Löggilding mælitækja

Síðast breytt: 2025.03.13
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Mælieiningar voru fyrrum breytilegar og ósamræmi í mælitækjum og ýmsar sögur voru sagðar um ranga vog. Raunar segir í Jónsbók, að menn skuli eigi hafa ranga stiku, pundara né mælikeröld og fylgir lýsing á mælieiningum. Pundarar og mælikeröld skuli liggja á Þingvelli undir lögmanns lási. Eftir þeim átti hver sýslumaður að rétta sína pundara, stikur og mælikeröld. 1Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 223–224.

Á alþingi árið 1635 bað Árni Oddsson lögmaður Pros Mundt höfuðsmann um einn réttan pundara, sem landsmenn skyldu fara eftir. Sagði höfuðmaður kongsins pundara vera á Bessastöðum, sem hefði verið þar í tíð formanna hans og margir pundarar verið réttir eftir. Og Henrik Bjelke höfuðsmaður lofaði á alþingi árið 1651 að panta pundara með „Kaupinhafnar brenndu marki“, sem sýslumenn, sem það vildu, gætu keypt árið eftir. 2Aþingisbækur Íslands V, bls. 380; Aþingisbækur Íslands VI, bls. 287; Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Reykjavík 2021, bls. 188, 201.

Í verslunartaxta frá árinu 1776, sem þó var ekki birtur á alþingi, segir:

að bæði vigt og mælir, sem og peninga-reikningurinn í þessum kaupskap skuli semjast, hið nákvæmasta mögulegt var, eptir því sem hér í ríkjunum er til skipað 3Lovsamling for Island IV, bls. 334.

Árið 1777 voru gefin út fyrirmæli um „jústeringu“ á lýsistunnum, sem „Justeerkammeret“ átti að sjá um. 4Lovsamling for Island IV, bls. 379–380. Þ.e. ákveða tunnustærðina / löggilda hana. Sjá jústera. Árið 1784 var gefinn út konungsúrskurður um að senda skyldi „jústeruð“ mælitæki til sýslumanna á Íslandi til notkunar við úrskurði í deilum, ekki síst á verslunarstöðum. Þau áttu einnig að vera almenningi til fyrirmyndar við að gera sín eigin mælitæki. 5Lovsamling for Island V, bls. 10–11. Sama ár, 1784, var gefin út tilskipun um vog og mál á Íslandi. Þar sagði (6. grein), að sýslumönnum væri heimilt að „jústera“ mælitæki fyrir Íslendinga, sem þeir þyrftu að nota á heimilum sínum eða hafa til fyrirmyndar við mælitækjagerð. Jafnframt var Íslendingum bannað (8. grein) að nota sínar gömlu mælieiningar. 6Lovsamling for Island V, bls. 88–95.

Árið 1849 var sýslumönnum og bæjarfógeta í Reykjavík falið að kanna mælitæki (vog, rúmmál og lengd) hjá fasta- og lausakaupmönnum í kauptíðinni. 7Lovsamling for Island V, bls. 246–247.

Sett voru lög um mælitæki og vogaráhöld, nr. 78/1917, 14. nóvember, sem tóku gildi 1. janúar 1919. 8Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 131–134. Hver verslun, sem mæla skyldi varning eða vega, átti að nota til þess mælitæki eða vogaráhöld, sem löggilt væru og löglega stimluð. Skyldi stofna löggildingarstofu í Reykjavík, sem sæi um a) stimplun og löggildingu mælitækja og vogaráhalda, b) einkasölu á stimpluðum og löggiltum mælitækjum og vogaráhöldum og c) verklegt eftirlit með slíkum tólum. Með lögum nr. 13/1924, 4. júní, sem tóku gildi næsta ár, var lögreglustjórum í kaupstöðunum Reykjavík, Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði og Vestmannaeyjum falin löggilding mælitækja og vogaráhalda. 9Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 15–17.

Í Reykjavík var sérstök löggildingarstofa, sem starfaði á ábyrgð lögreglustjóra. Frá stofnun starfaði stofan að löggildingu fyrir allt landið. 10Ríkishandbók Íslands. Skrá um stofnanir rikisins og Reykjavíkurborgar starfsmenn þeirra o.fl. Ritstjórar og útgefendur: Birgir Thorlacius, Henrik Sv. Björnsson og Páll Líndal. Reykjavík 1965, bls. 154.

Löggildingarstofa varð ríkisstofnun með sérstöku reikningshaldi, sem heyrði undir viðskiptaráðuneyti, samkvæmt lögum um vog, mál og faggildingu nr. 100/1992, 16. desember. 11Stjórnartíðindi 1996 A, bls. 238–242. Með þeim lögum féllu úr gildi lögin frá 1924 um mælitæki og vogaráhöld og lög nr. 22/1907 um metramæli og vog auk fleiri laga. Ný Löggildingarstofa varð til með lögum nr. 155/1996, 27. desember. 12Stjórnartíðindi 1996 A, bls. 504–507. Þá voru fyrri Löggildingarstofa og Rafmagnseftirlit ríkisins lögð niður. Verksvið Löggildingarstofu féll undir Neytendastofu með lögum nr. 62/2005, 20. maí. 13https://www.althingi.is/lagas/152a/2005062.html, sótt 8/3 2022.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 223–224.
2 Aþingisbækur Íslands V, bls. 380; Aþingisbækur Íslands VI, bls. 287; Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Reykjavík 2021, bls. 188, 201.
3 Lovsamling for Island IV, bls. 334.
4 Lovsamling for Island IV, bls. 379–380.
5 Lovsamling for Island V, bls. 10–11.
6 Lovsamling for Island V, bls. 88–95.
7 Lovsamling for Island V, bls. 246–247.
8 Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 131–134.
9 Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 15–17.
10 Ríkishandbók Íslands. Skrá um stofnanir rikisins og Reykjavíkurborgar starfsmenn þeirra o.fl. Ritstjórar og útgefendur: Birgir Thorlacius, Henrik Sv. Björnsson og Páll Líndal. Reykjavík 1965, bls. 154.
11 Stjórnartíðindi 1996 A, bls. 238–242.
12 Stjórnartíðindi 1996 A, bls. 504–507.
13 https://www.althingi.is/lagas/152a/2005062.html, sótt 8/3 2022.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 7