Prestsseðlar, vottorð og tilkynningar

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 13 mín

Prestsseðlar/altarisgönguseðlar eru fyrst og fremst vottorð, sem prestar áttu að gefa mönnum, sem fluttu úr prestakallinu, um altarisgöngur þeirra og hvers vegna þeir flyttu. (Sjá umfjöllun um passa og altarisgönguvottorð í Lögreglueftirlit presta).

Prestar þurfa í starfi sínu að gefa út eða taka á móti alls konar vottorðum eða tilkynningum, sem stundum virðast hafa verið flokkuð með prestsseðlum eða á annan hátt í skjalasöfnum presta. Að sjálfsögðu hefur í tímans rás orðið þar breyting á samkvæmt þeim kröfum, sem löggjafinn hefur gert á hverjum tíma.

Fæðing og skírn

Í skjalasöfnum presta má finna fæðingartilkynningar ljósmæðra, sem þær áttu að senda viðkomandi sóknarpresti eða safnaðarstjóra, eða tilkynningar frá heilsugæslustöðvum eða fæðingarstofnunum, skírnar- eða fæðingarvottorð, sem venjulega koma vegna skírnar eða fæðingar utan heimasóknar eða fermingar eða giftingar. Ljósmæður skyldu senda þjóðkirkjuprestum í fæðingarsóknum barna tilkynningar um fæðingar. Væri móðirin í utanþjóðkirkjusöfnuði með löggildan prest eða forstöðumann, skyldi tilkynningin send honum, ef barnið fæddist í safnaðarhverfinu. Væru til staðar heilsuverndarstöðvar viðurkenndar af heilbrigðisstjórninni, sem hefðu ungbarnaeftirlit með höndum, skyldi ljósmóðirin tilkynna barnsburðinn þangað, en stöðin senda tilkynningarnar til hlutaðeigandi prests eða safnaðarstjóra. Ákvæði um þessa tilkynningaskyldu ljósmæðra kom fyrst fram í yfirsetukvennareglugerð 9. mars 1914. Ljósmæðrareglugerð frá árinu 1933 með breytingum frá árunum 1942 og 1974 var í gildi til ársins 2008, þegar hún var afnumin með reglugerð nr. 966/2008 um breytingu á ýmsum reglugerðum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa heilbrigðisstétta til landlæknis.1Stjórnartíðindi 1914 B, bls. 14 (6. gr.); 1933 B, bls. 321–322 (11. grein); 1942 B, bls. 262; Vef. http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/heilbrigdisraduneyti/nr/2535, sótt 27. september 2017. — Engin ákvæði eru um tilkynningaskyldu ljósmæðra í yfirsetukvennalögum nr. 27/1875, 17. desember, sem tóku gildi 1. ágúst árið eftir, Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 122–125. Raunar voru í kirkjuritúali frá árinu 1685 ákvæði um, að yfirsetukonur skyldu tilkynna presti um fæðingu óskilgetinna barna, en þá var fyrst og fremst hugsað um siðsemina.2Lovsamling for Island I, bls. 446–447 (5. grein). Ekkert er á fæðingartilkynningar minnst í kirkjuskipunum Kristjáns III og IV frá árunum 1537 og 1607, þar sem fjallað er um barnsskírn og ljósmæður.3Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 138–139, 152–154, 193–194, 210–212; Kirkeordinansen av 1607 og forordning om ekteskapssaker gitt 1582. Oslo 1985, bl. 17r–19v, 57v–59v. Foreldrar skyldu færa börn sem fyrst til skírnar eftir ákvæðum húsagatilskipunarinnar frá árinu 1746.4Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 563–564 (2. grein); Lovsamling for Island II, bls. 605–606 (2. grein). — Um barnsskírn sjá t.d. Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 251–256. Ábyrgð á tilkynningu um fæðingu var því hjá foreldrum, ekki yfirsetukonu.

Samkvæmt upplýsingum frá fæðingardeild Landspítalans (símtal árið 2004) voru fæðingartilkynningar sendar Þjóðskrá en ekki til presta, og hafði svo verið um nokkurt skeið. Ekki hefur verið kannað, hvaða vinnubrögð eru höfð á fæðingarstofnunum úti um land, en sennilega hefur þróunin alls staðar orðið á sama veg.

