Sauðfjárveikivarnir og sauðfjársjúkdómanefnd

Síðast breytt: 2025.03.17
Slóð:
Áætlaður lestími: 5 mín

Innflutningur sauðfjár, nautgripa eða hesta frá útlöndum til Íslands var bannaður með lögum nr. 7/1882.1Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 62–63. Með lögum nr. 56/1905 bættust svín og geitur við. Mátti þó veita undantekningu með ráði dýralæknis.2Stjórnartíðindi 1905, bls. 358–359. Hundum var bætt við með lögum nr. 25/1909.3Stjórnartíðindi 1909, bls. 154–155. (Sjá má af B-deild Stjórnartíðinda, að Stjórnarráðið hefur veitt ýmsar undanþágur frá hundabanninu.)

Upp úr aldamótunum 1900 tóku menn að sækja eftir því að flytja inn sauðfé til kynbóta, en dýralæknar lögðust á móti. Var innfluningsbann á dýr sett með lögum nr. 22/1926 og bannað að flytja inn lifandi spendýr. Ráðherra mátti þó veita undanþágu með ráði dýralæknisins í Reykjavík. Einnig var bannaður innflutningur á lifandi fuglum, heyi, hráum sláturafurðum, ósoðinni mjólk o.fl. frá löndum eða landshlutum, þar sem næmir húsdýrasjúkdómar gengu.4Stjórnartíðindi 1926, bls. 32–33.

Heimskreppan, sem hófst í Bandaríkjunum árið 1929, olli miklu verðfalli á afurðum bæði til lands og sjávar. Komu upp ýmsar hugmyndir um bjargráð, svo sem loðdýrarækt, og árið 1931 samþykkti Alþingi lög nr. 27, er heimiluðu ríkisstjórninni að flytja inn sauðfé til sláturfjárbóta, þ.e. sauðfé af bresku holdafjárkyni og karakúlfé frá Þýskalandi. (Skinn nýfæddra karakúllamba eru mjög hrokkinhærð og þau afar verðmæt til pelsgerðar, „persíanskinn“.) Fénu áttu að fylgja vottorð frá skoskum eða þýskum dýralæknum um, að það væri ekki haldið nokkrum næmum sjúkdómi og að gætt hefði verið allra varúðarráðstafana, sem giltu í Skotlandi og Þýskalandi um sölu kynbótafjár til annarra landa um, að féð væri ekki haldið næmum sjúkdómum. Sömuleiðis átti að gæta sóttvarna á Íslandi undir eftirliti dýralækna og með geymslu fjárins í sóttkví.5Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 37–41.

            Lögin tóku gildi í ársbyrjun 1932 og var þegar ráðist í kaup á holdafé í Skotlandi. Féð var aðeins einn mánuð í sóttkví á Íslandi og allt fór það norður í Þingeyjarsýslu, nema tveir hrútar, sem fóru til bændaskólanna á Hólum og Hvanneyri. Árið 1933 voru fluttar inn 20 kindur af karakúlkyni frá búfjárræktarstöð Háskólans í Halle í Þýskalandi. Eftir tveggja mánaða sóttkví dreifðust hrútarnir um Ísland, en ærnar fóru í skólabúið á Hólum. Einn hrútur barst að Deildartungu í Borgarfirði og haustið 1934 fór þar að bera á óhreysti í fé, næsta haust vantaði margt fé af fjalli og einnig drapst það í réttum, orðið sjúkt og þoldi ekki álag. Um veturinn fór víða að bera á veikinni og í árslok 1936 var hún orðin útbreidd í uppsveitum Borgarfjarðar og í Vestur-Húnavatnssýslu. Framan af kallaðist sýkin Deildartunguveikin, en árið 1937 var hún greind sem veirusýking eða Jaagziekte (nafnið komið frá Suður-Afríku) og eftir það nefnd mæðiveiki eða borgfirska mæðiveikin, síðar votamæði. Sauðfjársjúkdómur, ekki eins hraðfara, varð nokkuð áberandi í Þingeyjarsýslu árið 1936. Sannaðist á árunum 1939 eða 1940, að um veirusjúkdóm væri að ræða, sem nefndist þurramæði. Hefur hann hlotið alþjóðaheitið maedi (mæði). Þegar kom fram yfir 1940, varð ljóst, að sjúkdómurinn var ekki bundinn við Þingeyjarsýslu vestan Jökulsár á Fjöllum heldur kominn allnokkuð vestur á bóginn. Þriðji veirusjúkdómurinn visna (alþjóðaheiti) fylgdi einnig karakúlfénu en var ekki eins áberandi og kom ekki við sögu í lagasetningu. Árið 1938 fóru menn að bera sig upp undan fjórða sjúkdómnum, garnaveiki eða svokölluðum Johne´s-sjúkdómi.

