Manntalsbækur / Manntalsþingabækur

Síðast breytt: 2023.01.05
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín

Sýslumenn færðu manntalsbókargjöld (þinggjöld) í sérstakar bækur, sem í skrám ganga undir heitunum manntalsbækur eða manntalsþingabækur. Elst slíkra bóka í Þjóðskjalasafni Íslands er úr Gullbringusýslu og hefst árið 1696.

Oddur Vídalín, sýslumaður í Barðastrandarsýslu, fékk erindisbréf hjá Ólafi Stefánssyni amtmanni í Vesturamti 12. júní 1789. Þar segir, að sýslumaður eigi að halda gegnumdregna og númeraða skatta- og manntalsbók, innsiglaða af amtmanni, þar sem á eftir hinu tíundaða skyldi færa skatta, gjaftolla og tíundir sem og hve mikið hver skyldi gjalda og hvernig.1Lovsamling for Island V, bls. 629, 19. liður. Erindisbréfið var síðan staðfest af rentukammeri.2Lovsamling for Island V, bls. 673–674. [Hvort sýslumenn hafi síðan fengið slík erindisbréf, hefur ekki verið athugað.] Þann10. febrúar 1847 var gefið út „Opið bréf um nokkrar ákvarðanir þeim til trausts, sem þinggjaldi eiga að lúka“ með ákvæðum um löggilda manntalsbók.3Lovsamling for Island XIII, bls. 595–596, íslenskur texti. Þetta bréf var fellt úr gildi með lögum nr. 118/1990, 27. desember og manntalsbækur þar með endanlega úr sögunni.4Stjórnartíðindi 1990 A, bls. 335, 5. grein, 7. liður

Í þessum bókum eru yfirleitt framan af dregnir upp dálkar, þar sem kemur fram heiti jarðar, gjaldandi, hundraðatal tíundarskyldrar fasteignar, lausafjárhundruð, fólksfjöldi hjá gjaldanda, upphæð skatts, gjaftollur, konungstíund af a) fasteign og b) lausafé, lögmannstollur. (Í Húnavatnssýslu má, a.m.k. á 4. áratug 19. aldar, sjá skattana „Delinqventer med flere omkostninger“ og „þinghúsleiga“). Skattupphæðin er jafnan gefin upp í fiskum 5Fiskur var verðeining, gildur fiskur, 4-5 merkur að þyngd (u.þ.b. 1-1,25 kg) eða samsvörun hálfrar alinar vaðmáls. en í sérstökum dálkum reiknuð til silfurverðs. Einnig kemur fram innstæða eða skuld frá fyrra ári og síðan hver skattgreiðsla þessa árs ætti að vera. Síðan koma reitir fyrir hvernig skattar voru greiddir: Með vörum, í peningum, tekið út úr verslun. Loks eru dálkar fyrir innstæður eða skuldir. Skattbreytingar höfðu að sjálfsögðu áhrif á dálkasetninguna.

Í Norsku lögum Kristjáns V er þetta m.a. um þinghald:

Á þingunum skulu fyrst upplesast þær kóngsins forordningar eður befalningar, sem þar koma og boðið er að birta, þar næst kaupgjörningar og afhendingarbréf, makaskipta-, gáfu- og pantabréf, fjárhaldskvitteringar og annað þess háttar … þar á eftir skulu kóngsins mál fyrst takast fyrir og síðan annarra án uppihalds.6Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslendsku útlögð. Hrappsey 1779, 21. dálkur.

Um réttarskrifara segir í Norsku lögum Kristjáns V:

Þeir skulu hvör fyrir sig hafa þing- eður ráðstofubók eður protokol, samt allar bækur réttinum tilheyrandi, númeraðar, ígegnumdregnar og innsiglaðar, þær, sem heyra til undirréttunum, með kóngsins befalingsmanns eður yfirvaldsins, en þær, sem yfirréttunum tilheyra, með stadthaldarans eður stiftamannanna signeti. …

Þeir skulu í fyrrskrifaðar bækur eður protokolla, með ástundan og trúskap án betalings, innteikna allt hvað á þingunum fyrirfellur og fyrir réttinum, hvört það eru dómar, úrskurðir, þingsvitni, panta-, afhendingar-, makaskipta-, gáfu- og maningsbréf og aðra réttarins gjörninga, eftir þeirri orðu sem þau framlögð eru, [skrá átti beint inn í bókina, ekki á laus blöð og hreinskrifa heima].