Í skjalasöfnum presta má finna skírnarvottorð og tilkynningar um skírnir frá öðrum prestum, sem hafa skírt börn úr viðkomandi prestakalli. Upptök þess munu að öllum líkindum vera í lögum nr. 9/1882, 12. maí, um leysingu á sóknarbandi, þar sem öllum húsráðendum, börnum þeirra og hverjum, sem væri fermdur og 18 ára að aldri, var heimilt að kjósa sér annan prest en sóknarprest sinn. Sóknarleysingi skyldi gefa sóknarpresti greinilegar skýrslur um öll prestsverk, er kjörprestur hefði fyrir hann gert, en sóknarprestur skyldur að geta þeirra í kirkjubók sinni eins og lög stæðu til. Kjörprestur skyldi í embættisbók sinni geta prestsverka, sem skylt væri að rita í kirkjubók, en ekki telja þau í ársskýrslu, nema fermingar.5Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 66–69.

Lög um mannanöfn nr. 41/1913, sem voru sett 10. nóvember 1913, heimiluðu nafnbreytingar og ættarnöfn. Fengist heimild til nafntöku eða nafnbreytingar, gaf Stjórnarráð Íslands út leyfisbréf til handa umsækjanda. Afrit af því átti að senda hlutaðeigandi sóknarpresti, sem skyldi geta nafntökunnar í kirkjubókinni við skírnarnöfn þeirra, er nafntakan eða nafnbreytingin næði til.6Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 93–96 (sjá einkum 10. grein). Mannanafnalög, nr. 54/1925, 27. júní, hafa ekki ákvæði um þessa tilkynningaskyldu til sóknarpresta, enda ekki heimilt að taka upp ættarnöfn, og ekki heldur síðari lög, nr. 37/1991, 27. mars, og nr. 45/1996, 17. maí.7Stjórnartíðindi 1925 A, bls. 170–171; 1991 A, bls. 256–257 (7. grein); 1996 A, bls. 121–122 (13.–17. grein). Síðastnefndu lögin voru enn í gildi árið 2017 með áorðnum breytingum.8Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1996045.html, sótt 27. september 2017. Þó virðist sem dómsmálaráðuneytið eða Hagstofan/Þjóðskrá hafi áfram kynnt prestum nafnbreytingar, því að slíkar tilkynningar eru í skjalasöfnum presta.

Ferming

Þegar prestar fermdu börn, sem fædd voru í annarri sókn, þurfti skírnarvottorð. Yfirleitt hafa börnin eða forráðamenn þeirra fengið þau aftur í hendur, því að þau þurfti að nota síðar. Ef börnin höfðu ekki náð tilskildum aldri eða kunnátta í lestri og kristindómi uppfyllti ekki ákveðin skilyrði, var oft sótt um undanþágu. Umsóknir og bréf um leyfi eða synjun má finna í skjalasöfnum biskups, prófasta og presta, þó mjög sjaldan í söfnum þeirra síðastnefndu. Í tilskipun um eitt og annað um skriftastólinn og altarisgöngu á Íslandi 27. maí 1746 var boðið, að vottorð um fermingu skyldu prestar gefa ókeypis og þeir ungu og óþekktu framvísa því, þegar þeir leituðu altarisgöngu eða kæmu í aðrar sóknir.9Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 542 (2. grein); Lovsamling for Island II, bls. 578–579 (2. grein). Slík vottorð kölluðust fermingarseðlar.10Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 88.

Altarisganga

Norsku lög Kristjáns V árið 1687 segja presta ekki mega taka ókunnuga til altaris nema þeir hafi vottorð prests síns um líferni þeirra og hegðun.11Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkur 183 (21. liður). Í tilskipun um altarisgöngur, 27. maí 1746, er gert ráð fyrir, að menn hafi vegabréf og vitnisburð um fermingu, sem prestar séu skyldugir að gefa. Þá skyldu þeir, sem fengju leyfi til þess að ganga til altaris hjá öðrum presti, hafa vottorð fyrrverandi sálusorgara. Sömuleiðis þeir, sem færu frá Íslandi til Kaupmannahafnar, og einnig þegar þeir kæmu þaðan aftur. Betlarar áttu að hafa með sér vitnisburð prests, þar sem þeir gengu síðast til altaris, um þekkingu þeirra og framferði.12Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 541–542 (1.–5. grein); Lovsamling for Island II, bls. 578–579 (1.–5. grein). Þegar fólk flutti í aðra sókn (prestakall) þurfti að sýna presti fermingarseðil eða vottorð um altarisgöngu, prestsseðil, frá fyrri presti.13Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur, bls. 88.

