Prófastsdæmi

Síðast breytt: 2025.03.18
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Prófastsdæmaskipun fyrir siðaskipti virðist að nokkru leyti hafa tekið mið af skiptingunni í þinghár eins og þær voru samkvæmt lögbókunum Járnsíðu og Jónsbók en þinghánum oft verið skipt í minni einingar sem prófastsdæmum.1Þinghárnar voru: Múla-, Skaftafells-, Rangár-, Árness-, Kjalarness-, Þverár-, Þórsness-, Þorskafjarðar-, Húnavatns-, Hegraness-, Vöðla- og Eyjar-/Þingeyjarþing, sjá Járnsíða og kristinréttur Árna Þorlákssonar. Útgefendur: Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon, Már Jónsson. Reykjavík 2005, bls. 63–64; Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 81–82. Á siðaskiptatímanum voru þau stundum enn minni einingar, a.m.k. í Skálholtsbiskupsdæmi. Þegar siðaskiptin festust í sessi, voru prófastsdæmi löngum tengd sýslum eins og boðið var í konungsbréfum á árunum 1573 og 1574.2Lovsamling for Island I, bls. 98–99. Raunar var skipan sýslna ekki að öllu leyti föst og prófastsdæmi féllu ekki allt of vel að þeim. Sem dæmi má taka Múlasýslu, sem var í tveimur eða þremur hlutum 1670–1779 en varð þá tvö afmörkuð sýslufélög.3Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir með skýringum og viðaukum eptir Jón Pétursson og Hannes Þorsteinsson IV. Reykjavík 1909–1915, bls. 739–742, 751–761; Lovsamling for Island IV, bls. 470–474. Eftir siðaskipti mun Múlasýsla hafa verið eitt prófastsdæmi til ársins 1747, þegar prófastsdæmin urðu tvö.4Prófastskosning í hálfu Múlaprófastsdæmi fór fram á prestastefnu í Vallanesi í desember 1746, ÞÍ. Bps. A. IV. 14. Bréfabók Finns Jónssonar officialis 1743–1747, bl. 197v–199r (nýrri blaðamerking bl. 286v–288r. Eiðasókn, sem náði yfir Eiðahrepp, lenti í Norður-Múlaprófastsdæmi, þótt hreppurinn væri í Suður-Múlasýslu.

Prófastar fóru yfirleitt eftir sýslumörkum við visitasíur kirkna í þeim prestaköllum, sem tilheyrðu tveimur sýslum.

         Sameining prestakalla á síðari hluta 19. aldar og á þeirri 20. hafði áhrif á prófastsdæmaskipan. Kirkjur og sóknir fóru í prófastsdæmi prestakallsins, sem sameiningin var gerð við. Sama gat átt við um stofnun prestakalls, svo sem Fjallaþinga, Möðrudalssókn í Norður-Múlasýslu fór þá í Norður-Þingeyjarprófastsdæmi.

Ný prófastsdæmi urðu einnig til: Þingeyjarprófastsdæmi var skipt í Suður-og Norður-Þingeyjarprófastsdæmi árið 1869 og Reykjavíkurprófastsdæmi stofnað árið 1940. Urðu prófastsdæmi á Íslandi þá 21 talsins. Með lögum árið 1952 voru Seyðisfjarðar- og Vestmannaeyjaprestaköll færð milli prófastsdæma.

         Árið 1970 var prófastsdæmum fækkað í 15 með sameiningu nokkurra prófastsdæma og tilfærslum milli prófastsdæma og breytinga á mörkum.5Stjórnartíðindi 1970 A, bls. 286–291. Raskaðist þá frekar sú samtenging prófastsdæma við sýslur sem verið hafði um aldir. Reykjavíkurprófastdæmi varð að tveimur, vestra og eystra, með lögum frá 1990 og á næstu árum urðu enn  breytingar á prófastsdæmaskipun. Árið 2011 voru prófastsdæmin orðin níu talsins: Austurlands-, Suður-, Kjalarness- Reykjavíkur-, vestra og eystra, Vesturlands-, Vestfjarða-, Húnavatns- og Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og er svo enn (ársbyrjun 2023.)

(Heimild: Björk Ingimundardóttir, Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi. Reykjavík 2019, bls. 517–564. Þar er nánari umfjöllun og frekari heimildatilvísanir og rakin saga einstakra prófastsdæma.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Þinghárnar voru: Múla-, Skaftafells-, Rangár-, Árness-, Kjalarness-, Þverár-, Þórsness-, Þorskafjarðar-, Húnavatns-, Hegraness-, Vöðla- og Eyjar-/Þingeyjarþing, sjá Járnsíða og kristinréttur Árna Þorlákssonar. Útgefendur: Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon, Már Jónsson. Reykjavík 2005, bls. 63–64; Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 81–82.
2 Lovsamling for Island I, bls. 98–99.
3 Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir með skýringum og viðaukum eptir Jón Pétursson og Hannes Þorsteinsson IV. Reykjavík 1909–1915, bls. 739–742, 751–761; Lovsamling for Island IV, bls. 470–474.
4 Prófastskosning í hálfu Múlaprófastsdæmi fór fram á prestastefnu í Vallanesi í desember 1746, ÞÍ. Bps. A. IV. 14. Bréfabók Finns Jónssonar officialis 1743–1747, bl. 197v–199r (nýrri blaðamerking bl. 286v–288r.
5 Stjórnartíðindi 1970 A, bls. 286–291.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 2