Ræktunarsjóður Íslands

Síðast breytt: 2023.11.23
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Ræktunarsjóður Íslands var stofnaður samkvæmt lögum nr. 13/1900, 2. mars 1900.1Stjórnartíðindi 1900 A, bls. 62–65. Sjóðurinn var myndaður af andvirði þjóðjarða, sem seldar höfðu verið frá árslokum 1883 til ársloka 1898. Andvirði þjóðjarða, sem síðar yrðu seldar, skyldi renna í sjóðinn, sem hafði þann tilgang að efla ræktun landsins. Stofnfé mátti ekki skerða, en verja mátti því til jarðabóta og annarra framkvæmda, er að jarðrækt lutu. Vöxtum mátti verja til verðlauna fyrir frábæran dugnað í jarðabótum, að því leyti sem þeir runnu ekki til stofnfjárauka. Landsstjórn hafði sjóðsstjórn á hendi. Leita skyldi álits Búnaðarfélags Íslands um lán- og verðlaunaveitingar.

Heimilað var að lána úr sjóðnum til ábýliskaupa, hvort sem væru jarðir eða grasbýli og þurrabúðir utan verslunarstaða í kaupstöðum og kauptúnum með lögum nr. 34/1905, 20. október.2Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 214. Samkvæmt lögum nr. 72/1917, 14. nóvember, mátti nota allt að 2/3 hlutum vaxtanna til þess að styrkja Búnaðarfélag Íslands til kaupa, tilrauna og útbreiðslu landbúnaðarverkfæra og til verðlaunaveitinga.3Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 121.

Ný lög um Ræktunarsjóð Íslands, nr. 17/1925, voru sett 13. júní 1925.4Stjórnartíðindi 1925 A, bls. 39–48. Tilgangurinn var að efla ræktun landsins og stuðla að bættum húsakynnum í sveitum (1. grein). Tekjur af þjóðjörðum héldust (2. grein.) Tekið var fram í 8. grein, að fé sjóðsins mætti einungis lána til jarðræktar og til húsagerðar á býlum í sveitum. Landsbanki Íslands skyldi fyrst um sinn hafa alla afgreiðslu sjóðsins og annast bókhald hans (29. grein). Jafnframt voru afnumin lög nr. 38/1924, 4. júní5Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 73–74. um stofnun búnaðarlánadeildar við Landsbanka Íslands.

Ræktunarsjóður varð deild í Búnaðarbanka Íslands, einni af sex, við stofnun bankans samkvæmt lögum nr. 31/1929, 14. júní. Tilgangur bankans var að styðja landbúnaðinn og greiða fyrir fjármálaviðskiptum þeirra, er stunduðu landbúnaðarframleiðslu.6Stjórnartíðindi 1929 A, bls. 64–80, sjá einkum 2., 3. og 53. grein. Ný lög um Ræktunarsjóð Íslands voru sett á árunum 1935, nr. 105/1935, 1947, nr. 66/ 1947 7Stjórnartíðindi 1935 A, bls. 201–208; Stjórnartíðindi 1947 A, bls. 210–212.

Ræktunarsjóður Íslands varð hluti af Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem var deild í Búnaðarbanka Íslands, samkvæmt 3. og 5. grein laga nr. 75/1962 um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum landsins.8Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 146–147.

Ekki er ólíklegt, að flestar bújarðir á Íslandi hafi á einhverjum tíma fengið lán úr Ræktunarsjóði vegna ræktunar eða húsbygginga. Óvíst er, hvar skjöl Stofnlánadeildar landbúnaðarins og þar með Ræktunarsjóðs eru niðurkomin, þegar þetta er skrifað.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1900 A, bls. 62–65.
2 Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 214.
3 Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 121.
4 Stjórnartíðindi 1925 A, bls. 39–48.
5 Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 73–74.
6 Stjórnartíðindi 1929 A, bls. 64–80, sjá einkum 2., 3. og 53. grein.
7 Stjórnartíðindi 1935 A, bls. 201–208; Stjórnartíðindi 1947 A, bls. 210–212.
8 Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 146–147.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 8