Landfógeti

Síðast breytt: 2021.06.16
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín

Landfógetaembættið var stofnað með konungsúrskurði 17. janúar 1683, þegar breyting var gerð á stjórnarháttum eftir fráfall Henriks Bjelke höfuðsmanns sem afleiðing af einvaldstöku konungs á Íslandi árið 1662.1Lovsamling for Island I, bls. 396–397.

Fógetar voru áður umboðsmenn hirðstjóra eða höfuðsmanns, sem sáu m.a. um innheimtu konungstekna af landinu.

Fyrsti landfógetinn, Christopher Heideman, fékk erindisbréf 16. maí 1683. Samkvæmt því skyldu aðalstörf hans felast í umsjón með allri innheimtu konungstekna. Reikningsskilum hans til rentukammers áttu að fylgja nákvæmar skilagreinar og sönnunargögn. Einnig átti landfógeti að hafa umsjón með konungseignum, fiskveiðum og verslun, og að þeir einir rækju sem leyfi höfðu til þess, en jafnframt hafa eftirlit með því, að kaupmenn íþyngdu ekki landsmönnum. Undir landfógeta heyrði allur sjávarútvegur konungs. Á sömu lund voru erindisbréf landfógeta, sem á eftir komu: Corneliusar Wulf, Christians Luxdorph og Skúla Magnússonar.2Lovsamling for Island I, bls. 399–403, 722–732: Lovsamling for Island II, bls. 69–79; Lovsamling for Island III, bls. 78–87.

Landfógeti sá þó ekki einungis um reikningshald vegna konungstekna og tengdra gjalda (Jarðabókarsjóðs) heldur fékk einnig í hendur margvíslega reikningsfærslu vegna stjórnunar landsins (s.s. hegningarhúss-, dómsmálasjóðs-, vaxta-, eftirlauna- og póstreikninga).

Rentukammer var tengiliður milli landfógeta og konungs. Er einveldi Danakonungs var afnumið árið 1848, tók íslenska stjórnardeildin við því hlutverki og síðar ráðuneytið fyrir Ísland. Reiddi landfógeti fé af höndum og tók við greiðslum (einkanlega millifærslum) að skipun þessara stofnana og stiftamtmanns og síðar landshöfðingja, sem voru umboðsmenn danskra stjórnvalda á Íslandi.

Skil milli embætta landfógeta og sýslumanns í Gullbringusýslu voru framan af nokkuð óljós, svo að af urðu deilur, uns ákveðið var með konungsúrskurði árið 1781, að landfógeti færi með fjármál og löggæslu í Gullbringusýslu en sýslumaður í Kjósarsýslu með dómsmál sem héraðsdómari.3Lovsamling for Island IV, bls. 601–604. Skilnaður milli embætta landfógeta og sýslumanns í Gullbringusýslu var gerður með konungsúrskurði 9. maí 1806. Jafnframt lét landfógeti af umboði konungsjarða í Gullbringusýslu.4Lovsamling for Island VII, bls. 20–23.

Bæjarfógetaembætti í Reykjavík var stofnað 15. apríl 1803 og fengið í hendur Rasmusi Frydensberg, sem sama ár var gerður að landfógeta.5Lovsamling for Island VI, bls. 608–609. Landfógeti gegndi jafnframt bæjarfógetaembættinu til 1. júlí 1874.6Lovsamling for Island XXI, bls.780–781.

Með lögum um aðra skipun á æðstu umboðsstjórn Íslands 3. október 1903 var ákveðið að leggja landfógetaembættið niður, þegar það losnaði.7Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 74–77. Hlutverk landfógeta var fengið Landsbankanum með tilskipun um, hvernig gegna skyldi embættisstörfum amtmanna, stiftsyfirvalda og landshöfðingja.8Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 34–39. Lét Árni Thorsteinson, síðasti landfógetinn, af störfum 1. október 1904.

Deild sú í Landsbankanum, sem tók við störfum landfógeta, kallaðist gjaldkeri landssjóðs (landsféhirðir). Störf landsféhirðis skyldu skilin frá Landsbankanum og lögð undir fjármáladeild Stjórnarráðsins frá 1. september 1918 samkvæmt tilskipun 8. september sama ár. Reglugerð um framkvæmd á störfum ríkisféhirðis var gefin út 22. janúar 1919.9Stjórnartíðindi 1918 A, bls. 28; Stjórnartíðindi 1919 B, bls. 19–20; Agnar Kl. Jónsson: Stjórnarráð Íslands 1904–1968. Reykjavík 1968, bls. 20–21, 64–65, 383–385.

