Siðbreytingarmenn höfnuðu fermingunni en lögðu ríka áherslu á, að tekin væri upp fræðsla í kristnum fræðum, sem lyki með prófi. Marteinn Lúter samdi Fræðin minni til þess að efla kristindómsfræðslu barna og raunar allrar alþýðu. Fólk átti ekki að fá að ganga til altaris fyrr en það hefði lært Fræðin.1Samantekt þessi um kristindómsfræðslu er fyrst og fremst byggð á grein Bjarna Sigurðssonar, „Ágrip af sögu spurningakveranna“, Landsbókasafn Íslands. Árbók 1980. Nýr flokkur 6. ár. Reykjavík 1981, bls. 38–47. Elsta varðveitt þýðing á Fræðunum er Cathecismus. Það er christilegur lærdómur fyrir einfalda presta og predikara og húsbúendur, sem var prentuð á Hólum árið 1594. Nafnið Fræðin meiri var hins vegar haft um Catechismus. Sönn, einföld og ljós útskýring kristilegra fræða, sem eru grundvöllur trúar vorrar og sáluhjálpar lærdóms eftir Johann Spangenberg. Þau voru fyrst gefin út á Hólum árið 1610.2Halldór Hermannsson, Icelandic books of the sixteenth century (1634–1600). Islandica. Volume IX. New York 1966, bls. 44–45; Halldór Hermannsson, Icelandic books of the seventeenth century 1601–1700. Islandica. Volume XIV. New York 1966, bls. 98–99.
Með tímanum var farið að semja bækur, þar sem efni Fræðanna var skýrt og sundurgreint. Oft sett fram sem spurningar og svör við þeim. Því er talað um barnaspurningar, að ganga til spurninga og spurningakver o.s.frv. Af slíkum fræðsluritum skulu nefnd:
Guðbrandur Þorláksson, Hólabiskup, samdi rit, þar sem hann mælti fyrir um upptöku fermingar í biskupsdæmi sínu. Nefndist það Sú rétta confirmatio, sem í fyrstunni hefur í kristilegri kirkju tíðkuð verið og nú er upp aftur tekin og við magt haldin í landi Saxen og annarstaðar þar sem er hreinn og klár evangelí lærdómur. Saman lesinn og tekinn út af þeirri saxverskri kirkju agenda eður ordinatiu guðs orði til framgangs og ungdóminum til gagns í Hólastigti af Guðbrandi Þorlákssyni og var gefin út á Hólum árið 1596. Þar var lýst fermingu og gefin nauðsynleg trúfræðsla. Sömuleiðis þýddi Guðbrandur Biblia Laicorum. Það er leikmanna Biblía, sá gyllini catechismus þess dýrðlega guðs manns d. Martini Lutheri, loflegrar minningar, samsettur og aukinn með stuttum, einföldum spurningum og andsvörum fyrir ungmenni og einfalt almúgafólk eftir Johannes Aumann biskup í Saxlandi. Það var spurningakver, sem fylgdi Fræðunum minni og kom út á Hólum árið 1599.
Arngrímur Jónsson (Arngrímur lærði) þýddi Biblia Parva eður vor almennilegur catechismus, með sjálfum ritningarinnar orðum. Stuttlega útlagður úr latínumáli á norrænu af Arngrími Jónssyni, sem prentuð var á Hólum árin 1596 og 1622. Þá þýddi Arngrímur CATECHISMUS. Sönn, einföld og ljós útskýring kristilegra fræða, sem er grundvöllur trúar vorrar og sáluhjálparlærdóms af þeim helstu greinum heilagrar Biblíu, hennar historíum og bevísingum samantekinn, guði almáttugum til lofs og dýrðar, en almúganum til gagns og góða. Úr dönsku útlögð eftir Johann Spangenberg, sem kom út á Hólum árið 1610.
