Leyfisbréfagjöld

Síðast breytt: 2021.06.03
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín
Bevillinger og dispensationer

Tilskipun var gefin út 23. maí 1800 með það í huga að leggja niður ýmsar leyfisveitingar, sem taldar voru íþyngja þegnunum hvað mest, og leyfa yfirvöldum að gefa út ýmis leyfi og þessir embættismenn hefðu heimild til þess afhenda slík leyfisbréf með konungsinnsigli. Var þá litið til tímasóunar og tilkostnaðar fyrir umsækjendur, þegar leita þyrfti til kansellísins um leyfisbréf og undanþágur. Leyfisveitingar eða undanþágur voru flokkaðar í þrjá flokka:

A) Án leyfis: 1) Hjónabönd milli skyldra og venslaðra samkvæmt 2. grein tilskipunar frá 14. desember 1775, en hjónabönd fólks í beinni ættarlínu vegna skyldleika eða vensla voru þó bönnuð. Konunglegt leyfi þurfti, vildi karl giftast ekkju bróður, föðurbróður eða móðurbróður. 2) Vildi fjárhaldsmaður færa arfshluta skjólstæðings síns í þá sýslu, þar sem hann sjálfur bjó, varð hann að sjá til þess, að það færi undir yfirfjárráð í því umdæmi. 3) Legorðssekir voru leystir undan tilskipun frá 8. júní 1767, en með henni voru þeir dæmdir í refsivist upp á vatn og brauð í stað þess að standa opinberar skriftir. 4) Óþarft var talið, að ekklar og ekkjur þyrftu leyfi til þess að ganga í hjónaband samkvæmt ákvæðum um tímalengd frá andláti maka, sem sett voru í tilskipun 14. apríl 1752. Það gilti þó ekki um ekkjur, sem enn væru á barneignaraldri. Líða urðu 9 mánuðir frá láti maka, nema reyndur læknir eða ljósmóðir vitnuðu um, að ekkjan væri ekki með barni makans, þegar að brúðkaupi kæmi.

B) Leyfi fékkst frá borgarráðinu í Kaupmannahöfn eða stiftamtmönnum og amtmönnum annars staðar vegna: 1) Skilnaðar hjóna að borði og sæng. 2) Að taka mætti af arfshluta ómyndugra til framfærslu þeirra eða annars, sem þeim kæmi að gagni, þó urðu fjárhaldsmaður og yfirfjárráðandi að vera einhuga. Ef svo reyndist ekki, þá úrskurðaði kansellíið. Fjögur önnur atriði voru einnig talin, sem tæpast áttu við á Íslandi, svo sem leyfi kvenna til þess að sauma kvenmannsföt en þá atvinnu átti einkum að leyfa ekkjum. Leyfisgjöld átti ekki að greiða, nema af leyfum til verslunar með kínverskar og austurindískar vörur í kaupstöðum.

C) Konungleg leyfi og undanþágum sem borgarráðið í Kaupmannhöfn eða stiftamtmenn og amtmenn annars staðar máttu gefa: 1) Greftunarleyfi. 2) Uppreisn æru frá dómi undirréttar eða sekt, ef sótt var um slíkt innan þriggja ára frá uppkvaðningu dóms eða sektar. 3) Leyfi til skuldainnköllunar í dánar-, uppboðs- eða þrotabúum. 4) Leyfi fyrir ekkla og ekkjur til þess að sitja í óskiptu búi með ómyndugum börnum. 5) Leyfisbréf til giftingar í heimahúsum. 6) Leyfi til þess að fá annan prest en sóknarprest til giftingar. 7) Leyfi til þess að staðfesta erfðaskrá, þegar arfláti átti ekki börn eða lögerfingja.1Lovsamling for Island VI, bls. 434–438.

Eftir að þessi tilskipun birtist, urðu leyfisbréfagjöld sérstakur liður í Jarðabókarsjóðsreikningum landfógeta samkvæmt skilagreinum sýslumanna.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island VI, bls. 434–438.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 33