Landfógetar 1683–190410Jón Þorkelsson, „Árni landfógeti Thorsteinsson“. Andvari 33. ár (1908), bls. 1–4.

Christopher Heideman 1683–1693

Jarðabókartekjur seldar á leigu árin 1685–1705. Leigjendur: 1685–1690: Danskir kaupmenn á verslunarstöðum á Íslandi11Lovsamling for Island I, bls. 438–440.; 1691–1695: Christopher Heideman landfógeti, sem árið 1692 seldi leiguna Tomas Jensen Dobbelsteen og Mads Christensen, kaupmönnum í Hólminum og víðar12Lovsamling for Island I, bls. 488–493; Jón J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602–1787. Reykjavík 1971, bls. 133–134., 1696–1706 (miðað við ársbyrjun): Christen Nielsen, yfirbryti konungs, Mathias Rasmussen, rentuskrifari og Andrés Ívarsson Rafn, sem dó árið 1695. Komu þá inn í leiguna Knud Storm, kaupmaður í Hafnarfirði, og Peter Wielandt, sem rak verslun á mörgum höfnum á Íslandi. Fengu þeir Christian Müller, amtmann, með sér á laun.13Lovsamling for Island I, bls. 517–519; Jón J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602–1787, bls. 134–135.

Umboðsmenn leigjenda:

Andrés Ívarsson Rafn 1693–1695
Jens Jörgensson 1695–1702
Paul Beyer 1702–1705

Paul Beyer 1706–1717. Með jarðabókartekjurnar á leigu 1706–1707 samkvæmt rentukammerbréfi 16. júní 1706.14Lovsamling for Island I, bls. 641.
Cornelius Wulf 1717–1727
Christian Luxdorph 1727–1739
Christian Drese 1739–1749
Guðni Sigurðsson settur 1749–1750
Skúli Magnússon 1749–1793
Jón Skúlason aðstoðarlandfógeti 1763–1786
Hans Jakob Lindahl settur 1786–1787

Georg Christofer Lidemark 1793–1794, kom aldrei til Íslands
Magnús Stephensen settur 1793–1795
Paul Michael Finne 1794–1803, kom til Íslands 1795
Rasmus Frydensberg 1803–1812
Sigurður Thorgrímsen 1812–1828
Regner Ulstrup 1828–1836
Ólafur Finsen settur 1831–1832
Þórður Sveinbjörnsson settur 1835–1836
Jón Guðmundsson settur 1836

Morten Hansen Tvede 1836–1838
Stefán Gunnlaugsson 1838–1849
Kristján Kristjánsson 1849–1851
Þórður Jónasson settur 1852
Vilhjálmur Finsen 1852–1860
Hermanníus Jónsson settur 1860–1861
Árni Thorsteinson 1861–1904.

Heimildir

Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 303–304

Björk Ingimundardóttir: Skjalasafn landfógeta 1695–1904. Reykjavík 1986, bls. 7–11).

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island I, bls. 396–397.
2 Lovsamling for Island I, bls. 399–403, 722–732: Lovsamling for Island II, bls. 69–79; Lovsamling for Island III, bls. 78–87.
3 Lovsamling for Island IV, bls. 601–604.
4 Lovsamling for Island VII, bls. 20–23.
5 Lovsamling for Island VI, bls. 608–609.
6 Lovsamling for Island XXI, bls.780–781.
7 Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 74–77.
8 Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 34–39.
9 Stjórnartíðindi 1918 A, bls. 28; Stjórnartíðindi 1919 B, bls. 19–20; Agnar Kl. Jónsson: Stjórnarráð Íslands 1904–1968. Reykjavík 1968, bls. 20–21, 64–65, 383–385.
10 Jón Þorkelsson, „Árni landfógeti Thorsteinsson“. Andvari 33. ár (1908), bls. 1–4.
11 Lovsamling for Island I, bls. 438–440.
12 Lovsamling for Island I, bls. 488–493; Jón J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602–1787. Reykjavík 1971, bls. 133–134.
13 Lovsamling for Island I, bls. 517–519; Jón J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602–1787, bls. 134–135.
14 Lovsamling for Island I, bls. 641.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 197