            Deildartunguveikin eða votamæðin var svo skæð, að bráðabirgðalög um varnir gegn útbreiðslu sauðfjárveiki, nr. 116, voru sett í árslok 1936.6Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 450–451. Sagði þar, að mjög skæð sauðfjárveiki hefði komið upp í Borgarfjarðarsýslu og nauðsynlegt væri að hefjast handa um varnir gegn útbreiðslu hennar. Ráðherra var heimilað að láta fara fram rannsókn á heilbrigði sauðfjár í Borgarfjarðarsýslu og hreppstjórar í öðrum héruðum skyldu tafarlaust kanna heilsufar sauðfjár og gefa um það skýrslur. Jafnframt voru ráðherra gefnar ýmsar heimildir til þess að takmarka samgang sauðfjár. Var þegar skipuð sjö manna nefnd til þess að gera tillögur um ráðstafanir gegn útbreiðslu veikinnar, „fjárpestarnefnd“. (Síðar varð til „mæðiveikinefnd“ og síðast „sauðfjársjúkdómanefnd“.) Næsta vor komu lög um varnir gegn útbreiðslu sauðfjárveikinnar, nr. 12/1937.7Stjórnartíðindi 1937 A, bls. 29–32. Landbúnaðarráðherra skyldi hafa yfirstjórn varnarráðstafana og skipa framkvæmdastjóra, sem stjórnaði vörnunum, og varamann hans. Fyrir hverja sýslu skyldi velja einn mann framkvæmdastjóra til aðstoðar. Jafnframt skyldi setja upp öruggar, fjárheldar girðingar á ýmsum stöðum og setja verði með stórám, þ.e. Eystri-Héraðsvötnum, Jökulsá eystri, Blöndu, Þjórsá, Brúará, Hvítá í Árnessýslu og Sogi. Einnig átti að hafa varðmenn við þessar girðingar, við hlið á þjóðvegum og við brýr. Voru í lögunum nákvæm fyrirmæli um framkvæmdina. Þannig urðu Sauðfjárveikivarnir til.

            Mikil lagasetning fylgdi næstu áratugi auk margra reglugerða og samþykkta. Víða voru settar upp varnargirðingar til þess að hindra útbreiðslu sauðfjársjúkdómanna en með takmörkuðum árangri. Lög um varnir gegn útbreiðslu garnaveikinnar (Johne´s-sjúkdómi), útrýmingu hennar og stuðning til bænda, er beðið höfðu tjón af henni, nr. 14, voru sett árið 1939.8Stjórnartíðindi 1939 A, bls. 35–37. Árið 1941 komu lög nr. 88 um girðingar til varnar gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og heimild til samþykkta um fjárskipti.9Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 189–196. Fyrstu niðurskurðir og fjárskipti samkvæmt þessum lögum báru ekki árangur, en það gerðist með fyrstu stórfelldu fjárskiptunum í Þingeyjarsýslu haustið 1944. Eftir það fóru fram fjárskipti á stórum hluta landsins. Þannig var sauðfé skorið niður á svæði frá Mýrdalssandi að Jökulsá á Fjöllum, að undanskildum stórum hluta Vestfjarðakjálkans.

