Manntalsþing

Síðast breytt: 2021.05.26
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín

Manntalsþing var eitt þeirra hreppaþinga, sem hver skattskyldur bóndi var skyldur að sækja árlega eftir lögtöku Járnsíðu 1271–1273. Í Jónsbók er talað um manntalsþing til jafnaðar á vorið.1Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 147. Manntalsþing var haldið undir stjórn sýslumanna á ákveðnum þingstað hrepps að vori til manntals fyrir skattheimtu, þ.e. innheimtu konungsskatts, gjaftolls (sem féll óskiptur til konungs eftir siðaskipti, áður prófasta og sýslumanna), manntalsfisks (gjalds, sem innheimt var aðallega í Gullbringusýslu og á Snæfellsnesi hjá aðkomumönnum á leið til sjóróðra), konungstíundar (frá 1556, áður biskupstíundar) og lögmannstolls (frá 1688). Þessir skattar kölluðust í sameiningu manntalsbókargjöld. Konungsskattur, gjaftollur, konungstíund, lögmanntollur og manntalsfiskur voru lögð niður með lögum frá 1877 og í staðinn komu skattur á ábúð og afnotum jarða og á lausafé, húsaskattur og tekjuskattur. Skyldu þessir skattar fyrst innheimtir á manntalsþingum árið 1879.2Stjórnartíðindi 1877 A, bls. 88–107. Jafnframt urðu til skattanefndir vegna álagningar tekjuskatts.3Stjórnartíðindi 1877 A, bls. 100, 11. grein. Auk þess urðu til aðrir skattar eða sérstakar greiðslur, sem innheimtar voru á manntalsþingum. Má þar nefna hundaskatt, sem settur var á með lögum árið 1890 til varnar gegn sullaveiki.4Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 74–77. Allt þetta kallaðist þinggjöld.

Ætlað hefur verið, að einmánaðarsamkoma að vori (manntalsþing til jafnaðar) hafi orðið að því, sem síðar kölluðust manntalsþing. Ekki hefur verið gerð könnun á því, hvenær sýslumenn héldu yfirleitt manntalsþing. Líklega hefur það þó verið fyrir alþingistíma og Jónsmessu, sem reikningsár miðaðist við. Erfiðar samgöngur hafa þó komið í veg fyrir slíkt í ýmsum sýslum. Árið 1843 bauð kansellíið, að manntalsþing skyldu haldin á tímabilinu frá 16. maí til 10. júní, þó með ýmsum undantekningum. Þau máttu byrja 10. apríl í Skaftafellssýslum, 5. maí í Barðastrandar-, Ísafjarðar- og Strandasýslum og ljúka, ef hægt væri, í júnílok. Í Eyjafjarðar- og Suður-Múlasýslum mátti fresta þinghaldi, þar sem fjallvegir væru örðugir, þangað til vegirnir væru vel færir í júní eða júlí.5Lovsamling for Island XII, bls. 543–544, íslenskur texti. Breytingar voru gerðar vegna Norður-Múlasýslu árið 1850 og Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslna 1863.6Lovsamling for Island XIV, bls. 569, íslenskur texti; Lovsamling for Island XVIII, bls. 593–594. Með lögum nr. 68/1921, 27. júní, var þinghaldstíminn ákveðinn frá 14., 15. eða 16. júní til 15. júlí.7Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 222.

Á manntalsþingum var tekið manntal (innheimtir skattar), birt konungsbréf og ýmsar opinberar tilkynningar, mál tekin fyrir og kveðnir upp dómar, skipaðir hreppstjórar, skjöl þinglesin (afsals-/kaupbréf, gjafabréf, lögfestur, veðbréf o.fl.), lesin forboð vegna óheimillar nýtingar á eggja- og fuglatekju, hrísrifi, silungsveiði o.fl., lýst fjármörkum og óskilafénaði, spurt um arfalaust fé, skipsströnd, vogrek o.fl., spurt um spítalahluti og ólöglega húsmenn og lausafólk, óskilgetin börn og fósturbörn leidd til ættar og ekta (arfs), þ.e. gerð arfgeng, áminnt um vegabætur og lesnar áminningar vegna lagaboða (t.d. vegna landamerkjalaga), o.fl., o.fl.