Árið 1674 var prentað á Hólum, í þýðingu Gísla Þorlákssonar, Hólabiskups, EXAMEN CATHECETICUM. Það er stuttar og einfaldar spurningar út af þeim litla catechismo Lutheri. Hér til leggjast og svo nokkrar góðar og nauðsynlegar bænir fyrir ungdóminn, út af þeim tíu guðs boðorðum, og öðrum catechismi pörtum. Útlagðar af herra Gísla Þorlákssyni.
Jón Vídalín, Skálholtsbiskup, tók saman barnaspurningakver, sem kom fyrst út í Kaupmannahöfn árið 1729, Stutt og einföld undirvísun um kristindóminn. Samantekin efter fræðibókum hinnar evangelisku kirkju af mag. Jóni Þorkelssyni Vídalín, forðum biskupi Skálholtsstiftis (sællrar minningar).
Jón Árnason, Skálholtsbiskup, þýddi Spurningar út af Fræðunum. Samanteknar handa börnum og fáfróðu almúgafólki sem fyrst voru prentaðar í Kaupmannahöfn árið 1722 og gengu undir nafninu Jónsspurningar.
Erik Pontoppidan, þá hirðpresti í Kaupmannahöfn, var falið að semja kennslubók í kristnum fræðum og kom hún út árið 1737. Í konungsbréfi 22. ágúst 1738 var biskupum í Danmörku og Noregi boðið, að kverið skyldi notað í öllum skólum og kirkjum. Ekki verður séð, að konungsbréfið hafi birst á Íslandi, en heimild er um, að það hafi verið sent þangað.3Lovsamling for Island II, bls. 299–302. Halldór Brynjólfsson, síðar Hólabiskup, þýddi kverið, sem var prentað í Kaupmannahöfn árið 1741 og nefndist Sannleiki guðhræðslunar í einfaldri, og sem varð stuttri, þó ánægjanligri útskýringu yfir sál. doct. Mart. Luth. litla catechismum. Innihaldandi allt það, sem sá, er vill verða sáluhólpinn, þarf við, að vita og gjöra. Eftir kóngl. allranáðigustu skipan til almennrar brúkunar gjörð af próf. Eiríki Pontoppidan, kóngl. Majest. hofpresti, en nú á íslensku útlögð af síra Halldóri Brynjólfssyni, prófasti og presti að Staðastað í Íslandi. Kverið kallaðist venjulega Ponti. Þýðing Halldórs þótti ill og var nefnd Rangi Ponti. Högni Sigurðsson, prestur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð, þýddi síðan kverið, sem kom út í Kaupmannahöfn árið 1746 undir sama heiti, nema nafni þýðanda. Sú gerð kom út sex sinnum á Hólum. Kallaðist hún einnig Ponti.
Ferming var lögboðin í Danmörku 13. janúar 1736. Tilskipunin var send til Íslands samkvæmt konungsbréfi til Skálholtsbiskups 9. júní 1741 og lögboðin en ekki verður séð, að hún hafi verið birt á alþingi eða á prestastefnum.4Lovsamling for Island II, bls. 227–242. Konungsbréf um fermingu á Íslandi var gefið út 29. maí 1744 og sent Skálholtsbiskupi og Ludvig Harboe, sem gegndi þá hlutverki biskups á Hólum.5Lovsamling for Island II, bls. 505–509.
Vigfús Jónsson, prestur í Miklaholti á Snæfellsnesi, samdi ágrip af áðurnefndu kveri Pontoppidans til þess að létta tornæmum börnum fræðanámið og lét prenta í Kaupmannahöfn árið 1770 undir heitinu Stutt og einföld skýring Fræðanna. Að mestu leyti samin og löguð eftir dr. Pontoppidans útleggingu af Vigfúsi Jónssyni, sem gekk undir heitinu Vigfúsarspurningar. Kirkjustjórnarráðið bannaði notkun þess árið 1772 vegna einkaréttar Hólastóls á prentun guðsorðabóka.
