Orðið er komið úr latínu (committere, þ.e. tengja saman, afhenda). Orðið kommitteret (danska) var haft yfir embættismenn, nokkuð ofarlega í stjórnkerfinu, sem voru aðstoðarmenn stjórnenda eða staðgenglar. Á einveldistímanum í Danmörku var orðið einkum haft um aðstoðarmenn í rentukammeri og skrifstofum, sem þróuðust út frá því. Kommitteraðir voru undir depúteruðum (sjá depúteraður í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands) en höfðu eins og þeir atkvæðisrétt í málefnum stjórnarskrifstofu sinnar og voru oft eins og skrifstofustjórar. Árið 1840 var rentukammeri og generaltollkammeri skipt í deildir, sem depúteraður stýrði með aðstoð kommitteraðs, sem ekki var skrifstofustjóri. Þessir kommitteruðu höfðu rétt til þess að taka þátt í viðræðum um mál en höfðu ekki atkvæðisrétt.1Salmonsens konversations leksikon XIV. København 1923, bls. 360–361. Bjarni Þorsteinsson amtmaður í Vesturamti skilgreindi kommitteraða og depúteraða þannig:
Kommitteraðir kallast í lægri röð stjórnarráðanna þeir, sem stinga upp á einu og öðru til nytsemda, eður fyrstir eiga að segja sína meining um þau efni, sem framberast í stjórnarráðum, en depúteraðir heita þeir í efri röð, sem úrskurða og gefa því gildi, sem hinir hafa fram á farið, oftar þó sameiginlega með þeim fyrri, einum eður fleirum, eins og á málefnum stendur.2Merkir Íslendingar. Ævisögur og minningargreinar IV. Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar. Reykjavík 1950, bls. 208. Sbr. bls. XII.
Einhverjir Íslendingar unnu sem kommitteraðir í stjórnarskrifstofunum dönsku svo sem Jón Eiríksson (f. 1728, d.1787), sem einnig varð depúteraður.3Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár III, bls. 102–103.