Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður lagði fram frumvarp til laga um nýtt jarðamat á Alþingi árið 1915.1Alþingistíðindi 1915 A, bls. 457–458. Í nefndaráliti neðri deildar er minnst á frumvarp skattanefndar frá 1907 um jarðamat, sem frumvarpið muni byggt á.2Alþingistíðindi 1915 A, bls. 1222, 7. liður.. Málið fór tvisvar sinnum í gegnum báðar deildir með töluverðum breytingum. Endanleg gerð er í Alþingistíðindum 1915 A, bls. 1677–1681. Staðfest sem lög um fasteignamat nr. 22/1915, 3. nóvember.3Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 79–82.
Lög þessi kváðu á um það, að allar jarðeignir, lóðir og hús á Íslandi skyldi meta til peningaverðs tíunda hvert ár. Fyrsta mat eftir lögunum skyldi fara fram árin 1916–1918 og því næst 1930 og svo hvert ár, er ártalið stæði á tug. Ef fasteign varð fyrir miklum skemmdum eða verðmæti rýrnaði til muna milli þess, sem lögákveðið mat færi fram, gat eigandi krafist endurvirðingar. Einnig gæti landsstjórnin látið fara fram nýtt mat á fasteignum, sem hækkuðu mjög í verði án tilkostnaðar af hálfu eiganda (1. grein). Í hverri sýslu og kaupstað skyldi skipa 3 menn í fasteignamatsnefnd og sömuleiðis 3 varanefndarmenn. Þriggja manna yfirmatsnefnd skyldi vera í hverri sýslu (lögsagnarumdæmi) og kaupstað (10. grein). Landsstjórn skyldi semja fasteignabók fyrir allt landið samkvæmt matsgerðum fasteignamatsnefnda með áorðnum breytingum. Átti hún að gilda frá 1. apríl eftir að matinu væri lokið, í fyrsta sinn frá 1. apríl 1920 (16. grein). Við gildistöku fasteignabókarinnar yrði Ný jarðabók fyrir Ísland úr gildi (18. grein).
Reglugerð um fasteignamat með leiðbeiningum um gerð þess var gefin út 26. janúar 1916.4Stjórnartíðindi 1916 B, bls. 13–29. Fasteignamatsnefndum var gefinn skilafrestur fram á árið 1919 með lögum nr. 19/1918 og lögum nr. 47/1919.5Stjórnartíðindi 1918 A, bls. 31; Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 153–154. Fasteignabók samkvæmt þessum lögum var gefin út árið 1921 en öðlaðist gildi 1. apríl 1922.6https://baekur.is/bok/0efe82c4-f00b-45e7-b0d8-ca5b5f8a4bf4/0/1/Fasteignabok#page/n0/mode/2, sótt 6. júní 2024.
Gerðabækur fasteignamatsnefnda og yfirmatsnefnda frá þessum tíma eru varðveittar í Þjóðskjalasafni Íslands. Óvíst er um varðveislu á vinnugögnum nefndanna. Þau geta e.t.v. að einhverju leyti verið varðveitt í héraðsskjalasöfnum. Matsbækur úr Reykjavík eru ekki komnar inn í leitarbæra tölvuskrá haustið 2024.
Skjöl: Gögn fastaeignamatsins 1916–1918 sjá: ÞÍ. Fjármálaráðuneytið 1935–007 AA/1–18, AB/1–7.
Samfara þessum fasteignamatslögum voru árið 1915 sett lög nr. 58/1915 um mælingar á túnum og matjurtagörðum7Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 179. og lög um mat á lóðum og löndum í Reykjavík nr. 59/1915.8Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 180–181. Frá lögunum nr. 58/1915 eru túnakortin í Þjóðskjalasafni sprottin. Þau má sjá á vef safnsins undir Heimildir.is / Stafrænar heimildir / Jarðir.
Ný reglugerð um fasteignamat var gefin út 24. maí 1929. Skyldi undirmati vera lokið fyrir 15. júlí 1930 og síðan á sama hátt tíunda hvert ár.9Stjórnartíðindi 1929 B, bls. 135–143.
Árið 1931 var gerð breyting á fasteignamatslögunum frá 1915, lög nr. 41/1931. Ný fasteignamatsbók átti að gilda frá 1. apríl 1932.10Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 81. Gekk það eftir og árið 1932 kom út Fasteignabók, löggilt af fjármálaráðuneytingu samkv. lögum nr. 41, 8. sept. 1931: öðlast gildi 1. apríl 1932. Fasteignamat þetta var unnið með sama hætti og hið næsta á undan,
Skjöl vegna fasteignamats, sem kennt er við árið 1930, eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands en ekki komin inn í leitarbæra tölvuskrá haustið 2024.11ÞÍ. Fjármálaráðuneytið Eitthvað af skjölum gæti verið í skjalasöfnum sýslumanna.
