Kirkjuleiðsla kvenna

Síðast breytt: 2025.03.17
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Eftir barnsburð voru konur álitnar „óhreinar“ í kaþólskum sið. 1Biblían. Gamla testamentið, 3. Mósebók, 12. kafli. Var kennt, að djöfullinn stæði þeim nærri á sænginni. Því voru þær látnar ganga undir hreinsun með kirkjuleiðslu. Lúterskir kennimenn neituðu því, að sængurkonur væru óhreinar, frjósemi þeirra bæri vott um blessun guðs. Þeir álitu kirkjuleiðsluna sem tilefni til fyrirbænar og þakkargjörðar fyrir ávöxt kviðar konunnar og vildu því halda henni.

            Fastheldni lúterskra kennimanna réðst einnig af því, að þeir óttuðust, að ella yrði skertur sá tími, sem sængurkonur fengju til hvíldar. Þá átti kirkjuleiðslan að festa í sessi siðferðileg viðmið í hjúskapar- og kynlífsmálum eða draga mörk milli ráðvandra kvenna (dándikvenna) og „lausra“ kvenna. Talið er, að þeirri reglu hafi verið fylgt, svo lengi sem kirkjuleiðsla eiginkvenna tíðkaðist á Íslandi.

            Kirkjuleiðsla var aftekin í Danmörku og Noregi með konungsbréfi 22. nóvember 1754. Átti prestur að minnast sængurkonu í lok ræðu sinnar á stólnum á líkan hátt og hún væri leidd í kirkju. Bréf þetta varð aldrei gildandi á Íslandi.

            Úr kirkjuleiðslu kvenna á Íslandi dró á 19. öld. Í handbókum presta frá árunum 1869 og 1879 er sagt, að það sé orðið tíðkanlegra að minnast kvenna af stól en leiða þær í kirkju, þó ættu þær heimtingu á kirkjuleiðslu, ef þær vildu það heldur. Ekki mætti leiða aðrar en eiginkonur í kirkju eða minnast þeirra af stól. — Ekki er þetta nefnt í handbók presta árið 1910.

            Ýmsir íslenskir prestar héldu lengi fast við þennan sið. T.d. var beðið fyrir konum af predikunarstóli í Kirkjubæjarklaustursprestakalli allt fram til 1930.

            Gjald fyrir kirkjuleiðslu var meðal aukatekna presta. 2Bóndi einn í Reykholtsprestakalli á síðustu áratugum 19. aldar er sagður hafa beðið sóknarprestinn um kirkjuleiðslu eða fyrirbæn konu sinnar með þessum orðum: „Hérna er krónan. Rósa er komin.“

(Heimildir: Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 98–100. Sigurjón Einarsson, „Að leiða konur í kirkju“, Saga XV. 1977, bls. 111–124.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Biblían. Gamla testamentið, 3. Mósebók, 12. kafli.
2 Bóndi einn í Reykholtsprestakalli á síðustu áratugum 19. aldar er sagður hafa beðið sóknarprestinn um kirkjuleiðslu eða fyrirbæn konu sinnar með þessum orðum: „Hérna er krónan. Rósa er komin.“
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 3