Landbrigðaþáttur Grágásar kveður á um, hvernig standa skyldi að skiptum á sameignarlandi og skógi. Lögeiða átti að vinna að slíku.1Grágás. Elzta lögbók Íslendinga. Útgefin eptir skinnbókinni í bókasafni konungs á kostnað Fornritafjelags Norðurlanda í Kaupmannahöfn af Vilhjálmi Finsen. Síðari deild. Kaupmannahöfn 1852, bls. 86–89, 108–112. Gagnorðari lýsingu er að finna í Landabrigðabálki Jónsbókar og skyldi skiptum lýst á þingi.2Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 152–154.
Jónsbókarákvæðin munu hafa staðið, þangað til sett voru landskiptalög árið 1913, nr. 43.3Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 98–101. Fyrsta grein hljóðar svo:
Eftir lögum þessum geta komið til skifta öll heimalönd sveitajarða, tún, engi og úthagi, sem fleiri býli hafa til samnota, og ekki hefir áður verið skift til eignar og afnota, svo sannað verði, eða viðurkend merki eru til um. Hver einstakur eigandi jarðar eða jarðarparts getur krafist skiftanna, nema um sjerstök hlunnindi sje að ræða, sbr. 3. grein.
Samþykki eigenda meiri hluta landsins þurfti til skipta á landi, sem sérstök hlunnindi fylgdu, svo sem eggver, laxveiði, selveiði, skipsuppsátur, lóðargjöld og fleira (3. grein). Skiptin skyldu vera til fullrar eignar (4. grein). Skiptagerðir eftir lögum þessum skyldi rita í bók, er sýslumaður löggilti (10. grein). Landeigendum var frjálst að skipta sjálfir landi milli sín, ef þeim öllum kæmi saman um það og leiguliðar gæfu samþykki sitt sem og aðrir, sem hefðu notkunarrétt á landinu og skiptin vörðuðu hagsmuni þeirra. Skyldi gera greinilega skiptagerð og henni þinglýst (13. grein). Í 14. og 15. grein voru ákvæði nýtingu sameignar í óskiptu landi, þ.e. mótaks, skógarhöggs og sambeitar.
Lögum þessum var breytt með lögum nr. 27/1927 og síðan gefin út sem ný landskiptalög nr. 57/1927.4Stjórnartíðindi 1927 A, bls. 55–57, 175–178. Þar segir í fyrstu grein:
Eftir lögum þessum geta komið til skifta að nokkru eða öllu leyti heimalönd sveitajarða og afrjettarlönd, sem jöfnum höndum eru notuð til vetrarbeitar, tún, sáðreitir, engi, landsnytjar aðrar og hlunnindi, svo og mannvirki, sem tvö eða fleiri býli hafa til samnota og ekki hefir verið áður skift til eignar eða afnota, svo sannað verði eða viðurkent af öllum eigendum.
Við skipti átti ekki aðeins að fara eftir landstærð að flatarmáli heldur einnig landsgæðum og verðmæti á hverjum stað. Ekki mátti gera staðbundin skipti á ýmsum landsnytjum svo sem námarétti, þar með mótaki, veiði í vötnum og sjó, sel- og fuglaveiði, reka, lóðagjöldum, fjörubeit o.fl., o.fl., nema samþykki allra eigenda kæmu til. Ákvæði um landskiptabók hélst óbreytt sem og heimild landeigenda til einkaskipta, sem síðan skyldi þinglýst. Sama gilti um nýtingu sameignar.
Árið 1941 voru aftur gefin út landskiptalög, nr. 46.5Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 65–69. Upphaf fyrstu greinar var óbreytt frá árinu 1927, sem áður hefur vitnað til. Síðan komu nýir greinarhlutar varðandi skiptabeiðnir. Önnur grein var alveg ný. Þar kom fram við hvað skiptin skyldu miðast:
Skipta skal eftir jarðamati frá árinu 1861, þar sem því verður við komið.
Nú eru í því jarðamati tvær eða fleiri jarðir (hjáleigur) metnar í einu lagi til dýrleika, en aðgreint mat þeirra er að finna í jarðatali Johnsens frá 1847, og skal það þá notað.
Verði hvorugu þessu mati við komið, skal farið eftir fasteignabók frá 1922 eða síðari fasteignabókum, þó þannig, að ávallt verði notað hið elzta fasteignamat, sem við verður komið.