Ný lög um fasteignamat, nr. 3, voru sett 6. janúar 1938.12Stjórnartíðindi 1938 A, bls. 5–8. Allar fasteignir, jarðir og hús á landinu skyldi meta til peningaverðs tíunda hvert ár. Undirbúningur mats skyldi hefjast þegar og matinu lokið fyrir árslok 1941 og fasteignabók fullprentuð fyrir árslok 1942 (1. grein). Tíunda hvert ár skyldi skipa þrjá menn í fasteignamatsnefnd í hverri sýslu og hverju bæjarfélagi (9. grein) og fjármálaráðherra skipa þrjá menn í yfirfasteignamatsnefnd (10. grein). Reglugerð um fasteignamatið birtist þá um vorið.13Stjórnartíðindi 1938 B, bls. 81–85. Fasteignabók: löggilt af fjármálaráðuneytinu samkvæmt lögum nr. 3, 6. jan. 1938 kom út á árunum 1942–1944.
Skjöl þessa fasteignamats, sem kennt hefur verið við 1942, eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands en ekki komin í leitarbæra tölvuskrá árið 2024.14ÞÍ. Fjármálaráðuneytið Einnig eru einhver gögn, sem tengja má þessu mati, í skjalasafni Fasteignamats ríkisins í Þjóðskjalasafni Íslands.15ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65. Eitthvað af skjölum gæti verið í skjalasöfnum sýslumanna.
Ákveðið var í fasteignamatslögum nr. 70, 12. apríl 1945, að allar jarðir, lóðir og hús á landinu skyldi meta til peningaverðs tuttugasta og fimmta hvert ár (1. grein). Milli þess, sem aðalmat færi fram, skyldi meta öll ný hús og fasteignir, sem breyttust verulega að verðmæti. Það mat skyldu úttektarmenn í hreppum framkvæma en í kaupstöðum og þar, sem ekki væru úttektarmenn, skyldi skipa til þess tvo menn (12. grein).16Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 137–141.
Lög um samræmingu á mati fasteigna, nr. 33/1955, voru sett 14. maí 1955.17Stjórnartíðindi 1955 A, bls. 58–59. Árið 1955 skyldi fara fram endurskoðun fasteignamats frá 1942 og aukafasteignamatsins, sem gert hefði verið síðan. Verkið átti þriggja manna landsnefnd að vinna. Fasteignabók í þremur bindum kom út á árunum 1956–1957 eða: 1: Mat fasteigna í sýslum samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955; 2. Mat fasteigna í kaupstöðum, öðrum en Reykjavík samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955; 3. Mat fasteigna í Reykjavík samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955.
Skjöl vegna þessarar endurskoðunar eru í Þjóðskjalasafni Íslands.18ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65.
Ný lög um fasteignamat og fasteignaskráningu, nr. 28/1963, voru sett 29. apríl 1963.19Stjórnartíðindi 1963 A, bls. 213–218. Allar fasteignir á landinu, sem ekki væru sérstaklega undanteknar samkvæmt þeim lögum, skyldu metnar til peningaverðs. Allsherjarmat skyldi fara fram fimmtánda hvert ár og nefnast aðalmat fasteigna. Þegar aðalmati væri lokið, skyldi fjármálaráðherra löggilda fasteignamatsskrá og kveða á um frá hvaða tíma hún gilti. Fasteignamatsnefndir í héruðum framkvæmdu aðalmat fasteigna undir yfirstjórn yfirfasteignamatsnefndar. Fasteignamatsnefndir skyldu, eftir því sem við yrði komið, skoða þær eignir, sem meta skyldi. Þær áttu að senda yfirfasteignamatsnefnd öll matsgögn ásamt matsgerðum til endurskoðunar og samræmingar. Að því verki loknu átti nefndin að senda fjármálaráðherra matsskrárnar til löggildingar. Í lögunum voru ákvæði um fasteignamöt milli aðalmata (aukamöt, endurmöt). Fasteignamat ríkisins átti að vera sérstök deild í Fjármálaráðuneytinu og fjalla um fasteignamatsmálefni og varðveita öll gögn, sem vörðuðu fasteignamat. Hefjast skyldi handa við að koma upp sem nákvæmastri skráningu fasteigna í landinu („matrikel“).
Skjöl fasteignamats, sem unnið var að miklu leyti árið 1964, eru í Þjóðskjalasafni Íslands.20ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65. Hugsanlega getur eitthvað leynst í skjalasöfnum sýslumanna.