Lög um varnir gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra voru sett árið 1947, nr. 44.10Stjórnartíðindi 1947 A, bls. 141–149. Sjúkdómarnir eða „fjársóttir“ töldust vera mæðiveiki (þ.e. votamæði), þurramæði og garnaveiki. Landbúnaðarráðherra skipaði 5 manna framkvæmdanefnd/sauðfjársjúkdómanefnd. Sérstakur framkvæmdastjóri annaðist daglegan rekstur og framkvæmdir. Voru í lögunum nákvæm ákvæði um varnir og fjárskipti og stofnun fjárskiptafélaga á svæðum, þar sem „fjársóttirnar“ geisuðu. Ný og ítarleg lög um sama efni komu árið 1956, nr. 23.11Stjórnartíðindi 1956 A, bls. 110–120. Tekið var þar fram, að landbúnaðarráðherra gæti látið fyrirmæli laganna einnig ná til sjúkdómanna riðuveiki og kýlapestar. Sauðfjársjúkdómanefnd með framkvæmdastjóra hélt áfram störfum. Viðaukalög við lögin frá 1956, nr. 12, komu árið 1967.12Stjórnartíðindi 1967 A, bls. 14–17. Ákvæði um sauðfjársjúkdómanefnd og framkvæmdastjóra hennar voru óbreytt, en hlutverk nefndarinnar breyttist nokkuð.

Varnar- og útrýmingarlögin frá árinu 1956, með áorðnum breytingum, féllu úr gildi árið 1993 með lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25.13Stjórnartíðindi 1993 A, bls. 106–114. Þar sagði, að landbúnaðarráðherra hefði yfirstjórn þeirra mála, sem lögin næðu til. Yfirdýralæknir væri ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt, er lyti að dýrasjúkdómum og framkvæmd laganna. Dýrasjúkdómanefnd, þriggja manna nefnd skipuð af landbúnaðarráðherra með yfirdýralækni sem formann, skyldi vera ráðgefandi um aðgerðir til útrýmingar dýrasjúkdómum og um sóttvarnir, einnig hlutast til um stofnun svæðisnefnda og hafa eftirlit með starfrækslu varnarlína. Dýrasjúkdómanefnd hvarf úr sögunni með lagabreytingu nr. 31/2001.14Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 57–64. Yfirdýralæknir varð þá einn til ráðgjafar, sem og smitsjúkdómanefnd, þegar leggja ætti niður varnarlínur eða alvarlegir svæðisbundir smitsjúkdómar kæmu upp.

Niðurskurður og fjárskipti vegna mæðiveiki (votamæði) og þurramæði héldust til ársins 1965. Votamæði var endanlega útrýmt með niðurskurði árið 1952, þurramæði og visnu árið 1965. Þurramæði hafði til þess tíma blossað nokkrum sinnum upp á svæðum, sem talin voru orðin hrein. Garnaveiki, sem fannst víðar, hefur ekki tekist að útrýma en er haldið niðri með bólusetningum.

Votamæði, þurramæði og visna greindust á svæðinu frá Jökulsá á Fjöllum að Mýrdalssandi. Vestfirðir sluppu að allmiklu leyti. Þangað voru einkum sótt líflömb til endurnýjunar á fjárskiptasvæðum en einnig til Norðausturlands og Austurlands. Þess má geta, að líflömb voru flutt með flugi úr Öræfum.

Hvenær sauðfjársjúkdómanefnd og framkvæmdastjóri hennar hættu formlega störfum, er höfundi þessa greinarstúfs ekki ljóst, en skjalasafn Sauðfjárveikivarna og þar með sauðfjársjúkdómanefndar er varðveitt í Þjóðskjalasafni.

Íslenskir vísindamenn voru frumkvöðlar í rannsóknum á mæði (þurramæði) og visnu og þaðan eru vísindaheitin maedi og visna runnin eins og fyrr var nefnt.