Hjónavígsla

Tilskipun um eitt og annað í hjónabandssökum og móti lauslæti með fleira, 3. júní 1746, bauð prestum að kanna kristindómskunnáttu hjónaefna og hvort annað þeirra kynni að lesa á bók.14Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 557–558 (2. grein); Lovsamling for Island II, bls. 600–601 (2. grein). Framan af og fram eftir 20. öld var fremur lítið um það, að fólk fengi aðra en sóknarpresta sína til þess að vinna prestsverk. Að vísu færðust borgaralegar giftingar í vöxt þegar kom fram á 20. öld, og þjónusta utanaðkomandi presta, bæði þjónandi og annarra, sem höfðu hlotið vígslu, fór vaxandi. Samkvæmt lögum um utanþjóðkirkjumenn nr. 4/1886, 19. febrúar, átti valdsmaður (sýslumaður eða bæjarfógeti), sem gaf saman hjón, að skrá í sérstaka bók allt varðandi hjónabandið, sem nokkru varðaði, fá hjónunum afrit þess og senda annað afrit presti í sókninni, þar sem brúðurin átti heima fyrir hjónaband, og skyldi prestur færa það í gerðabók sína. Sömuleiðis var prestur eða forstöðumaður utanþjóðkirkjusafnaðar skyldur að gefa skýrslur og vottorð, er yfirvöld krefðust og að söfnuði lytu og aðrar upplýsingar, í líkingu við þjóðkirkjupresta.15Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 16–23 (sjá 5. og 14. grein). Þessi lög voru felld úr gildi með lögum um trúfélög nr. 18/1975, 30. apríl. Samkvæmt þeim færði prestur eða forstöðumaður skráðs trúfélags þær embættisbækur, sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið fyrirskipaði, og gaf út tilheyrandi embættisvottorð.16Stjórnartíðindi 1975 A, bls. 60 (17. grein). Nú (2017) eru í gildi lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999, 28. desember, með ýmsum breytingum, og nú er aðeins talað um forstöðumann skráðs trúfélags, ekki prest, og innanríkisráðuneyti er komið í stað dóms- og kirkjumálaráðuneytis.17Stjórnartíðindi 1999 A, bls. 236–239; Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1999108.html, sótt 27. september 2017.

Vottorð, sem búast má við vegna hjónavígslu, geta verið mörg: Í hjónabandstilskipun frá 1587 eru ekki tiltekin nein vottorð, sem framvísa þurfti hjá presti, nema þá helst, ef tryggja þurfti, að ekki væru meinbugir á hjúskapnum.18Lovsamling for Island I, bls. 113–124. Sama er að segja um tilskipan um eitt og annað í hjónabandssökum og móti lauslæti með fleira, sem gefin var út 3. júní 1746.19Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 557–562. Í tilskipun um embættisfærslu presta með tilliti til hjúskapar, sem gefin var út 30. apríl 1824, en staðfest fyrir Ísland 7. desember 1827, voru eftirtalin ákvæði um það, sem prestar þurftu að athuga og krefjast tilhlýðilegra vottorða: Athuga þurfti lögmætan aldur hjónaefna, sem urðu að vera fermd og hafa gengið til altaris. Hjónaefnin máttu ekki vera bundin af hjónabandi eða hjúskaparloforðum. Skyldleiki þeirra mátti ekki vera of náinn, skv. tilskipun 23. maí 1800, eða konunglegt leyfi að vera til staðar. Ekkjumaður varð að bíða giftingar þrjá mánuði og ekkja eitt ár frá láti maka. Þó máttu bændur og almúgafólk giftast fyrr, þegar aðstæður leyfðu ekki einlífi, karlar sex vikum, konur þremur mánuðum eftir dauða maka, ef vissa var fyrir því, að konan gengi ekki með barn látins manns síns. Brúður varð að hafa samþykki foreldra eða forráðamanna, ef hún var ekki ekkja, sömuleiðis brúðgumi, sem var ekki lögráða. Fólk, sem drýgt hafði hór saman, mátti ekki giftast. Ekki heldur fólk, sem ekki var með fullu viti. Það fólk, sem naut eða notið hafði sveitarstyrks, eftir að það komst af barnsaldri, án þess að endurgreiða hann, mátti ekki giftast án leyfis fátækrastjórnar. Ekki máttu aðrir vera svaramenn en konunglegir embættismenn eða búfastir menn. Þeir urðu að ábyrgjast, að engin lögleg hindrun væri fyrir hjúskapnum. Þá ábyrgð varð að staðfesta í prestsþjónustubókinni eða með sérstöku skjali, svaramannavottorði. Ekkill eða ekkja máttu ekki giftast nema lögleg skipti væru byrjuð eða lögð fram viðeigandi vottorð. Hjónaefni urðu að sanna, að þau hefðu fengið bólusótt eða verið bólusett, bólusetningarvottorð. Tekið var fram við staðfestingu laganna árið 1827, að holdsveiku fólki væri bannað að giftast samkvæmt fyrirmælum frá 28. mars 1776.20Lovsamling for Island VIII, bls. 537–544; IX, bls. 243–246. Samanber Lovsamling for Island IV, bls. 210–211;

