Landsverslun

Síðast breytt: 2025.03.17
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Seint í júlí 1914, þegar sýnt þótti, að ófriður mundi skella á, urðu flokkarnir á Alþingi sammála um að skipa níu manna nefnd til þess að íhuga afleiðingar þær, sem styrjöldin gæti leitt af sér fyrir Íslendinga. Í framhaldi af því voru samþykkt lög, sem staðfest voru 1. ágúst, sem nr. 9/1914, um að tryggja landið gegn hættu, sem stafað gæti af ófriði í Norðurálfu. Með þeim var landsstjórninni heimilað m.a. að kaupa frá útlöndum hæfilegar birgðir af nauðsynjavöru, svo sem korni, kolum, salti, steinolíu, vélaolíu, veiðarfærum og læknislyfjum o.s.frv. Einnig var heimilað að leggja bann við útflutningi eða sölu úr landi á öllum aðfluttum nauðsynjavörum.1Stjórnartíðindi 1914 A, bls. 14–15. Fór landsstjórnin þegar að afla vara erlendis frá. Ákvæði úr lögunum frá 1914 voru ítrekuð í lögum nr. 7/1915 og nr. 5/1917.2Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 11–12; Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 8–9. Ýmis fleiri lög voru sett vegna aðflutninga og útflutnings auk annarra ráðstafana.

Fram til ársins 1917 keypti landsstjórnin vörur ýmist beint frá útlöndum eða eftir útboði frá heildsölum og umboðssölum í Reykjavík. Árið 1917 urðu mikil umskipti: Atvinnuhagir versnuðu, erlendir markaðir þrengdust og innflutningur varð mjög erfiður, því að leiðir til aðalviðskiptalanda Íslands í Evrópu lokuðust vegna kafbátahernaðar Þjóðverja. Þá töfðust siglingar frá Bandaríkjunum um tíma, þegar Bandaríkjamenn hófu þátttöku í styrjöldinni. Viðskipti og verslun landsstjórnarinnar jukust mjög og komu að miklu leyti í hlut II. skrifstofu Stjórnarráðsins (atvinnumálaskrifstofunnar). Vorið 1917 var stofnuð sérstök skrifstofa eða fyrirtæki til þess að annast alla landsverslunina og hún aðgreind frá atvinnumálaskrifstofunni. Varð Landsverslun eitt öflugasta fyrirtæki landsins og skyldi tryggja aðdrætti á nauðsynjavörum, sjá um að nægar birgðir væru til í landinu og vernda almenning gegn óhóflegri álagningu á þessar vörur.

Árið 1919 fór að draga úr umsvifum Landsverslunar. Innflutningur hennar varð þá miklu minni og frá ársbyrjun 1920 var innflutningur gefinn frjáls. Alþingi samþykkti árið 1922, að starfsemi Landsverslunar skyldi beina að því að selja birgðir hennar, innheimta skuldir og selja áfram tóbak og olíu. Hætti Landsverslun þá að versla með aðrar vörur.3Guðmundur Jónsson, „Baráttan um Landsverslun 1914–1927“, Landshagir. Reykjavík 1986, bls. 129–133.

Fjárhagur landssjóðs varð erfiðari eftir því sem leið á heimsstyrjöldina. Árið 1919 var þó hagstætt, en árið 1920 fóru fjármálaerfiðleikarnir vaxandi og því voru gerðar ýmsar ráðstafanir. Tóbakseinkasala var stofnuð samkvæmt lögum nr. 40/1921.4Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 137–138. Tók hún til starfa í ársbyrjun 1922 og Landsverslun falin umsjónin. Alþingi hafði árið 1917 samþykkt lög nr. 77/1917 um heimild landsstjórnarinnar til einkasölu á steinolíu.5 Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 129–130.. Ekki var þó tekin upp einkasala á steinolíu heldur var Landsverslun með olíusölu í samkeppni við danskt olíufélag. Árið 1922 ákvað ríkisstjórnin að nota heimild laganna frá 1917 til einkasölu á olíu. Gaf atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið út auglýsingu nr. 99/1922 um að ríkisstjórnin tæki í sínar hendur einkasölu á steinolíu frá og með 10. febrúar 1923.6Stjórnartíðindi 1922 B, bls. 217. Var Landsverslun falin framkvæmd olíueinkasölunnar með reglugerð nr. 101/1922.7Stjórnartíðindi 1922 B, bls. 220–221.

            Lögin um einkasölu á tóbaki féllu úr gildi 1. janúar 1926 samkvæmt lögum nr. 48/1925.8Stjórnartíðindi 1925 A, bls. 114–115. Ríkisstjórnin ákvað að gefa steinolíuinnflutning frjálsan frá ársbyrjun 1926 samkvæmt þingsályktun Alþingis árið 1925. Landsverslun flutti þó áfram inn olíu næstu tvö ár, en steinolíuverslun hennar var hætt í árslok 1927 og eignirnar seldar.9Guðmundur Jónsson, „Baráttan um Landsverslun 1914–1927“, Landshagir. Reykjavík 1986, bls. 136–137. Þar með var Landsverslun endanlega úr sögunni.

            Skjalasafn Landsverslunar er varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands, en skráning svo ófullkomin enn, að útlán eru ekki möguleg.

(Heimildir: Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904–1964 II..Reykjavík 1969, bls. 574–592, 605–609; Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 321; Guðmundur Jónsson, „Baráttan um Landsverslun 1914–1927“, Landshagir. Þættir úr íslenzkri atvinnusögu, gefnir út í tilefni af 100 ára afmæli Landsbanka Íslands. Reykjavík 1986, bls. 115–138.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1914 A, bls. 14–15.
2 Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 11–12; Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 8–9
3 Guðmundur Jónsson, „Baráttan um Landsverslun 1914–1927“, Landshagir. Reykjavík 1986, bls. 129–133.
4 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 137–138.
5 Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 129–130.
6 Stjórnartíðindi 1922 B, bls. 217.
7 Stjórnartíðindi 1922 B, bls. 220–221.
8 Stjórnartíðindi 1925 A, bls. 114–115.
9 Guðmundur Jónsson, „Baráttan um Landsverslun 1914–1927“, Landshagir. Reykjavík 1986, bls. 136–137.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 2