Landsyfirréttur

Síðast breytt: 2022.07.07
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Alþingi og yfirrétturinn á alþingi voru afnumin með tilskipun um landsyfirrétt 11. júlí 1800, sem hefði aðsetur í Reykjavík og haldinn væri vikulega frá maíbyrjun til októberloka en í öðrum mánuðum fjórtánda dag hvers mánaðar. Ef dóms- eða lögreglumál kæmu upp á síðara tímabilinu, yrði réttað í þeim vikulega, meðan slíkum opinberum málum væri ólokið. Dómarar voru þrír: Dómstjóri (justitiarius) og tveir meðdómarar (assessorar). Auk þess skyldi skipaður dómsmálaritari (justitssekreteri), sem skráði í dómabókina og átti að semja stefnur og málsskjöl. Ávallt skyldu þrír dómarar sitja í réttinum og dæma. 1Lovsamling for Island VI, bls. 464–473, sjá einkum bls. 467–469. Dómum Landsyfirréttar mátti áfrýja til Hæstaréttar í Danmörku, sem var þá þriðja dómstig í íslenskum málum.
Öll störf lögmanna áttu að ganga til Landsyfirréttar samkvæmt 12. grein tilskipunarinnar frá 11. júlí 1800, þar með þinglýsing kaup- og veðbréfa og birting lagaboða og 2. ágúst 1800 var yfirréttardómurum boðið að þýða á íslensku lög og tilskipanir vegna Íslands og koma á prent. 2Lovsamling for Island VII, bls. 470, 481–482. Boðið var með kansellíbréfi 28. september sama ár, að tvisvar á ári, fyrsta mánudag í mars og október, skyldi birta boðskap yfirvalda í Landsyfirrétti, sem síðan kæmi á prenti. 3Lovsamling for Island VII, bls. 768–769. Slík lagaprentun gekk nokkuð skrykkjótt, a.m.k. framan af.
Árið 1808 var ákveðið, að Landsyfirréttur kæmi saman aðeins sex sinnum á ári, í janúar-, apríl-, júlí-, ágúst-, september- og októberbyrjun, nema opinber mál spryttu upp utan venjulegs samkomutíma. 4Lovsamling for Island VII, bls. 170–171.
Sérstakur sakamálayfirréttur var stofnaður árið 1808. Sá var æðsti dómur í sakamálum og slíkum málum skotið til hans úr héraði beina leið. Samgönguerfiðleikar vegna Napóleonsstyrjaldanna urðu tilefni þessa dómstóls. Í honum sátu dómarar í Landsyfirrétti og tveir lögfróðir menn, sem stiftamtmaður skipaði. Sakamálayfirrétturinn var lagður niður með tilskipun 3. maí 1816. 5Lovsamling for Island VII, bls. 164–166, 598.
Árið 1834 var fyrri meðdómara í Landsyfirrétti falið að þýða málsskjöl á dönsku og annar meðdómari skyldi taka við starfi dómsmálaritara, sem gerðist á næsta ári. 6Lovsamling for Island X, bls. 477–479.
Í upphafi voru bæjarfógeti í Reykjavík og sýslumaður í Gullbringusýslu oftast skipaðir til málflutnings í Landsyfirrétti. Stiftamtmaður gaf út leyfisbréf til málflutnings árið 1806. Löglærðir menn voru oftast valdir til slíkra starfa. Væri þess ekki kostur, voru til þess teknir stúdentar, sem unnu á skrifstofum embættismanna. Árið 1858 var gefin út tilskipun um, að tveir löglærðir menn yrðu settir við Landsyfirréttinn, sem hefðu einkarétt á að sækja þar mál. 7Lovsamling for Island XVII, bls. 292–299. Málflutningur við réttinn var skriflegur.
Landsyfirréttur var lagður niður 1. janúar 1920, þegar Hæstiréttur Íslands tók til starfa sem æðsti dómstóll landsins samkvæmt lögum nr. 22/1919, 6. október. Væri landsyfirdómi (Landsyfirrétti) eða einstökum yfirdómara falið í lögum að framkvæma einhverja ráðstöfun, kæmi Hæstiréttur í staðinn. 8Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 41–53. Síðasta samkoma Landsyfirréttar var 22. desember 1919. Allir þáverandi landsyfirréttardómarar urðu hæstaréttardómarar.
Skjalasafn Landsyfirréttar er varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands. Þar er ekki aðeins að finna dóma og málsskjöl og önnur skjöl réttarins og dómara í réttinum heldur einnig veðmála- og auglýsingabækur frá árunum 1801–1904. Raunar er lítið skráð í þær, þegar kemur fram á 19. öld.
Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum / Landsyfirrjettardómar og hæstarjettardómar í íslenzkum málum fyrir árin 1875–1919 voru gefnir út í 10 bindum á árunum 1882–1920. Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum / Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum fyrir árin 1802–1874 voru gefnir út af Sögufélagi á árunum 1916ؘ–1986.

Heimild:

Björn Þórðarson: Landsyfirdómurinn 1800–1919. Reykjavík 1947; Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 322–323.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island VI, bls. 464–473, sjá einkum bls. 467–469.
2 Lovsamling for Island VII, bls. 470, 481–482.
3 Lovsamling for Island VII, bls. 768–769.
4 Lovsamling for Island VII, bls. 170–171.
5 Lovsamling for Island VII, bls. 164–166, 598.
6 Lovsamling for Island X, bls. 477–479.
7 Lovsamling for Island XVII, bls. 292–299.
8 Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 41–53.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 106