Í bókinni Íslenzkur kirkjuréttur, sem kom út árið 1912, gerði Einar Arnórsson grein fyrir þeim vottorðum, sem þurfti þá til fyrirhugaðs hjúskapar: Ef lýsingar prests í prédikunarstóli, þar sem spurst var fyrir um meinbugi á væntanlegum hjúskap, fóru ekki fram, þurfti konunglegt leyfisbréf. Svaramannavottorð, sem rituð voru á laus blöð, sem prestur varðveitti, eða í prestsþjónustubókina, urðu að liggja fyrir eða undanþáguleyfi og eiðsvottorð um, að ekki væru meinbugir á hjúskapnum. Skírnar-, fermingar- og altarisgönguvottorð varð að leggja fram og einnig bólusetningarvottorð. Þá varð að hafa vottorð hreppsnefndaroddvita eða bæjarstjóra þar, sem brúðhjón voru sveitlæg, sem sannaði, að þau stæðu ekki í ógreiddri sveitarskuld. Aldursleyfi, ef brúðhjón voru yngri en reglur ákváðu, svo og samþykki foreldra eða forráðamanna. Læknisvottorð þurfti, ef vafi lék á, að hjónaefni væru með fullu viti eða grunur var um holdsveiki, svo og konungsleyfi, ef um ákveðnar mægðir eða skyldleika var að ræða. Þá þurfti að leggja fram tilhlýðileg vottorð, ef annað hjónaefna eða bæði höfðu verið gift áður. Embættismenn þurftu að leggja fram vottorð um, að þeir hefðu óskað eftir, fullnægt kröfu um eða væru undanþegnir því að sjá konu sinni fyrir lífeyri eftir sinn dag.21Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 138–144. Sum þessara ákvæða voru þá orðin harla gömul, enda voru sett lög um stofnun og slit hjúskapar nr. 39/1921, 27. júní. Þar voru tilgreindir skilmálar fyrir giftingu, vottorð, sem framvísa þurfti hjá vígslumanni, hverjir mættu gefa saman hjón, og hvernig færa skyldi hjónavígslu til bókar. Samkvæmt því þurfti vígslumaður fullgild skilyrði fyrir því m.a., að hjónaefni hefðu náð tilskyldum aldri (fæðingarvottorð). Ef svo var ekki, þurfti leyfi lögráðamanns, sömuleiðis hefði maður verið sviptur lögræði, einnig þurfti læknisvottorð, sifskapur að vera virtur. Þannig þurfti stjórnarráðsleyfi til að vígja saman mann og afkvæmi systur eða bróður. Hefði annað hjóna verið gift áður og fjárfélag með þeim hjónum, þurfti vottorð um skipti. Auk þess þurfti vottorð tveggja áreiðanlegra svaramanna, sem ábyrgðust, að engin hindrun væri fyrir hjónabandinu.22Stjórnartíðindi 1921 A, bls., 116–136 (sjá einkum 7.–25. 27.–33., 37. og 40. grein).