Árið 1796 var prentuð í Leirárgörðum Lærdómsbók í evangeliskum kristilegum trúarbrögðum handa unglingum eftir Nicolai Edinger Balle, sem um skeið var Sjálandsbiskup, en í þýðingu Einars Guðmundssonar, Vestmannaeyings og prests í Noregi, og Hannesar Finnssonar Skálholtsbiskups. Hún var löggilt árið 1798 og prentuð 25 sinnum, síðast árið 1882. Gekk kverið undir nafninu Balle. Í inngangi segir: „Tornæmir, sem hvörki hafa efni né tíma til að læra meira, þurfa ei nema að vita vel sjálfar lærdóms- og ritningar-greinirnar, sem þar standa prentaðar hjá.“ Því var greint milli smáa og stóra stílsins.
Árið 1865 var leyft að nota við fermingarundirbúning, ef menn kysu svo, Biflíusögur handa unglingum. Íslenzkaðar og lagaðar eftir Biflíusögum C.F. Balslev af Ólafi Pálssyni, sem birtist árið 1859. Kverið var eftir Carl Fredrik Balslev, síðar biskup í Rípum, en Ólafur Pálsson, þá dómkirkjuprestur, var þýðandi. Það var styttra en Ballekverið. Íslendingar fundu slíkt kverinu til foráttu og töldu, að það væri einkum ætlað tornæmum börnum. Kallaðist því stundum Tossakverið.
Pétur Pétursson, biskup, fól Helga Hálfdanarsyni, prestaskólakennara, að semja kristindómsfræðslukver við hæfi íslenskra barna. Nefndist það Kristilegur barnalærdómur eftir lúterskri kenning. Var það fyrst gefið út árið 1877. Ráðherra heimilaði notkun þess árið 1878, samhliða kverunum, sem kennd voru við Balle og Balslev. Var það notað fram yfir 1930, a.m.k. af sumum prestum, og kallaðist Helgakver eða átján kafla kverið.
Kristilegur barnalærdómur. Skýring á fræðum Lúters hinum minni eftir Thorvald Klaveness, prest í Kristianíu/Osló, í þýðingu Þórhalls Bjarnarsonar, síðar biskups, kom fyrst út árið 1899 en síðast árið 1923. Naut það allmikilla vinsælda. Klavenesskverið var mun styttra en Helgakver og því kölluðu sumir það Tossakverið.
Valdimar Briem, síðar vígslubiskup, samdi Kristin barnafræði í ljóðum, sem birtust árið 1906.
Eftir 1930 hafa komið út mörg kver til barnafræðslu, en ekki verður vitnað til þeirra hér, enda munu prestar þá hafa verið hættir að geta þess í prestsþjónustubókum og sóknarmannatölum, hvaða lærdómskver börn voru látin læra.
Í prestsþjónustubókum og sóknarmannatölum eru notaðar margvíslegar skammstafanir, þegar vísað er til kristindómsfræðslukveranna. Ekkert samræmi er í slíkum skammstöfunum. Nefna má nokkrar vísanir til Spurninga út af Fræðunum, sem Jón Árnason þýddi: Árn.sp., B.A.J. sp., Bisk.sp., Jónssp., mag. Árnas. spurn., sp. J.A.s., útl. A. Er þó alls ekki allt talið. — Í skammstafanaskrá má finna ýmis dæmi um skammstafanir tengdar kristindómsfræðslu.
Tilvísanir
↑1 | Samantekt þessi um kristindómsfræðslu er fyrst og fremst byggð á grein Bjarna Sigurðssonar, „Ágrip af sögu spurningakveranna“, Landsbókasafn Íslands. Árbók 1980. Nýr flokkur 6. ár. Reykjavík 1981, bls. 38–47. |
---|---|
↑2 | Halldór Hermannsson, Icelandic books of the sixteenth century (1634–1600). Islandica. Volume IX. New York 1966, bls. 44–45; Halldór Hermannsson, Icelandic books of the seventeenth century 1601–1700. Islandica. Volume XIV. New York 1966, bls. 98–99. |
↑3 | Lovsamling for Island II, bls. 299–302. |
↑4 | Lovsamling for Island II, bls. 227–242. |
↑5 | Lovsamling for Island II, bls. 505–509. |