Prófastar

Síðast breytt: 2025.03.18
Áætlaður lestími: 3 mín

Prófastar eru aðstoðarmenn eða fulltrúar biskups í einstökum landshlutum. Í kaþólskum sið voru prófastar dómarar í umboði biskups nema í stærstu málum og áttu að standa vörð um hagsmuni hans og kirkjunnar í héraði sínu.1Magnús Stefánsson, „Frá goðakirkju til biskupskirkju“, Saga Íslands III. Reykjavík 1978, bls. 159–163; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 140; Einar Laxness, Íslands saga i–r. Reykjavík 1995, bls. 190–192 (prófastur). Prófastsembætti var orðið algeng og viðurkennd stofnun á Íslandi a.m.k. á árunum eftir 1280.2Magnús Stefánsson, „Frá goðakirkju til biskupskirkju“, bls. 161.

Próföstum fyrir siðaskipti bar að hafa eftirlit með því að fyrirmælum kirkjunnar væri hlýtt. Þeir voru fulltrúar biskups og oddvitar stjórnsýslu kirkjunnar hver í sínu umdæmi og áttu í umboði biskups að hafa eftirlit með prestum í prófastsdæmum sínum og fyrir hönd biskups kveða upp dóma í málum, sem sóknarprestar máttu ekki fjalla um, auk annarra starfa. 3Magnús Stefánsson, „Frá goðakirkju til biskupskirkju“, bls. 163. Talið var ekki óalgengt að leikmenn úr höfðingjastétt hafi gegnt prófastsembættum fyrir siðaskipti, þótt svo ætti ekki að vera.4Einar Laxness, Íslands saga i-r, bls. 190.

Heimildir um prófasta fyrir siðaskipti og afmörkun prófastsdæma eru mjög takmarkaðar og er helst að finna á strjálingi í Íslenzku fornbréfasafni.

Stjórnunarhlutverk prófasta breyttist lítið við siðaskiptin. Samkvæmt kirkjuskipun Kristjáns III. frá 1537 áttu prófastar að vera prestlærðir, kjörnir af prestum í hverju prófastsdæmi, en það var misbrestasamt í fyrstu. Biskupar skyldu hafa sér til aðstoðar einn prófast í hverju héraði með ærnu eftirlitshlutverki. Þeir væru jafnframt milligöngumenn biskupa og sóknarpresta. Dómsvaldi héldu prófastar í andlegum málum, a.m.k. að nokkru.5Ísl. fornbréfasafn X, bls. 229, 236–238. Sjá einnig: Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 82–83.

Árið 1552 var samþykkt á alþingi að mál milli kennimanna og leikmanna skyldu dæmd af andlegu og veraldlegu valdi.6Ísl. fornbréfasafn XII, bls. 439. Því tíðkuðust svonefndir helmingadómar í málum presta og leikmanna á síðari hluta sextándu aldar og langt fram á þá sautjándu. Í héraði voru helmingadómar nefndir af biskupi, umboðsmanni hans eða prófasti annars vegar og sýslumanni hins vegar.7Björn Karel Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjvavík 1956, bls. 28. Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup fékk því framgengt á prestastefnum á árunum 1645 og 1646 að prestar í Skálholtsbiskupsdæmi voru dæmdir undan veraldlegu valdi í andlegum málum (málum sem snertu embætti presta) og undir andlegt vald eitt. Handhafar andlegs valds urðu því biskup og prófastar.8Björn Karel Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 28–29; Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls. 74–78. Helmingadómar héldust hins vegar lengur í Hólabiskupsdæmi. Prófastsdómur var eins konar undirréttur, fyrirskipaður af biskupi í hverju máli. Valdsvið prófasta í dómsmálum var skert á ýmsan hátt á 18. og 19. öld samhliða skerðingu á dómsvaldi kirkjunnar en hlutdeild veraldlegra embættismanna aukin, t.d. í hjúskapar- og skiptaréttarmálum.

         Samkvæmt erindisbréfi biskupa árið 1746 var próföstum skylt að vísitera prófastsdæmi sín árlega eða á tveimur árum, ef um víðáttumikil umdæmi var að ræða, og senda biskupi skýrslur um ferðir sínar. Sömuleiðis áttu prófastar að kunngera prestum fyrirmæli stjórnvalda (konungs eða biskups).9Lovsamling for Island II, bls. 654–655, 657 (21. og 29. grein). Prófastar voru þá og eru enn milliliðir milli presta og biskups vegna ýmiss konar skýrslugerðar, sem hefur þróast í tímans rás.

Prestar og prófastar áttu að skila skýrslum um fædda, fermda, gifta og dána, fólksfjölda, blinda, heyrnar- og mállausa til æðri yfirvalda. Skýrslurnar miðuðust við sóknir og prestaköll sem slík en ekki var farið eftir hreppamörkum. Eigi að nota þessar skýrslur í tengslum við hreppaskjöl er nauðsynlegt að hafa sóknaskipunina í huga.