            Riða/riðuveiki er smitsjúkdómur, þar sem smitefnið er sjúklegt prótein, príon. Riða er talin hafa borist til Íslands árið 1878 með enskum hrútum af kyninu Oxfordshire-Down. Lengi var hún bundin við vestanvert Norðurland, en eftir mæðiveikifjárskiptin tók hún að blossa upp víða um land og hefur gert mikinn usla. Nú (árið 2024) eru uppi vonir um að rækta megi upp fé með mótstöðu gegn riðu.

(Heimildir:

Brynjólfur Sandholt, „Karakúlpestirnar“, Dýralæknatal. Búfjársjúkdómar og saga. Reykjavík 2004, bls. 321–329.

Halldór Þormar, „Mæði og visna og upphaf lentiveirurannsókna“, Náttúrufræðingurinn 85:, 1–2 (2015), bls. 37–45.

Jónas Jónsson, Landbúnaðarsaga Íslands. Hefðbundin kvikfjárrækt. 3. bindi. Reykjavik 2015, bls. 83–119.

Margrét Guðnadóttir, „Hæggengar veirusýkingar. Riða, visna, mæðiveiki og eyðni“, Heilbrigðismál 36: 3 (1988), bls. 26–29.

Ólöf G. Sigurðardóttir, Eggert Gunnarsson, „Garnaveiki“, Bændablaðið 7. mars 2013, bls 34, https://keldur.is/sites/keldur.is/files/2020-12/BB%20Keldur%20-%20Garnaveiki.pdf, sótt 13. febrúar 2024.

Sigurður Sigurðarson, „Baráttan við riðuveiki á Íslandi“, Dýralæknatal. Búfjársjúkdómar og saga. Reykjavík 2004, bls. 356–375.

Sæmundur Friðriksson, „Um sauðfjársjúkdóma og fjárskipti“, Árbók landbúnaðarins I (1950), bls. 71–92.

Sæmundur Friðriksson: „Fjárskiptin“, Árbók landbúnaðarins IV (1953), bls. 29–36.

Sæmundur Friðriksson: „Fjárskiptin“, Árbók landbúnaðarins VI (1955), bls. 91–101.

Sæmundur Friðriksson: „Sauðfjárveikivarnir og fjárskipti“, Árbók landbúnaðarins VIII (1957), bls. 21–33.

Sæmundur Friðriksson: „Barátta við sauðfjársjúkdóma“, Árbók landbúnaðarins XXI (1970), bls. 101–127.

Valgerður Andrésdóttir, „Rannsóknir á mæði og visnu á Keldum“, Bændablaðið 31. október 2013, bls. 32, https://keldur.is/sites/keldur.is/files/2021-07/Ranns%C3%B3knir%20%C3%A1%20m%C3%A6%C3%B0i%20og%20visnu%20%C3%A1%20Keldum.pdf, sótt 13. febrúar 2024.

Þættir um innflutning búfjár og karakúlsjúkdóma. Teknir saman af nefnd um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma, fjárskipti og innflutning búfjár. Reykjavík 1947.

https://en.wikipedia.org/wiki/Visna-maedi_virus, sótt 15. febrúar 2024.

https://www.mast.is/static/files/Uploads/document/Baeklingar/Sottvarnarsvaedi2.pdf, sótt 16. febrúar 2024.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 62–63.
2 Stjórnartíðindi 1905, bls. 358–359.
3 Stjórnartíðindi 1909, bls. 154–155.
4 Stjórnartíðindi 1926, bls. 32–33.
5 Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 37–41.
6 Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 450–451.
7 Stjórnartíðindi 1937 A, bls. 29–32.
8 Stjórnartíðindi 1939 A, bls. 35–37.
9 Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 189–196.
10 Stjórnartíðindi 1947 A, bls. 141–149.
11 Stjórnartíðindi 1956 A, bls. 110–120.
12 Stjórnartíðindi 1967 A, bls. 14–17.
13 Stjórnartíðindi 1993 A, bls. 106–114.
14 Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 57–64.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 5