Nýbýlatilskipunin 1776

Síðast breytt: 2023.05.05
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín

Íslendingum fækkaði á 18. öld vegna farsótta og harðinda og stjórnvöld höfðu greinilega áhyggjur af þessari öfugþróun. Þannig var árið 1760 gefinn út konungsúrskurður um ráðstafanir til þess að treysta byggð á Íslandi. Þar var ungu fólki, sem vildi hefja búskap á eyðijörðum, heitið undanþágu frá tíundar- og skattgreiðslum fyrstu þrjú búskaparárin.1Lovsamling III, bls. 392–393. Reyndist það árangurslítið.
Árið 1770 var skipuð þriggja manna nefnd, sem skyldi kanna landshagi á Íslandi og leggja fram úrbótatillögur. Hefur hún kallast „Landsnefndin fyrri“. Samkvæmt fyrstu grein erindisbréfs nefndarinnar átti að kanna orsakir fólksfækkunar á Íslandi og jafnframt komið með úrbótatillögur. Var minnst á skiptingu stórjarða, myndun húsmannastéttar og byggingu eyðibýla og eyðibyggða, ef þar væri hægt að framfleyta ábúendum, og hugsanlega örva fólk í hjónabandshugleiðingum til þess að hefja þar búskap. Voru nefnd ýmis byggðarlög og landsvæði, sem áður hefðu verið byggð: Langavatnsdalur, Geitland, innsti hluti Álftafjarðar á Snæfellsnesi, Reykjarfjörður á Hornströndum og yfirgefin landsvæði þar í nánd og loks Hrafnkelsdalur og Möðrudalur.2Landsnefndin fyrri 1770–1771 V. Reykjavík 2020, bls. 99–100.
Allmikill lagabálkur varð afrakstur af störfum Landsnefndarinnar fyrri, meðal annars tilskipun um „fríheit fyrir þá, sem vilja upp taka eyðijarðir eða óbyggð pláss á Íslandi“ 15. apríl 1776. Hefur hún kallast „nýbýlatilskipunin“. Þar eru reglur um, hvernig standa ætti að nýbyggingu eyðijarða og eyðilendna: Auglýsa skyldi í alþingisbók fyrirhugaðar jarðabyggingar. Gæfi enginn eigandi sig fram, skyldi amtmaður skipa sýslumanni að mæla út landið ásamt fjórum mönnum. Þetta mátti einnig gera í eignarlöndum, ef landið lá afnotalaust, svo og í afréttaralmenningum, óbyggðum landsvæðum og eyðibyggðum. Nýbýlingar í byggðum sveitum skyldu undanþegnir greiðslu skatts og tíundar næstu tvo áratugi. Undanþágan náði til ekkna þeirra og erfingja, ef þeir dóu innan þessara tveggja áratuga. Væri enginn sérstakur eignarréttur á landinu, skyldi slíkt nýbýli vera eign nýbýlingsins. Ætti einhver annar landið, skyldi nýbýlingurinn laus við skatta og tíund alla sína lífstíð sem og ekkjan, meðan hún lifði, og börn þeirra hefðu forgangsrétt til ábúðar á býlinu. Á slíkum jörðum var nýbýlingurinn laus við landskuld og afgjöld í þrjú ár, ef landsdrottinn hefði kostað bæjarbygginguna, en í 10 ár, ef nýbýlingurinn kostaði hana sjálfur. Sama átti við um nýbýli á landsvæðum og afréttum, sem tilheyrðu ákveðnum jörðum eða kirkjum. Ætti konungur landið, yrðu nýbýlingurinn og ekkja hans undanþegin landskuld og afgjöldum í 20 ár, ef þau kostuðu bæjarbygginguna sjálf. Nýbýlingar í afréttum, sem ekki væru í eigu einhvers sérstaks, sem og þeir, sem byggðu upp í auðum og yfirgefnum sveitum, skyldu undanþegnir skatti og tíund í 20 ár og fá jörðina til óðals og eignar fyrir sig og sína erfingja.3Lovsamling IV, bls. 244–257, íslenskur texti bls. 251–257. Heimilað var með bréfi 4. maí 1776 að veita nýbýlingum á afskekktum stöðum styrk til húsbygginga og bústofnskaupa.4Lovsamling IV, bls. 275–277.