Hlutverk prófasta var skilgreint þannig í starfsreglum árið 2006: Prófastur hefði í umboði biskups tilsjón með kirkjulegu starfi í prófastsdæminu, embættisfærslu presta, þjónustu vígðra og starfi sóknarnefnda. Prófastur væri trúnaðarmaður biskups og ráðgjafi í kirkjulegum málum og í fyrirsvari fyrir prófastsdæmið varðandi sameiginleg málefni þess gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum. Prófastur annaðist úttektir kirkna og prestssetra, vísiteraði prestaköll, söfnuði, kirkjur, kapellur, kirkjugarða og grafreiti reglubundið. Þá sæi hann um að biskupi bærust árlega skýrslur úr prestaköllum prófastsdæmisins og hefði eftirlit með því að prestar skiluðu embættisskýrslum til Hagstofu Íslands. Þessar reglur gilda í ársbyrjun 2023 með ýmsum breytingum.10Vef. <http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7>, 30. júní 2015; Vef. <https://kirkjan.is/library/Files/Starfsreglur/Starfsreglur%20um%20pr%C3%B3fasta%20nr.%20966_2009.pdf>, 24. janúar 2023.

Tekjur prófasta

Heimildir um prófastalaun fyrir siðaskipti eru takmarkaðar. Vera má að þeir hafi fengið visitasíulaun frá kirkjuhöldurum. Samkvæmt réttarbót Eiríks Magnússonar Noregskonungs árið 1280 (1. liður) skyldu þeir prestar hafa prófastsdæmi sem eigi hefðu sóknarkirkjur og leynileg skriftamál.11Ísl. fornbréfasafn II, bls. 196, 204. Þá tóku prófastar til sín ýmsar sektagreiðslur.

Bein ákvæði um tekjur prófasta finnast fyrst á 16. öld og lúta að sektagreiðslum.12Ísl. fornbréfasafn IX, bls. 78–79, 81–82. Þær tekjur áttu prófastar að missa eftir siðaskipti en áttu að fá greitt fyrir kirknavisitasíu.13Ísl. fornbréfasafn X, bls. 229. Eru til ýmis ákvæði um slíkar greiðslur. Þá fengu prófastar greitt fyrir úttektir prestssetra og kirknanna þar við prestaskipti sem og kirkjujarðanna. Árið 1796 fékk Skálholtsbiskup konungsbréf um að prófastar skyldu gifta sóknarpresta og konur á heimilum þeirra, þeim skyldar, halda líkræður yfir sóknarprestum og ættingjum þeirra, sem byggju á heimilum prestanna, einnig yfir uppgjafaprestum og prestaekkjum, og fá greiðslu í hvert skipti.14Lovsamling for Island VI, bls. 226–228. Óvíst er, hversu mikið var farið eftir því.

         Árslaun úr Prestslaunasjóði bættust við lögbundin laun prófasta með lögum árið 1907 en misjöfn eftir stærð prófastsdæma.15Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 302–303. Ákvæði um laun prófasta komu inn í lög um laun embættismanna árið 1919.16Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 22. Laun prófasta og presta fylgdu lögum og kjarasamningum frá 1945 en féllu undir kjaradóm með lögum nr. 45/1991 um starfskjör presta þjóðkirkjunnar.17Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 86; Stjórnartíðindi 1991 A, bls. 277–278. Kjararáð tók við af kjaradómi með lögum nr. 47/2006.18Vef.<http://www.althingi.is/altext/stjt/2006.047.html>, 20. júlí 2017. Laun prófasta munu nú (2023) miðast við starfsmannastefnu þjóðkirkjunnar og samninga.19Vef. <https://kirkjan.is/library/Files/Stefnur/Starfsmannastefna_%c3%bej%c3%b3%c3%b0kirkjunnar.pdf>, 24. janúar 2023.

(Heimild: Björk Ingimundardóttir, Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi. Reykjavík 2019, bls. 507–517. Þar er nánari umfjöllun og frekari heimildatilvísanir.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Magnús Stefánsson, „Frá goðakirkju til biskupskirkju“, Saga Íslands III. Reykjavík 1978, bls. 159–163; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 140; Einar Laxness, Íslands saga i–r. Reykjavík 1995, bls. 190–192 (prófastur).
2 Magnús Stefánsson, „Frá goðakirkju til biskupskirkju“, bls. 161.
3 Magnús Stefánsson, „Frá goðakirkju til biskupskirkju“, bls. 163.
4 Einar Laxness, Íslands saga i-r, bls. 190.
5 Ísl. fornbréfasafn X, bls. 229, 236–238. Sjá einnig: Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 82–83.
6 Ísl. fornbréfasafn XII, bls. 439.
7 Björn Karel Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjvavík 1956, bls. 28.
8 Björn Karel Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 28–29; Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls. 74–78.
9 Lovsamling for Island II, bls. 654–655, 657 (21. og 29. grein).
10 Vef. <http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7>, 30. júní 2015; Vef. <https://kirkjan.is/library/Files/Starfsreglur/Starfsreglur%20um%20pr%C3%B3fasta%20nr.%20966_2009.pdf>, 24. janúar 2023.
11 Ísl. fornbréfasafn II, bls. 196, 204.
12 Ísl. fornbréfasafn IX, bls. 78–79, 81–82.
13 Ísl. fornbréfasafn X, bls. 229.
14 Lovsamling for Island VI, bls. 226–228.
15 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 302–303.
16 Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 22.
17 Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 86; Stjórnartíðindi 1991 A, bls. 277–278.
18 Vef.<http://www.althingi.is/altext/stjt/2006.047.html>, 20. júlí 2017.
19 Vef. <https://kirkjan.is/library/Files/Stefnur/Starfsmannastefna_%c3%bej%c3%b3%c3%b0kirkjunnar.pdf>, 24. janúar 2023.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 6