Nú hafa gilt manna á meðal í 20 ár eða lengur önnur eignahlutföll en jarðamatsbækur gefa upp, og allir eigendur samþykkja, að þau eignahlutföll skuli haldast, og er þá heimilt að skipta eftir þeim, en sýslumaður skal tilkynna fasteignamatsnefnd þess konar skipti.
Haldið var ákvæðum um skipti eftir landsgæðum jafnframt því að farið væri eftir flatarmáli, sem og banni við staðbundnum skiptum á hlunnindum. Landskiptabækur sýslumanna voru enn inni sem og heimild landeigenda til einkaskipta. Þar skyldi gera nákvæma skiptagerð og þinglýsa henni. Ákvæði um sameignarnot héldust enn.
Lögin frá árinu 1941 eru enn í gildi (snemma árs 2024) með allnokkrum breytingum.6https://www.althingi.is/lagas/153c/1941046.html, sótt 23. febrúar 2024. Fyrsta grein er svohljóðandi:
Eftir lögum þessum geta komið til skipta eða endurskipta að nokkru eða öllu leyti heimalönd sveitajarða og afréttarlönd, sem jöfnum höndum eru notuð til vetrarbeitar, tún, sáðreitir, engi, landsnytjar aðrar og hlunnindi svo og mannvirki, sem tvö eða fleiri býli hafa eða hafa áður haft til samnota:
1. Ef lögfest skipti hafa eigi áður farið fram, og getur þá hver einstakur eigandi eða umráðamaður jarðar, jarðarparts eða landsnytja krafist skiptanna.
2. Ef allir hlutaðeigandi eigendur beiðast skipta, þótt lögfest skipti hafi áður átt sér stað.
3. Nú þykir einum eða fleirum aðilum, að lögfest skipti séu óhagkvæm, og getur þá hver einstakur aðili krafist endurskipta. Eigi skulu matsmenn taka slíka kröfu til greina nema þeir telji, að úr megi bæta öðrum aðilum að skaðlausu.
Önnur grein er nær óbreytt frá lögunum 1941. Skiptagerðir eftir lögum þessum skal rita í bók, er sýslumaður löggildir og jafnframt á að þinglýsa þeim (14. grein). Einkaskipti eru heimil, ef eigendur eru sammála og leigjendur og aðrir, sem rétt hafa á landinu, samþykkja. Gera skyldi greinilega skiptagerð um slík einkaskipti (16. grein). Ákvæði áðurnefndrar 14. greinar munu einnig eiga við um einkaskipti.
Þegar fjallað er um landskipti og sameiningu landa, verður að hafa í huga yfirlýsingu Matvælaráðuneytisins árið 2024, þar sem segir, að um það efni gildi jarðalög nr. 81/2004 með áorðnum breytingum.7https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/landbunadur/jarda-og-abudarmal/landskipti-og-sameining-lands/, sótt 11. mars 2024. Því skal bent á nokkrar greinar jarðalaganna, sem fjalla um þetta efni8https://www.althingi.is/lagas/154a/2004081.html, sótt 12. mars 2024. Þriðja grein hljóðar svo:
Lög þessi gilda um allt land sem ekki er undanskilið skv. 2. mgr., þ.m.t. jarðir, jarðahluta, afréttarlönd, almenninga, öræfi, þjóðlendur og hvers konar land, eyðijarðir, landspildur, lóðir, mannvirki, skóga, vatnsréttindi, veiðiréttindi, námuréttindi, jarðhitaréttindi og aðrar náttúruauðlindir, svo og hvers konar aðrar fasteignir, fasteignaréttindi, ítök og hlunnindi á landi og innan netlaga, hvort sem þau hafa verið skilin frá jörð eða ekki.
Undanskilið ákvæðum þessara laga er jarðir, annað land, fasteignir og fasteignaréttindi í þéttbýli sem skipulagt hefur verið fyrir aðra starfsemi en landbúnað með skipulagi staðfestu og/eða samþykktu af skipulagsyfirvöldum í samræmi við ákvæði [skipulagslaga]. Það gildir þó ekki um lögbýli en ákvæði þessara laga gilda um öll lögbýli í þéttbýli án tillits til hvaða skipulag gildir um landsvæði þeirra.
Í 6. grein segir um landskipti:
Skipting lands á landbúnaðarsvæðum, sbr. 48. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, skal samrýmast skipulagsáætlun.