Eitthvað mun hafa verið um stofnun nýbýla næstu árin eftir tilurð þessarar tilskipunar. Hrafnkelsdalur einn byggðist til frambúðar af þeim svæðum, sem nefnd voru í erindisbréfi landsnefndarinnar. Örfá dæmi um fyrirhugaðar nýbýlastofnanir má finna í Alþingisbókum Íslands, sem allar runnu út í sandinn, þar á meðal á Langavatnsdal. Síðari uppbygging þar endaði með ósköpum.5Jón Helgason, Íslenzkt mannlíf II. Reykjavík 1959, bls. 166–198.
Á fyrri hluta 9. aldar og fram til 1858 var góðæri á Íslandi, sem varð til þess, að byggðarmörk færðust ofar í landið, inn til heiða, og byggð þéttist þar sem hún var áður strjál. Gerðist þetta einkum í Norður-Múlasýslu, þ.e. á heiðum inn af Vopnafirði og í Jökuldalsheiði, í Suður-Þingeyjarsýslu, aðallega í Fljótsheiði milli Bárðardals að vestan og Reykjadals og Mývatnssveitar að austan, og í Svalbarðshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu. Harðindi á síðari hluta 19. aldar, Öskjugos árið 1875 og flutningar fólks til Vesturheims áttu síðan þátt í því að heiðabyggðin eyddist. Þó hélst hún við að einhverju leyti fram eftir 20. öld.6Gunnar Karlsson, „Upphafsskeið þjóðríkismyndunar 1830–1874“. Saga Íslands IX. Reykjavík 2008, bls. 187–190, 198–202.
Heimilda um stofnun nýbýla samkvæmt nýbýlatilskipuninni er einkum að leita í skjalasöfnum sýslumanna, sem áttu að annast útmælingar. Skjalasafn amtmanns í Norður- og Austuramti brann á Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1874. Mun færri nýbýli voru stofnuð í Suður- og Vesturömtunum og því von fárra heimilda. Rit um byggðasögu og fjölmargar greinar um sama efni gefa hugmyndir um tilurð nýbýla á 18. og 19. öld og verða kveikjur að heimildaleit.
Nýbýlatilskipunin féll úr gildi með lögum um nýbýli frá 6. nóvember 1897. Þá mátti stofna nýbýli á eyðijörðum og í öðrum óbyggðum löndum, sem enginn gæti sannað sem sína eign. Nýbýli mátti stofna í afréttum, sem sveitarfélög ættu, og almenningum með leyfi sveitarstjórna, sem ættu afréttina eða hefðu hagsmuni í almenningunum, og með samþykki sýslunefndar.7Stjórnartíðindi 1897 A, bls. 98–101.

(Heimildir: Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 299–303 (landbúnaður), 317–318 (landsnefnd); Lýður Björnsson, „18. öldin“, Saga Íslands VIII. Reykjavík 2006, bls. 178–185; Þorkell Jóhannesson, Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937. Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Reykjavík 1937, bls. 46–49.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling III, bls. 392–393.
2 Landsnefndin fyrri 1770–1771 V. Reykjavík 2020, bls. 99–100.
3 Lovsamling IV, bls. 244–257, íslenskur texti bls. 251–257.
4 Lovsamling IV, bls. 275–277.
5 Jón Helgason, Íslenzkt mannlíf II. Reykjavík 1959, bls. 166–198.
6 Gunnar Karlsson, „Upphafsskeið þjóðríkismyndunar 1830–1874“. Saga Íslands IX. Reykjavík 2008, bls. 187–190, 198–202.
7 Stjórnartíðindi 1897 A, bls. 98–101.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 38