Skólastjórnarmál

Síðast breytt: 2021.06.23
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Svo nefnist málaflokkur sem kom til Íslands í dönsku sendingunni svonefndu árið 1928. Þau munu koma frá einni nefnd og stjórn æðri skóla, þ.e. Kommissionen for universitetet og de latinske (lærde) skoler, sem starfaði 1785-1805 og Den kongelige direktion for universitetet og de lærde skoler 1805-1848.

Kommissionen var skipuð 9. september 1785 til þess að íhuga hvernig hægt væri að bæta latínuskólana og háskólann í Kaupmannahöfn. Hún sendi frá sér álit 19. júlí 1786 en starfaði áfram og árið 1790 var starfssviðið aukið, meðal annars að kanna breytingar vegna stúdentastyrkja (kommunitetet) og Garðs (Regensen). Í skjalasafni nefndarinnar eru m.a. skýrslur frá rektorum við latínuskólana 1786-1796, en íslenskar og norskar skýrslur hafi verið afhentar til þeirra landa. (Í þeim skjölum, sem kallast „Skólastjórnarmál“, eru elst skjöl frá árinu 1800).

Sjá Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I. Redigeret af Wilhelm von Rosen. Rigsarkivet 1983, bls. 212-213.

Den kongelige direktion for universitetet og de lærde skoler var stofnuð með konungsúrskurði 3. júlí 1805 og mátti leggja tillögur fyrir konung. Þessi stjórn var framhald af áðurnefndri kommission. Hún átti að hafa yfirstjórn og eftirlit með öllum æðri skólum, Sóreyjarakademíu og Kaupmannahafnarháskóla. (Konungsúrskurðurinn var birtur á prestastefnu árið 1806 en ekki í landsyfirrétti. Ekki er þar minnst á íslensk skólamál og ekki heldur í erindisbréfinu frá 13. september 1805. Lovsamling for Island IV, bls. 764, 765). Stjórnin var lögð niður 24. mars 1848 og málefnin færð til Ministeriet for kirke- og undervisningsvæsenet. Ekki er minnst á að skjöl hafi verið send til Íslands. Sjá Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I. Redigeret af Wilhelm von Rosen. Rigsarkivet 1983, bls. 213-215. (Í þeim hluta dönsku sendingarinnar, sem nefnist „Skólastjórnarmál“, eru skjöl um skólamál og íslenska stúdenta frá árunum 1800-1848). – Af skjölum biskups og og stiftamtmanns má sjá að þeir hafa verið í samskiptum við Direktionen for universitetet og de lærde skoler.

Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 23