Önnur skrifstofa Stjórnarráðs Íslands

Síðast breytt: 2021.06.23
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

2. skrifstofa Stjórnarráðs Íslands varð til, þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904 með einum ráðherra. Stjórnarráðinu var skipt í þrjár deildir/skrifstofur. 2. skrifstofa var í raun atvinnu-, samgöngu-, póstmála- og sveitarstjórnamáladeild. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 317-321.

Mál, sem heyrðu undir 2. skrifstofu í upphafi, voru m.a.: Atvinna við siglingar, bankar og sparisjóðir, brunamál og eldvarnir, einkaréttur, fiskveiðar (þar með lax- og silungsveiði), iðnaðarmál (þar með iðnaðarnám og námur), landbúnaðarmál (þar með búnaðarskólar, dýralæknar, hýsing í sveitum, skógræktarmál og margt fleira), markaðsmál, póst- og símamál, ræðismenn erlendra ríkja, samgöngur (bæði á sjó og landi, þar með hafnamál og vitar), sveitarstjórnar- og bæjarmálefni (þar með byggingarsamþykktir, fátækramál og sveitfesti), tryggingamál, verkfræðingur landsins, verslun og viðskipti, þjóðjarðir.

Árið 1917 var ráðherrum fjölgað í þrjá og 2. skrifstofa varð atvinnu- og samgöngumáladeild, sem varð atvinnu- og samgöngumálaráðuneyti árið 1921. Málaflokkar 2. skrifstofu voru taldir upp árið 1917: Öll atvinnumál, svo sem fiskveiðar, landbúnaður, verslun, iðnaður og einkaréttarleyfi, bankar og sparisjóðir, samgöngumál öll, vegamál, póstmál, síma- og hraðskeytamál, dýralæknar, sveitarstjórnarmál, þjóðjarðir. Bankar og sparisjóðir voru lagðir undir fjármálaráðuneytið 1922. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 327-328.

Ný skilgreining á skipulagi ráðuneyta var gefin út með konungsúrskurði nr. 64, 29. desember 1924. Þar var fylgt hinni hefðbundu skiptingu milli ráðuneytanna, nema nokkur mál voru sérstaklega falin forsætisráðherra. Um þessar breytingar sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 329-330 og Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 164-165.

Umsjón með þjóðjörðum var falin starfsmanni í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu árið 1936. Var það kallað „Skrifstofa kirkjujarða og þjóðjarða“ en jarðeignadeild frá 1952-1953. Fór hún undir atvinnumálaráðuneytið sem landbúnaðarmál árið 1958. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 363-364.

Sérstök sjúkramálamáladeild og örkumla varð til í ársbyrjun 1937. Sinnti hún einkum styrkveitingum til sjúklinga með alvarlega, langvinna sjúkdóma (þar með ofdrykkjumenn og eiturlyfjaneytendur), mál- og heyrnarlausum börnum og alvarlega málhöltum og blindum og mjög sjóndöprum eða á annan hátt örkumla, örkumla mönnum sem þurftu á tækjum eða umbúðum að halda.. Deildin fór undir félagsmálaráðuneytið árið 1949. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 360, 374-378.

Árið 1939 fóru félagsmál („sveitarstjórnarmál, þar undir fátækramál og atvinnubótafé, tryggingamál og heilbrigðismál“) undir sérstakan ráðherra. (Heilbrigðismálin komu úr 1. skrifstofu). Eftir það var farið að tala um félagsmálaráðuneyti. Það hafði samt ekki sérstaka skrifstofu og málefnin afgreidd í atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu til ársins 1946, þegar sérstakur skrifstofustjóri var ráðinn fyrir félagsmálaráðuneytið. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 371-373. Sérstakar bréfadagbækur eru til fyrir félagsmálaráðuneytið frá 1939.

Viðskiptamálaráðuneyti varð til árið 1939, sem fór með bankamál, gjaldeyrismál og verslunarmál. Gjaldeyris- og verslunarmál komu úr atvinnu- og samgönguráðuneytinu en bankamálin úr fjármálaráðuneytinu. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 391-392.

Bréfadagbók, sem tekin var í notkun árið 1926, er merkt atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu en bréfadagbækurnar halda áfram í hlaupandi númeraröð. Snemma árs 1943 var hætt að færa í bækur, sem teljast mega beint framhald 2. skrifstofu.

Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu var skipt í tvennt árið 1947. Fylgdu iðnaðarmál samgöngumálaráðuneytinu. Sjá Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls. 360-361, 365.

Í efnisyfirliti bréfadagbóka II. skrifstofu eru lög iðulega skráð undir bókstafnum L, í flokki laga frá ákveðnu ári. Oft er vísað til fyrri málefnanúmera í bókunum, en þó geta verið á því undantekningar og lögin fái nýtt númer, sem yngri bréf eru síðan skráð á. Getur því orðið harla tafsamt að leita að slíkum bréfum nema menn leiti uppi lagasetningarár málsins. Einnig geta bréfaskrár skrifstofunnar hjálpað, ef nafn bréfrita, sem skrifaði um þetta mál, er þekkt.

Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 40