Kirkjugarðareikningar

Síðast breytt: 2020.05.04
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Eftir trúarbragðaskipti, frá heiðni til kristni, var ætlast til þess, að allir kristnir menn væru grafnir við kirkjur.1Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju. Kristni á Íslandi I. Reykjavík 2000, bls. 340. Grafa átti lík við þá graftarkirkju, sem næst var, og kirkjueigendum skylt að veita öllum, sem fluttir voru að kirkjum þeirra, leg í kirkjugarði.2Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, bls. 340–342. Væntanlega hefur það talist skylda þess, sem kirkju stofnaði, að gera kirkjugarð, en viðhaldsskyldu verið komið á sóknarmenn, að viðlögðum sektum, samkvæmt skipun Jóns biskups Sigurðssonar í Skálholti 26. júlí 1345, þar sem hann endurnýjar og samþykkir ýmislegt úr skipunum erkibiskupa og fyrri Skálholtsbiskupa.3Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 791, 795, 797, 815, 821, 826, 828 (4. grein). Kirkja og kirkjugarður voru nátengd, þótt ekki væri gröftur að öllum kirkjum. Í sumum handritum að Kristinrétti nýja eru ákvæði um stærð kirkjugarða. Skyldi hver höfuðkirkja eiga 40 skref öllum megin út frá kirkjunni, en hver kapella 30 skref.4Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 127; Magnús Már Lárusson, „Kirkegård, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder VIII, dálkar 399–402. Ákvæði um skyldu sóknarbænda til þess að gera að kirkjugarði voru síðar tekin upp í reglum um tekjur presta og kirkna 17. júlí 1782, 15. grein.5Lovsamling for Island IV, bls. 669.

Þegar sóknarnefndir tóku við fjárhaldi kirkna, urðu að koma til ný ákvæði um kirkjugarða. Það var gert með lögum um kirkjugarða og viðhald þeirra nr. 39/1901, 8. nóvember. Í þeim segir, að sóknarnefnd skyldi sjá að öllu leyti um byggingu eða endurbyggingu kirkjugarðs, gera kostnaðaráætlun og semja reikning að verki loknu.6Stjórnartíðindi 1901 A, bls. 188–193. Ný lög um kirkjugarða nr. 64/1932, 23. júní, kveða í 2. grein á um, að:

Hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar er sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi, í umsjón og ábyrgð safnaðar undir yfirstjórn biskups. Sóknarnefnd hefir á hendi umsjón og fjárhald kirkjugarðs samkvæmt því, sem fyrir er mælt í lögum þessum.

Um reikningshald kirkjugarðssjóðs, endurskoðun og ábyrgð skyldu gilda sömu ákvæði og um reikningshald safnaðarkirkna.7Stjórnartíðindi 1932 A, bls. 147–148. Eftir árið 1932 má því finna kirkjugarðareikninga í skjalasöfnum prófasta, sem voru endurskoðendur reikninganna. Núgildandi lög (2017) um kirkjugarða eru nr. 36/1993, 4. maí, með áorðnum breytingum. Segir þar í 8. grein:

Hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar er sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi, í umsjón og ábyrgð safnaðar undir yfirstjórn prófasts (í Reykjavík prófasta) og biskups. Sóknarnefnd eða sérnefnd kjörin af safnaðarfundi, sbr. 9. gr., hefur á hendi umsjón og fjárhald kirkjugarðs samkvæmt því, sem fyrir er mælt í lögum þessum. Er hún hér eftir nefnd kirkjugarðsstjórn.8Stjórnartíðindi 1993 A, bls. 169.

Í 37. grein þessara laga er ákvæði um, að kirkjugarðsstjórnir skuli árlega semja áætlun um tekjur og gjöld kirkjugarða í umsjón þeirra, svo og reikning næstliðins árs yfir tekjur og gjöld garðanna og skýrslu um eignir þeirra. Reikningshald fyrir næstliðið ár skuli kirkjugarðsstjórnir senda Ríkisendurskoðun fyrir 1. júní ár hvert.9Stjórnartíðindi 1993 A, bls. 175; Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1993036.html, sótt 25. september 2017. Ákvæðunum var lítillega breytt í lögum nr. 124/1997, 22. desember, (2. grein), en ekki svo að skipti máli.10Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 427. Samkvæmt starfsreglum prófasta frá 10. desember 1998 áttu þeir að heimta ársreikninga kirkjugarða, auk sókna og kirkna, og leggja fram á héraðsfundi, og sjá til þess, að þeir væru jafnframt sendir Biskupsstofu og Ríkisendurskoðun, og koma athugasemdum á framfæri, teldu þeir þess þörf.11Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2168 (15. grein). Hins vegar segir í 18. gr. starfsreglna prófasta frá árinu 2006, að prófastur fari, ásamt biskupi, með yfirstjórn kirkjugarða í prófastsdæminu, sbr. lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, og sinni öðrum lögboðnum skyldum samkvæmt þeim lögum.12Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-profasta-nr-9662006/, sótt 25. september 2017. Ekkert er þar minnst á innheimtuskylduna frá árinu 1998. Aftur á móti segir í starfsreglum um héraðsfundi og héraðsnefndir frá árinu 2006 (fimmta lið 5. greinar), að ársreikninga sókna og kirkjugarða skuli leggja fram á árlegum héraðsfundi, sem prófastur stýrir.13Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-heradsfundi-og-heradsnefndir-nr-9652006/, sótt 25. september 2017.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju. Kristni á Íslandi I. Reykjavík 2000, bls. 340.
2 Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, bls. 340–342.
3 Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 791, 795, 797, 815, 821, 826, 828 (4. grein).
4 Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 127; Magnús Már Lárusson, „Kirkegård, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder VIII, dálkar 399–402.
5 Lovsamling for Island IV, bls. 669.
6 Stjórnartíðindi 1901 A, bls. 188–193.
7 Stjórnartíðindi 1932 A, bls. 147–148.
8 Stjórnartíðindi 1993 A, bls. 169.
9 Stjórnartíðindi 1993 A, bls. 175; Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1993036.html, sótt 25. september 2017.
10 Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 427.
11 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2168 (15. grein).
12 Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-profasta-nr-9662006/, sótt 25. september 2017.
13 Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-heradsfundi-og-heradsnefndir-nr-9652006/, sótt 25. september 2017.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 64