Ýmsar breytingar voru gerðar á þessum lögum, uns sett voru ný lög um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972, 29. maí, og reglugerð um könnun hjúskaparvottorða 8. júní 1973. Samkvæmt þeim voru vottorðin þessi: Fæðingar-, skírnar- eða nafnvottorð, aldursleyfi dómsmálaráðuneytis, ef annað hjónaefna eða bæði væru undir 18 ára aldri, og þá jafnframt samþykki foreldra, lögráðamanns eða ráðuneytis, læknisvottorð, hjúskaparleyfi frá dómsmálaráðuneyti, hefði annað hjónaefna verið gift skyldmenni hins í beinan legg. Hefði annað hjónaefna verið gift áður, varð að leggja fram gögn, er vottuðu lögskilnað, ógildingu hjúskapar eða lát maka og þá jafnframt gögn varðandi búskipti eða sambærileg gögn. Löggildir vígslumenn skyldu kanna þessi gögn og gefa út vottorð um, að vígsla mætti fara fram. Vottorð þetta skyldi afhent þeim, sem vígsluna framkvæmdi.23Stjórnartíðindi 1972 A, bls. 85–86 (I. og II. kafli); 1973 B, bls. 327–331. Venjan mun hafa verið sú, að borgaralegir vígslumenn gæfu út þessi vottorð/leyfisbréf. Er þá þessara gagna að leita hjá þeim, sem gefa út leyfisbréfin, ef framvísun þeirra er ekki látin nægja, og hjónaefni haldi sínum vottorðum. Í hjúskaparlögum nr. 31/1993, 14. apríl, eru ákvæði um, að hjónaefni skuli leggja fram vottorð um, að könnun á hjónavígsluskilyrðum hafi farið farið fram. Meðal þeirra skilríkja eru fæðingarvottorð og gögn um lok fyrra hjúskapar. Auk þess skulu hjónaefni gefa skriflega yfirlýsingu um, að þau viti ekki um tálma á fyrirhuguðum hjúskap, og vígslumaður krefja þau um vottorð tveggja svaramanna um, að þeir ábyrgist engan lagatálma vera á fyrirhuguðum hjúskap. Löggildir hjónavígslumenn skulu annast könnun á hjónavígsluskilyrðum. Þessi lög gilda enn árið 2017 með nokkrum breytingum.24Stjórnartíðindi 1993 A, bls. 129–156 (sjá einkum 7.–26. grein); Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1993031.html, sótt 27. september 2017. Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 123–124. Með lögum nr. 65/2001, 15. maí, voru gerðar nokkrar breytingar með tilliti til vottorðakönnunar, þannig að könnunar- og vígslumaður er ekki alltaf sá sami.25Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 123–124.

Þótt öll þessi mögulegu vottorð hafi verið nefnd, eru það fyrst og fremst svaramannavottorð, sem liggja í skjalasöfnum presta. Einnig eru þar heilbrigðisvottorð, en öðrum vottorðum virðast hjónaefni oftast hafa haldið.

Mannslát og greftrun

Finna má í skjalasöfnum presta tilkynningar húsbænda eða hreppstjóra um mannslát, þar sem jafnframt er farið fram á jarðsetningu. Í umburðarbréfi kansellís til biskupa 5. apríl 1823 er minnt á, að jarðarför megi ekki fara fram fyrr en skiptaráðanda hafi verið tilkynnt um andlátið.26Lovsamling for Island VIII, bls. 409–410. Þetta er tekið upp í bréfi dómsmálaráðuneytisins til stiftamtmanns 17. nóvember 1849, þar sem fallist er á, að hreppstjórar taki við dánartilkynningum og gefi út dánarvottorð, og kirkju- og kennslumálaráðuneytinu tilkynnt að láta biskupinn yfir Íslandi kynna íslenskum prestum, að útför mætti ekki fara fram, nema vottorð um tilkynningu til skiptaréttar lægi fyrir.27Lovsamling for Island XIV, bls. 356–357. Í lögum um skipti á dánarbúum og félagsbúum nr. 3/1878, 12. apríl, eru ákvæði um, að lát manns skuli tafarlaust tilkynna hreppstjóra eða skiptaráðanda, en prestur megi ekki jarða lík, fyrr en honum hafi verið sýnt vottorð skiptaráðanda eða hreppstjóra um að honum hafi verið tilkynnt látið.28Stjórnartíðindi 1878 A, bls. 6–7 (1. grein). Nú (2017) eru í gildi lög um dánarvottorð, krufningar o.fl. nr. 61/1998, 12. júní, með áorðnum breytingum. Samkvæmt þeim skal afhenda dánarvottorðið venslamanni hins látna, sem fær það sýslumanni, sem afhendir aftur staðfestingu á andlátstilkynningu, og útför má ekki fara fram, nema sá, sem hana annast, hafi fengið slíka staðfestingu. Dánarvottorðið sjálft sendir sýslumaður til Þjóðskrár Íslands, sem framsendir það til landlæknis þegar andlátið hefur verið skráð í þjóðskrá ásamt nauðsynlegum upplýsingum.29Stjórnartíðindi 1998 A, bls. 260–261 (10. og 17. grein); Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1998061.html, sótt 27. september 2017.