Enn skulu þeir þar fyrir utan hafa eina bók, hvarí genpartar af öllu þeim dómum skulu skrifast, sem útgefast. …7Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslendsku útlögð. Hrappsey 1779, 66.–67. dálkur.

Ólafur Stefánsson amtmaður í Vesturamti fékk Oddi Vídalín, sýslumanni í Barðastrandarsýslu, erindisbréf 12. júní 1789, sem síðar var látið ná til allra sýslumanna. Hin venjulegu þing skyldi hann árlega halda á sama tíma og vant hefði verið. Málsmeðferð ætti að vera eftir fyrirmælum Norsku laga.8Lovsamling for Island V, bls. 626–627, 9. og 10. liður. Sýslumaður átti að verða sér úti um gegnumdregna og númeraða dóma- eða héraðsþingabók, sem staðfest væri af amtmanni með eigin hendi og innsigli. Í hana átti að færa samviskusamlega alla dóma, úrskurði, þingsvitni og yfirheyrslur. Útskrifaðar bækur skyldi afhenda amtinu til varðveislu.9Lovsamling for Island V, bls. 628–629, 17. liður. Amtmaður gaf einnig fyrirmæli um meðferð embættiskjala.10Lovsamling for Island V, bls. 626. Þá átti sýslumaður að halda gegnumdregna og númeraða skatta- og manntalsbók, innsiglaða af amtmanni, þar sem á eftir hinu tíundaða skyldi færa skatta, gjaftolla og tíundir sem og hve mikið hver skyldi gjalda og hvernig.11Lovsamling for Island V, bls. 629, 19. liður. Rentukammerið mælti fyrir notkun löggiltra manntalsbóka í bréfi til Kriger setts stiftamtmanns 22. maí 1830. Var það gert eftir tillögu frá Hoppe stiftamtmanni. Skyldi notkun slíkra bóka hefjast í ársbyrjun 1831.12Lovsamling for Island IX, bls. 510–512.

Heimildir

  • Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga AÖ. Frá abbadís til Örlygsstaðabardaga. Reykjavík 2015, bls. 353–354.
  • Umboðsmaður Alþingis: Barnabætur. Barnabótaauki. Skuldajöfnuður á móti virðisaukaskatti. Hugtakið „þinggjöld“. (Mál nr. 1437/1995), https://www.umbodsmadur.is/mal/nr/393/skoda/mal.
  • Ólafur Arnar Sveinsson: Leiðarvísir fyrir dóma- og þingbækur í skjalasöfnum sýslumanna í Þjóðskjalasafni Íslands. Þjóðskjalasafn Íslands 2011, bls. 51–52.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island V, bls. 629, 19. liður.
2 Lovsamling for Island V, bls. 673–674.
3 Lovsamling for Island XIII, bls. 595–596, íslenskur texti.
4 Stjórnartíðindi 1990 A, bls. 335, 5. grein, 7. liður
5 Fiskur var verðeining, gildur fiskur, 4-5 merkur að þyngd (u.þ.b. 1-1,25 kg) eða samsvörun hálfrar alinar vaðmáls.
6 Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslendsku útlögð. Hrappsey 1779, 21. dálkur.
7 Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslendsku útlögð. Hrappsey 1779, 66.–67. dálkur.
8 Lovsamling for Island V, bls. 626–627, 9. og 10. liður.
9 Lovsamling for Island V, bls. 628–629, 17. liður.
10 Lovsamling for Island V, bls. 626.
11 Lovsamling for Island V, bls. 629, 19. liður.
12 Lovsamling for Island IX, bls. 510–512.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 106