Næst komu lög um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, 20. maí 1976.21Stjórnartíðindi 1976 A, bls. 237–244. Halda skyldi skrá um allar fasteignir í landinu, þar sem fram kæmu upplýsingar um eiginleika eignanna og rétt til þeirra. Hverja fasteign skyldi meta til verðs eftir því sem næst yrði komist á hverjum tíma. Gerð og viðhald skráningarinnar annaðist sérstök ríkisstofnun, Fasteignamat ríkisins, sem starfaði á ábyrgð Fjármálaráðuneytisins. Viðkomandi sveitarstjórn væri ábyrg fyrir, að Fasteignamati ríkins bærust upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, gerð í umdæmum þeirra og breytingar á þeim. Sveitarstjórn skyldi að jafnað fela byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags upplýsingagjöf um fyrrgreind atriði. Fasteignamat ríkisins annaðist mat fasteigna samkvæmt lögum þessum. Yfirmat fasteigna annaðist yfirfasteignamatsnefnd fyrir landið allt. Fasteignamat ríkisins átti að taka við öllum eignum og gögnum, sem væru í vörslu fasteignamatsins í Reykjavík eða utan Reykjavíkur.
Skjöl: Skjala vegna fasteignamata allt frá 1944 er helst að leita í skjalasöfnum Fasteignamats ríkisins, sem að hluta eru komin Þjóðskjalasafn Íslands, og síðar Fasteignaskrár ríkisins. Vera má að skjöl vegna framkvæmda á jörðum eða annarra breytinga á þeim og nýs mats, sem af því leiddi, liggi í skjalasöfnum sveitarstjórna og sýslumanna.
Árið 2001 komu lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.22Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 7–14. Fasteignamat ríkisins skyldi annast fasteignaskráningu og rekstur gagna- og upplýsingakerfis, er nefndist Landskrá fasteigna og væri á tölvutæku formi. Viðkomandi sveitarstjórn væri ábyrg fyrir, að Fasteignamati ríkins bærust upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, gerð í umdæmum þeirra og breytingar á þeim. Sveitarstjórn skyldi að jafnað fela byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags upplýsingagjöf um fyrrgreind atriði. Yfirmat fasteigna annaðist yfirfasteignamatsnefnd fyrir landið allt.
Með lögum nr. 83/2008 kom Fasteignaskrá ríkisins í stað Fasteignamats ríkisins.23https://www.althingi.is/altext/stjt/2008.083.html, sótt 1. júlí 2024.
Fasteignaskrá Íslands og Þjóðskrá voru sameinaðar í eina ríkisstofnun, er nefndist Þjóðskrá Íslands, með lögum nr. 77/2010.24https://www.althingi.is/altext/stjt/2010.077.html, sótt 1. júlí 2024.
Fasteignaskrá var flutt frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með lögum nr. 36/2022.25https://www.althingi.is/altext/stjt/2022.036.html, sótt 2. júlí 2024. Þar er í 12. grein eftirfarandi viðbót við 2. grein laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001:
Stofnunin sér um fasteignaskrá og tengdar skrár og annast rekstur gagna- og upplýsingakerfa fasteignaskrár og útreikning fasteignamats og brunabótamats samkvæmt lögum sem um þau málefni gilda hverju sinni.26https://www.althingi.is/altext/stjt/2022.036.html, sótt 3. október 2024.
Nánar er hægt að lesa um jarðamat hér.
Tilvísanir
↑1 | Alþingistíðindi 1915 A, bls. 457–458. |
---|---|
↑2 | Alþingistíðindi 1915 A, bls. 1222, 7. liður. |
↑3 | Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 79–82. |
↑4 | Stjórnartíðindi 1916 B, bls. 13–29. |
↑5 | Stjórnartíðindi 1918 A, bls. 31; Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 153–154. |
↑6 | https://baekur.is/bok/0efe82c4-f00b-45e7-b0d8-ca5b5f8a4bf4/0/1/Fasteignabok#page/n0/mode/2, sótt 6. júní 2024. |
↑7 | Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 179. |
↑8 | Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 180–181. |
↑9 | Stjórnartíðindi 1929 B, bls. 135–143. |
↑10 | Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 81. |
↑11 | ÞÍ. Fjármálaráðuneytið |
↑12 | Stjórnartíðindi 1938 A, bls. 5–8. |
↑13 | Stjórnartíðindi 1938 B, bls. 81–85. |
↑14 | ÞÍ. Fjármálaráðuneytið |
↑15 | ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65. |
↑16 | Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 137–141. |
↑17 | Stjórnartíðindi 1955 A, bls. 58–59. |
↑18 | ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65. |
↑19 | Stjórnartíðindi 1963 A, bls. 213–218. |
↑20 | ÞÍ. Fasteignamat ríkisins 1992/65. |
↑21 | Stjórnartíðindi 1976 A, bls. 237–244. |
↑22 | Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 7–14. |
↑23 | https://www.althingi.is/altext/stjt/2008.083.html, sótt 1. júlí 2024. |
↑24 | https://www.althingi.is/altext/stjt/2010.077.html, sótt 1. júlí 2024. |
↑25 | https://www.althingi.is/altext/stjt/2022.036.html, sótt 2. júlí 2024. |
↑26 | https://www.althingi.is/altext/stjt/2022.036.html, sótt 3. október 2024. |