Prestar áttu aldrei að varðveita dánarvottorð. Lög um dánarskýrslur nr. 30/1911, 11. júlí, fólu prestum að semja dánarskýrslur, sem þeir áttu að senda héraðslæknum sínum ásamt dánarvottorðum, ef til væru, en í kirkjubækur áttu þeir að rita dauðamein hins látna, ef hann hafði dáið utan kauptúns, sem læknissetur var í.30Stjórnartíðindi 1911 A, bls. 192–195. Sama ár, 1911, gaf landlæknir út Leiðbeiningar um dánarvottorð og dánarskýrslur með tilvísun til þessara laga. Í leiðbeiningunum var nafnaskrá yfir dauðamein og ætlast til þess, að farið væri eftir henni, þegar dánarvottorð og skýrslur væru samin. Var sagt mjög æskilegt, að dauðamein væru tölusett eftir skránni, bæði á dánarvottorðum og í kirkjubókum, og skráð bæði sjúkdómsnúmer og dauðameinið, því að þá gerði minna til, þótt önnur nöfn væru notuð en stæðu í skránni.31Guðmundur Björnsson (síðar Guðmundur Björnson), Leiðbeiningar um dánarvottorð og dánarskýrslur (sbr. lög um dánarskýrslur 11. júlí 1911). Reykjavík 1911. Biskup sendi öllum próföstum dánarskýrslueyðublöðin og leiðbeiningarnar til útbýtingar meðal presta með bréfi 15. september 1911 og hnykkti á í bréfi 9. október sama ár.32ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-E/3. Bréfabók biskupsdæmis Íslands 1911, bls. 92–93 (nr. 1163–1182) og 133–134 (nr. 1291–1310). Prestar, a.m.k. sumir, fóru eftir þessu við færslur í prestsþjónustubækur, en reyndust misjafnlega þolgóðir. Lög um dánarvottorð og dánarskýrslur nr. 42/1950, 8. maí, mæltu fyrir um, að prestar semdu árlega skýrslur um fólksfjölda, barnkomur og manndauða í prestaköllum sínum og sendu héraðslæknum ásamt dánarvottorðum. Héraðslæknar áttu síðan að senda skýrslurnar og vottorðin Hagstofu Íslands. Með lögum nr. 64/1962, 25. apríl, var prestum boðið að senda dánarvottorðin beint til Hagstofu Íslands.33Stjórnartíðindi 1950 A, bls. 44–45 (5.–10. grein); 1962 A, bls. 103 (9. grein). Það var síðan afnumið árið 1998 eins og áður sagði.

Árið 1831, 21. desember, birtist konungleg tilskipun um, að ýmis lagaboð, sem gefin hefðu verið út fyrir Danmörku árið 1827, skyldu, með nauðsynlegum breytingum og nánari ákvörðunum, einnig gilda á Íslandi. Þar á meðal voru reglur um greiðslur fyrir vottorð, sem prestar gæfu út. Þar segir m.a.:

1. Prestar hafi engan rétt til þess að krefjast greiðslu:
a) fyrir öll vottorð, sem þeir eigi að gefa embættis vegna, annað hvort eftir almennum, fyrirskrifuðum fyrirmælum eða sérlegum tilmælum hlutaðeigandi embættismanna til notkunar í opinberum málum;
b) fyrir vottorð, sem nota ætti með umsóknum um eftirlaun eða opinbera styrki eða til þess að fá eftirlaunin eða styrkinn greidd;
c) vottorð um sáttatilraunir í hjónaskilnaðarmálum;
d) vottorð til öreiga, án tillits til þess, hvers vegna vottorðanna væri óskað.

2. Greiðsla fyrir vottorð, sem ekki væru ókeypis, væri 16 skildingar silfurs, þegar beiðandinn væri húsmaður, tómthúsmaður, daglaunamaður, vinnuhjú eða í öðru viðlíka standi, 32 skildingar af öllum öðrum. Þegar vottorðið væri samsett, t.d. úr ýmsum þáttum kirkjubókarinnar, mætti krefja um hálfa greiðslu fyrir hina vottorðshlutana, en heildargreiðslan mætti ekki vera nema tvöfalt verð einstaks vottorðs.

3. Fyrir vottorð um framferði vinnuhjúa og áritanir á slík mætti ekki taka meira en 6 skildinga silfurs.34Lovsamling for Island IX, bls. 834–836. Danski textinn, bls. 825–826, er í raun miklu ljósari en knosaður, íslenski textinn. Hér er því stuðst við þann danska. Í danska textanum er í þriðja lið ekki minnst á vinnuhjú, aðeins talað um umsagnir (skudsmål) og áritanir á þær.