Ýmislegt af þessu var tengt ákveðnum tímabilum og lagaboðum. Þannig voru manntalsþing dómþing í borgaralegum málum viðvíkjandi skuldum og eigum, áreitingum með orðum eða verki, en þó stofnuð án yfirvaldsskipunar „og yfir höfuð í öllum þeim réttargangsmálum, sem ekki höfðast vegna réttvísinnar eður  hins opinbera pólitís“ samkvæmt „Tilskipun viðvíkjandi réttargangsmátanum við undirréttina á Íslandi í öðrum málum en þeim, sem viðvíkja illvirkja- og opinberum pólitísökum“ frá 15. ágúst 1832 8Lovsamling for Island X, bls. 156–157. Í „Tilskipun um afsalsbréf og pantsetningar á Íslandi“ frá 24. apríl 1833 segir, að þinglýsingar afsalsbréfa, veðbréfa og annarra skjala, sem miða að afhendingu eigna o.fl. skuli í Reykjavík lesa á þeim reglulegu þingum, sem þar haldist í hverri viku. Á öllum öðrum stöðum eigi þau að lesa á árlegu manntalsþingi fyrir þá þingsókn, þar sem lýsingin ætti að fara fram.9Lovsamling for Island X, bls. 304–305. Í lögum um meðferð einkamála í héraði nr. 85/1936, 23. júní, segir í 38. grein, að í kaupstöðum skuli halda bæjarþing til meðferðar allra mála, sem ekki væru sérstaklega undantekin, einu sinni í viku eða oftar, eftir ákvörðun dómsmálaráðherra. Utan kaupstaða skyldi halda manntalsþing til meðferðar dómsmála á þingstað réttum í þinghá hverri einu sinni á ári eins og verið hefði, og að auki aukadómþing þegar þörf krefði.10Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 226–227. Í lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 74/1921, 27. júní, var ákveðið, að lögreglustjórar skyldu innheimta þá skatta á manntalsþingum ár hvert.11Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 290, 42. grein. Innheimtan á manntalsþingum var formlega afnumin með lögum nr. 60/1973, 30. apríl, þegar gjalddagi þeirra var ákveðinn 1. ágúst hvert ár eða fyrsta dags hvers mánaðar eftir álagningu.12Stjórnartíðindi 1973 A, bls. 168–169, 8. grein. Lögum nr. 85/1936 um meðferð einkamála var breytt með lögum nr. 28/1981. Ákvæði um hin árlegu manntalsþing hélst inni en bætt við setningarhlutanum:

nema sýslumaður telji þarflaust og dómsmálaráðherra og sýslunefnd samþykki, að hætt skuli að halda manntalsþing eða breyta þeim.13Stjórnartíðindi 1981 A, bls. 60, 10. grein.

Á árunum 1983–1984 samþykkti dóms- og kirkjumálaráðuneytið, að manntalsþing féllu niður í nokkrum sýslum og á árunum 1986–1987, að manntalsþing yrðu haldin á einum stað í ýmsum öðrum sýslum.14Efnisyfirlit A-deildar og Bdeildar Stjórnartíðinda árin 19811990, bls. 88–89. Ákvæðið um dómsmál á manntalsþingum hvarf með afnámi laganna frá 1936 með lögum nr. 91/1991, 31. desember.15Stjórnartíðindi 1991 A, bls. 534, 1. liður.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 147.
2 Stjórnartíðindi 1877 A, bls. 88–107.
3 Stjórnartíðindi 1877 A, bls. 100, 11. grein.
4 Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 74–77.
5 Lovsamling for Island XII, bls. 543–544, íslenskur texti.
6 Lovsamling for Island XIV, bls. 569, íslenskur texti; Lovsamling for Island XVIII, bls. 593–594.
7 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 222.
8 Lovsamling for Island X, bls. 156–157.
9 Lovsamling for Island X, bls. 304–305.
10 Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 226–227.
11 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 290, 42. grein.
12 Stjórnartíðindi 1973 A, bls. 168–169, 8. grein.
13 Stjórnartíðindi 1981 A, bls. 60, 10. grein.
14 Efnisyfirlit A-deildar og Bdeildar Stjórnartíðinda árin 19811990, bls. 88–89.
15 Stjórnartíðindi 1991 A, bls. 534, 1. liður.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 10 af 10 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 237