einhver vafi kom upp um álnafjölda í jarðahundruðum eftir nýja matinu og dómsmálaráðuneytið sagði í bréfi til stiftamtmanns 29. júní 1864, að gamla reglan um 120 álnir í hundraði stæði, en ekki 100 álnir.9Lovsamling for Island XIX, bls. 82–83; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II, bls. 60.
Nánar er hægt að lesa um jarðamat hér.
Tilvísanir
↑1 | Lovsamling for Island XII, bls. 349–351. |
---|---|
↑2 | Lovsamling for Island XII, bls. 616–619. |
↑3 | Lovsamling for Island XIV, bls. 106–111, 171–180. |
↑4 | ÞÍ. Einkaskjalasafn Árni Thorsteinson E. 273, askja nr. 17. |
↑5 | Lovsamling for Island XVI, bls. 189–194; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 86–87, 113. |
↑6 | Lovsamling for Island XVI, bls. 313–314; Lovsamling for Island XVII, bls. 102–107; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 183–184, 313–314. |
↑7 | Lovsamling for Island XVII, bls. 508–518; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 272. |
↑8 | Lovsamling for Island XVIII, bls. 176–185; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 448–461. |
↑9 | Lovsamling for Island XIX, bls. 82–83; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II, bls. 60. |