Við beiðni um skiptingu eða sameiningu lands á landbúnaðarsvæðum er sveitarstjórn heimilt að krefjast þess að umsækjandi geri grein fyrir áhrifum hennar á búrekstrarskilyrði. Ákvörðun sveitarstjórnar um hvort fallist verði á skipti skal reist á heildstæðu mati á áhrifum þeirra samkvæmt skipulagsáætlun.
Við skiptingu jarða og annarra fasteigna skal gætt ákvæða laga sem girða fyrir aðskilnað hlunninda og lands.
Um þinglýsingu segir í 54. grein.
Rétthafa er skylt að láta þinglýsa skjali sem felur í sér yfirfærslu á beinum eignarrétti yfir fasteign eða réttindum sem falla undir lög þessi. Sé um að ræða fleiri en eitt skjal um sömu eignayfirfærslu er nægilegt að þinglýsa því sem síðast kemur, t.d. afsali. Einnig er skylt að þinglýsa skjölum um stofnun eða yfirfærslu afnotaréttinda yfir eign til lengri tíma en sjö ára og skjölum um stofnun eða yfirfærslu veðréttinda eða annarra tryggingarréttinda yfir eign. Skjöl sem falla undir þetta ákvæði skulu afhent til þinglýsingar án ástæðulauss dráttar. Ákvæði þetta gildir ekki um samninga veiðifélaga um afnot af veiðiréttindum.
Óheimilt er að þinglýsa skjölum um aðilaskipti að fasteignum sem lög þessi gilda um, nema fyrir liggi að ákvæða laganna hafi verið gætt.
Heimilda um landskipti er því fyrst og fremst að leita í skjalasöfnum sýslumanna, landskiptabókum og afsals- og veðmálabókum.
Einnig er rétt að benda á lög um skráningu, mat og merki fasteigna nr. 6/2001 með áorðnum breytingum, sérstaklega kafla I A Merki fasteigna, sem tók gildi 1. janúar 2024.9https://www.althingi.is/lagas/nuna/2001006.html, sótt 10. apríl 2024.
Pétur Örn Pálmarsson lögfræðingur hefur fjallað um það í prófritgerð hvernig farið væri með veiðirétt við uppskipti á fasteign.10Pétur Örn Pálmarsson, Meginreglan um að eignarhald á landi fylgi veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi. BA–ritgerð í lögfræði við Háskólann í Reykjavík 2012. Leiðbeinandi Kristín Haraldsdóttir, https://skemman.is/bitstream/1946/12326/1/SKILAEINTAKpdf.pdf, sótt 8. apríl 2024.
Sjá einnig Landamerki / Landamerkjabækur í Orðabelg Þjóðskjalasafns.
Um landskipti og sameiningu landa gilda árið 2024 jarðalög nr. 81/2004 samkvæmt yfirlýsingu Matvælaráðuneytisins.11https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/landbunadur/jarda-og-abudarmal/landskipti-og-sameining-lands/, sótt 11. mars 2024.
Tilvísanir
↑1 | Grágás. Elzta lögbók Íslendinga. Útgefin eptir skinnbókinni í bókasafni konungs á kostnað Fornritafjelags Norðurlanda í Kaupmannahöfn af Vilhjálmi Finsen. Síðari deild. Kaupmannahöfn 1852, bls. 86–89, 108–112. |
---|---|
↑2 | Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 152–154. |
↑3 | Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 98–101. |
↑4 | Stjórnartíðindi 1927 A, bls. 55–57, 175–178. |
↑5 | Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 65–69. |
↑6 | https://www.althingi.is/lagas/153c/1941046.html, sótt 23. febrúar 2024. |
↑7 | https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/landbunadur/jarda-og-abudarmal/landskipti-og-sameining-lands/, sótt 11. mars 2024. |
↑8 | https://www.althingi.is/lagas/154a/2004081.html, sótt 12. mars 2024. |
↑9 | https://www.althingi.is/lagas/nuna/2001006.html, sótt 10. apríl 2024. |
↑10 | Pétur Örn Pálmarsson, Meginreglan um að eignarhald á landi fylgi veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi. BA–ritgerð í lögfræði við Háskólann í Reykjavík 2012. Leiðbeinandi Kristín Haraldsdóttir, https://skemman.is/bitstream/1946/12326/1/SKILAEINTAKpdf.pdf, sótt 8. apríl 2024. |
↑11 | https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/landbunadur/jarda-og-abudarmal/landskipti-og-sameining-lands/, sótt 11. mars 2024. |