Jón Pétursson, dómari í Landsyfirrétti, fjallar í bók sinni Íslenzkur kirkjurjettur, sem kom út árið 1863, um ýmis vottorð, sem prestar áttu að gefa út eða krefjast við embættisathafnir. Þeir áttu m.a. að gefa út vottorð, sem krafist gæti verið í sakamálum, vottorð um fátækt og ástand þeirra, sem beiddust einhvers styrks frá hinu opinbera. Ef einhver, sem eldri væri en 22 ára, vildi verða að fullu fjár síns ráðandi (fjárræðisaldur var 25 ár), þurfti hann vitnisburð prests um, að hann væri svo ráðsettur, að hann hafði sannarleg not af slíku leyfi. Vildu ekkjur sitja í óskiptu búi með börnum sínum eða ekkjumenn eða ekkjur með stjúpbörnum sínum, þurfti álit prests um, hvort það væri gott fyrir uppeldi og uppfóstur barnanna. Fermingarseðil skyldu prestar gefa þeim, sem þeir fermdu, svo og prestsseðil (altarisgönguvottorð), bóluseðil (bólusetningarvottorð) þeim, sem þeir bólusettu og bóla kæmi út á.35Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur, bls. 147–148. Þá nefnir Jón mörg vottorð, sem prestar þurftu að gefa út eða krefjast við giftingu og skilnað, svo sem: Skírnarvottorð brúðhjóna eða skjöl, sem sýndu aldur með vissu. Fermingar- eða prestsseðla, sem sönnuðu fermingu eða altarisgöngu. Hefði annað eða bæði brúðhjóna verið gift áður, þurfti a) vegna skilnaðar að framvísa konunglegu leyfi til giftingar eða dómi, sem leyfði giftingu, b) Ekkjumaður, sem var bóndi eða almúgamaður, mátti giftast 6 vikum eftir lát maka, aðrir 6 mánuðum eftir andlát makans. Búandi ekkja eða almúgakona mátti giftast þremur mánuðum eftir lát maka, en varð að sanna með vottorði læknis eða eiðsvarinnar yfirsetukonu, að hún væri ekki ólétt. Annars urðu konur að bíða í eitt ár. Dauði fyrri maka skyldi sannaður með vottorði prests, sem gróf hinn látna, eða öðrum vitnisburði. Þá þurfti vitnisburð um, að skipti í dánarbúinu væru a.m.k. byrjuð. Ef hjónaefni voru tengd í forboðna liði, þurfti konunglegt leyfisbréf. Ef grunur var um holdsveiki, þurfti læknisvottorð, sem sannaði hið gagnstæða. Samþykkis foreldra eða fjárráðamanns var krafist, ef ákveðnu aldurstakmarki var ekki náð. Hefði annað hjónaefna drýgt hór með hinu, þurfti konunglegt leyfi til giftingar. Krafist var vottorðs um endurgoldinn sveitarstyrk, hefði hann verið þeginn. Þá þurfti vottorð um bólusetningu og svaramannavottorð, sem sýndi, að engir meinbugir væru á hjónabandinu. Við hjónaskilnað þurfti prestur að árita skilnaðarbeiðni, að sáttatilraun hefði farið fram, og sömuleiðis vitna um framferði viðkomandi, meðan skilnaður að borði og sæng stóð yfir.36Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur, bls. 105–127. Þá ætti að fá viðurkenningu frá skiptaráðanda fyrir tilkynningu um dauðsfall, áður en greftrun megi fara fram. Því yrði víða ekki komið við. Prestar láti þá nægja að skrifa sýslumanni um andlát og sjá um, að bréfið kæmist hið fyrsta áleiðis. Sums staðar hefðu hreppstjórar umboð frá sýslumanni til þess að taka við dánartilkynningum.37Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur, bls. 134–135.

