Sakramenti

Síðast breytt: 2022.07.06
Áætlaður lestími: 2 mín

Sakramenti / náðarmeðal / heilög kvöldmáltíð. Nú á tímum er yfirleitt átt við altarisgöngu (heilaga kvöldmáltíð), þegar talað er um sakramenti. Sakramenti eru þó í raun fleiri og mismunandi í kaþólskum og lútherskum sið.
Í kaþólskum sið teljast sakramentin sjö: Skírn, skriftir, altarisganga, ferming, hjónavígsla, prestsvígsla, síðasta smurning. Þessi voru ákveðin á 13. öld. 1Sven Helander, Sakrament, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XIV, dálkar 665–668.
Að þjónusta á oft við að veita fólki altarissakramenti. Á síðari tímum, a.m.k., mun það einkum tákna að veita fólki síðasta altarissakramentið, þ.e. þegar það var alvarlega veikt eða lá fyrir dauðanum. Í kaþólskum sið gilti:
Þegar dauðinn var á næsta leiti kom kirkjan enn að nýju inn í líf mannsins og veitti honum síðustu þjónustu. … Sérhver sóknarprestur átti að vera reiðubúinn að vitja sjúks manns með heilagt altarissakramenti frá síðustu messu og gefa honum líkama Krists, eða „husla“ hann eins og það hét. Það var leiðarnesti hans (viaticum) til annars heims. 2Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 275.
Um mikilvægi altarisgöngunnar fyrir sáluhjálp manna segir Gunnar F. Guðmundsson:
Athöfnin við altarið var æðsta stund í lífi sérhvers manns sem á annað borð var sannfærður um að hann væri að taka þátt í kvöldmáltíð frelsarans: Með því að neyta líkama Krists, sem sagður var bæði Guð og maður, gátu dauðlegir menn öðlast hlutdeild í eilífu lífi hans. 3Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, bls. 317.
Í lútherskum sið eru sakramentin tvö: Skírn og altarisganga. Er sú skilgreining komin frá Marteini Lúther. 4Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 31–32.
Altarisgangan („þjónustutekjan“) var eftir kirkjuskipun Kristjáns III. styrking trúaðra manna og vitnisburður þess, að þeir fengju: Syndafyrirgefningu, dóm gerða sinna og eilíft líf. 5Íslenskt fornbréfasafn X, bls. 141.
Sá, sem hafði í hyggju að neyta altarissakramentis, átti að gefa sig fram við prest og óska eftir að skrifta einslega (einkaskriftir). Átti prestur þá að prófa kunnáttu og taka við játningu hvers sóknarbarns fyrir sig. En skriftir munu sjaldnast hafa farið fram í eintali prests og sóknarbarns heldur fylgdist fjölskylda eða fólk af sama heimili að. Allir fylgdu sama utanaðlærða játningarformála og því engin ljós rök fyrir því að afleysa mann einslega. 6Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 172.
Að setja einhvern út af sakramentinu táknar því fyrst og fremst í lútherskum sið, að mönnum var neitað um að ganga til altaris og því bannað að þiggja sakramentið (náðarmeðulin) úr höndum prests, þ.e. brauð og vín, sem eru tákn líkama og blóðs Krists. Slíkt náði til þeirra, sem urðu uppvísir að því að brjóta lög og reglur samfélagsins. 7Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 173. Einnig getur það merkt að hafna einhverjum.
Gildi altarissakramentis fyrir fólk má ráða nokkuð af því, að Jón Hreggviðsson fór á árunum 1692–1693 tvisvar utan af Akranesi til prófastsins í Reykholti til þess að fá samþykki hans fyrir því, að sóknarpresturinn í Görðum á Akranesi veitti Jóni aflausn og sakramenti. Jón mátti fara bónleiður í bæði skiptin, en hann hafði talað óviðurkvæmilega um konung við Innrahólmskirkju 31. júlí 1692. 8ÞÍ. Skjalasöfn presta og prófasta. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/1, bls. 299b–300a, 359b. Raunar fundu prestar sér ýmislegt til eins og prestur í Görðum á Akranesi, sem vildi ekki taka tvo menn til heimullegrar aflausnar, þar eð þeir höfðu bjargað heyi bónda nokkurs frá skemmdum á sunnudagskvöldi sumarið 1731. Þar þótti þó prófasti nokkuð langt gengið. 9ÞÍ. Skjalasöfn presta og prófasta. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/2, bls. 369b–371.
Altarisganga var fyrrum skylda allra, sem fermdir voru. Einar Arnórsson taldi hana vera dauðan bókstaf árið 1912. Hann segir:
Ef menn vanræktu þessa skyldu, lá kirkjurefsing við, þar á meðal bannfæring, meðan hún var í lögum, en síðan tukthúsvist eða þrældómur, kgsbr. 26. júní 1782 § 4. Annað mál er það, að skírn, ferming og altarisganga eru skilyrði til nautnar ýmisra réttinda, svo sem kirkjulegs hjónabands. 10Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 45–46 (3. liður), sbr. bls. 143 (8. liður).
Skilyrðin, sem Einar nefndi, eru nú öll úr sögunni.

(Heimild: Björk Ingimundardóttir, Sett út af sakramenti, Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Reykjavík 2001, bls. 140–151.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Sven Helander, Sakrament, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XIV, dálkar 665–668.
2 Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 275.
3 Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, bls. 317.
4 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 31–32.
5 Íslenskt fornbréfasafn X, bls. 141.
6 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 172.
7 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 173.
8 ÞÍ. Skjalasöfn presta og prófasta. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/1, bls. 299b–300a, 359b.
9 ÞÍ. Skjalasöfn presta og prófasta. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/2, bls. 369b–371.
10 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 45–46 (3. liður), sbr. bls. 143 (8. liður).
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 273