Kaupmálabréfabók, kaupmálabréf

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Meðal elstu prestsþjónustubóka eru kaupmálabréfabækur frá Hítardal (1693-1704) og Stafholti (1708-1766). Eru þar skráðir kaupmálar hjónaefna. Svipuðu máli gegnir um elstu prestsþjónustubók landsins, frá Reykholti (1664-1788). Þar skipa kaupmálar mikið rúm, og á alllöngu tímabili eru þeir einir skráðir.

Hjónaband var framan af öldum byggt á samningi milli verðandi eiginmanns eða ættingja hans og lögráðanda konunnar, svonefndum festum. Þar komu fram fjárskilmálar fyrir hjúskapnum, þ.e. tekið var fram um mund, sem biðill skyldi greiða lögráðamanni, heimanfylgju konunnar og aðra þá fjárskilmála, sem gerðir voru, kaupmáli. Kirkjan fór fyrst að hafa afskipti af hjúskaparmálum á 13. öld, samfara auknu kirkjuveldi. Þá fóru festar að líkjast borgaralegu hjónabandi nútímans. Ákvæði um afskipti kirkjunnar af hjúskaparmálum sem skilyrði fyrir festum koma fram í Kristinrétti nýja 1275, sem og um það hvernig festar skyldu fara fram.1Magnús Már Lárusson, „Festermål, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV, dálkar 236–240; Jónsbók Kong Magnus Hakonssons lovbog for Island vedtaget paa altinget 1281 og réttarbætr de for Island givne retterbøder af 1294, 1305 og 1314. København 1904, bls. 70–71, 73–74; Norges gamle Love indtil 1387 V. Christiania 1895, bls. 36–38; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 257–260; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 256–261. Jafnframt var gengið frá samningum á tilhlýðilegan hátt með festingarbréfi eða kaupmálabréfi. Mörg dæmi kaupmálabréfa má finna í Íslensku fornbréfasafni. Eru prestar þar jafnan meðal vitna.2Sjá t.d. Íslenzkt fornbréfasafn IV, bls. 548–549, 602–603; XI, bls. 824–825.

Í kirkjuskipun Kristjáns IV 2. júlí 1607, sem löggilt var á Íslandi með tilskipun 29. nóvember 1622, var svo fyrir mælt, að engin trúlofun mætti fara fram, nema sóknarprestur í viðkomandi sókn væri viðstaddur.3Lovsamling for Island I, bls. 151–152. Til þessarar kirkjuskipunar mun jafnan vísað í „Kirkju- og kaupmálabók“ Reykholts 1664–1788 við trúlofanir eða þegar fram fór „svolátandi skilmálar og hjónabandsundirbúningur“ með „yfirsjón“ sóknarprestsins „eftir kirkjulaganna reglu“.4ÞÍ. Kirknasafn. Reykholt BA/1. Prestsþjónustu- og kaupmálabók 1664–1788, bls. 344–346, sbr. bls. 372–375. Samkvæmt bókinni frá Reykholti virðast kaupmálar ekki hafa verið gerðir, um leið og brúðkaup fór fram

Svo er að sjá sem það hafi verið venja að lesa upp kaupmála undan vígslu. Í Dominicale (Handbók presta) frá árinu 1594 stendur:

Að kaupa með hjónum. Nú að framsögðu fékaupi og öllum skilmála, þá spyrji presturinn þau að með þessum orðum.5Graduale, ein almennileg messusöngsbók. Hólar 1594, bls. [246], sótt á http://baekur.is/is/bok/000610431/Graduale, 25. september 2017.

Síðan koma vígsluspurningarnar. Í 3. grein tilskipunar um eitt og annað í hjónabandssökum og móti lauslæti, með fleira, á Íslandi frá 3. júní 1746 er fjallað um lýsingar, sem fari fram eftir trúlofun, og sagt, að hjónavígsla skuli fara fram næsta sunnudag eftir þriðju lýsingu,

á hvörjum degi þó ei skal leyfast, sem hingað til verið hefur, hjónabands skilmála að fyrirtaka og upplesa.6Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 558.

Fram á 19. öld má víða sjá þess dæmi í prestsþjónustubókum, að kaupmála sé getið við hjónavígslur, þ.e. hvaða fjárlag sé með hjónunum og hver sé morgungjöf til konunnar. Enda er gert ráð fyrir því í dreifibréfum Hannesar Finnssonar, Skálholtsbiskups, frá árinu 1784 og Geirs Vídalín, biskups yfir Íslandi, frá árinu 1815 um prestsþjónustubækur, að fjárskilmálar séu skráðir, sjá Prestsþjónustubækur.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Magnús Már Lárusson, „Festermål, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV, dálkar 236–240; Jónsbók Kong Magnus Hakonssons lovbog for Island vedtaget paa altinget 1281 og réttarbætr de for Island givne retterbøder af 1294, 1305 og 1314. København 1904, bls. 70–71, 73–74; Norges gamle Love indtil 1387 V. Christiania 1895, bls. 36–38; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 257–260; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 256–261.
2 Sjá t.d. Íslenzkt fornbréfasafn IV, bls. 548–549, 602–603; XI, bls. 824–825.
3 Lovsamling for Island I, bls. 151–152.
4 ÞÍ. Kirknasafn. Reykholt BA/1. Prestsþjónustu- og kaupmálabók 1664–1788, bls. 344–346, sbr. bls. 372–375.
5 Graduale, ein almennileg messusöngsbók. Hólar 1594, bls. [246], sótt á http://baekur.is/is/bok/000610431/Graduale, 25. september 2017.
6 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 558.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 82