Árið 1912 taldi Einar Arnórsson upp vottorð, sem prestar ættu að gefa úr embættisbókum sínum, og auk þess ýmis önnur vottorð í þágu einstakra manna eða alþjóðar: 1) Úr embættisbókum: Skírnar-, hjónavígslu-, dánar- og fermingarvottorð, vottorð um flutning manna í prestakallið og burtför úr því (síðasta atriðið skipti máli vegna ákvörðunar á sveitfesti þurfamanna), vottorð um sáttatilraun milli hjóna og um hegðun hjóna, er sæktu um leyfisbréf til skilnaðar. 2) Önnur vottorð: Vottorð um þroska manns, þegar hann sækti um lögaldursleyfi, vottorð um fjárhag sóknarmanna, þegar óskað væri eftir styrk eða hlunnindum af almannafé, og til þess að slíkur styrkur yrði greiddur.38Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 157.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1914 B, bls. 14 (6. gr.); 1933 B, bls. 321–322 (11. grein); 1942 B, bls. 262; Vef. http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/heilbrigdisraduneyti/nr/2535, sótt 27. september 2017. — Engin ákvæði eru um tilkynningaskyldu ljósmæðra í yfirsetukvennalögum nr. 27/1875, 17. desember, sem tóku gildi 1. ágúst árið eftir, Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 122–125.
2 Lovsamling for Island I, bls. 446–447 (5. grein).
3 Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 138–139, 152–154, 193–194, 210–212; Kirkeordinansen av 1607 og forordning om ekteskapssaker gitt 1582. Oslo 1985, bl. 17r–19v, 57v–59v.
4 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 563–564 (2. grein); Lovsamling for Island II, bls. 605–606 (2. grein). — Um barnsskírn sjá t.d. Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 251–256.
5 Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 66–69.
6 Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 93–96 (sjá einkum 10. grein).
7 Stjórnartíðindi 1925 A, bls. 170–171; 1991 A, bls. 256–257 (7. grein); 1996 A, bls. 121–122 (13.–17. grein).
8 Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1996045.html, sótt 27. september 2017.
9 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 542 (2. grein); Lovsamling for Island II, bls. 578–579 (2. grein).
10 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 88.
11 Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkur 183 (21. liður).
12 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 541–542 (1.–5. grein); Lovsamling for Island II, bls. 578–579 (1.–5. grein).
13 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur, bls. 88.
14 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 557–558 (2. grein); Lovsamling for Island II, bls. 600–601 (2. grein).
15 Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 16–23 (sjá 5. og 14. grein).
16 Stjórnartíðindi 1975 A, bls. 60 (17. grein).
17 Stjórnartíðindi 1999 A, bls. 236–239; Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1999108.html, sótt 27. september 2017.
18 Lovsamling for Island I, bls. 113–124.
19 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 557–562.
20 Lovsamling for Island VIII, bls. 537–544; IX, bls. 243–246. Samanber Lovsamling for Island IV, bls. 210–211;
21 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 138–144.
22 Stjórnartíðindi 1921 A, bls., 116–136 (sjá einkum 7.–25. 27.–33., 37. og 40. grein).
23 Stjórnartíðindi 1972 A, bls. 85–86 (I. og II. kafli); 1973 B, bls. 327–331.
24 Stjórnartíðindi 1993 A, bls. 129–156 (sjá einkum 7.–26. grein); Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1993031.html, sótt 27. september 2017. Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 123–124.
25 Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 123–124.
26 Lovsamling for Island VIII, bls. 409–410.
27 Lovsamling for Island XIV, bls. 356–357.
28 Stjórnartíðindi 1878 A, bls. 6–7 (1. grein).
29 Stjórnartíðindi 1998 A, bls. 260–261 (10. og 17. grein); Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1998061.html, sótt 27. september 2017.
30 Stjórnartíðindi 1911 A, bls. 192–195.
31 Guðmundur Björnsson (síðar Guðmundur Björnson), Leiðbeiningar um dánarvottorð og dánarskýrslur (sbr. lög um dánarskýrslur 11. júlí 1911). Reykjavík 1911.
32 ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-E/3. Bréfabók biskupsdæmis Íslands 1911, bls. 92–93 (nr. 1163–1182) og 133–134 (nr. 1291–1310).
33 Stjórnartíðindi 1950 A, bls. 44–45 (5.–10. grein); 1962 A, bls. 103 (9. grein).
34 Lovsamling for Island IX, bls. 834–836. Danski textinn, bls. 825–826, er í raun miklu ljósari en knosaður, íslenski textinn. Hér er því stuðst við þann danska. Í danska textanum er í þriðja lið ekki minnst á vinnuhjú, aðeins talað um umsagnir (skudsmål) og áritanir á þær.
35 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur, bls. 147–148.
36 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur, bls. 105–127.
37 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur, bls. 134–135.
38 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 157.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 1 0 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 360