Spítalasjóður

Síðast breytt: 2021.06.10
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín

Friðrik III Danakonungur mælti svo fyrir í bréfi til Henriks Bjelke höfuðsmanns, 10. maí 1651, að fjórar konungsjarðir, ein í hverjum fjórðungi, yrðu lagðar til spítala fyrir þurfandi holdsveikt og vanheilt fólk. Átti höfuðsmaður ásamt biskupum og helstu mönnum á Íslandi að semja fyrirmæli um, hvernig fólki yrði framfleytt á spítölunum.1Lovsamling for Island I, bls. 241–241 (sjá einkum 2. lið). Voru ákvarðanir um tekjur spítalanna teknar á alþingi árið eftir. Skyldi af hverju skipi, sem gengi til sjós, gera árlega einn stakan hlut af hlutum allra, sem á skipinu reru, einn dag á vertíðinni. Sá dagur var misjafn eftir landshlutum. Einnig skyldu framfærsluhreppar hinna holdsveiku leggja með þeim fé.2Lovsamling for Island I, bls. 246–248, 367–368, 373–374. Aflahluturinn kallaðist spítalafiskur (kerlingarfiskur) eða spítalahlutur. Einnig var leitað eftir styrk meðal landsmanna og til spítalanna skyldi ganga óþarft innstæðufé klaustra, Kristfjárjarðir, greiðslur fyrir hjúskaparleyfi og hlutur af fuglatekju.3Lovsamling for Island I, bls. 249. Var Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup frumkvöðull að tilurð spítalanna ásamt Henrik Bjelke. Spítalajarðirnar voru Möðrufell í Eyjafirði (úr Norðlendingafjórðungi), Hörgsland á Síðu (úr Austfirðingafjórðungi), Klausturhólar í Grímsnesi (úr Sunnlendingafjórðungi) og Hallbjarnareyri í Eyrarsveit (úr Vestfirðingafjörðungi). Klausturhólaspítali var fluttur að Haugshúsum á Álftanesi árið 1689, aftur að Klausturhólum árið 1711 og að Kaldaðarnesi í Flóa árið 1753. Makaskipti á Klausturhólum og Kaldaðarnesi voru ákveðin með konunglegum fyrirmælum frá 21. janúar 1752. Í Klausturhólum var ekki hægt að halda eins margar kýr á vetrum og þurfti til þess að fæða spítalalimina. Klausturhólajörðin féll aftur til Skálholtsstóls.4Lovsamling for Island III, bls. 113–114. Reglur um spítalana voru settar með tilskipun 27. maí 1746.5Lovsamling for Island II, bls. 581–588. Greiðslur skiluðu sér illa og engin lækning fékkst á spítölunum, hinir holdsveiku voru aðeins vistaðir þar.

Ákveðið var með opnu bréfi 23. ágúst 1848 að hætta að taka holdsveika menn á spítalana á Íslandi, en spítalajarðirnar skyldi annað hvort byggja til ábúðar eða selja. Fé, sem safnað hefði verið eða safnað yrði af jörðum spítalanna og tekjum, skyldi draga saman í einn sjóð og setja á vöxtu og skyldi féð ætlað til að bæta læknaskipunina í landinu. Þó skyldi fyrst um sinn hafa eignir hvers spítala sér í lagi eins og verið hefði til þessa.6Lovsamling for Island XIV, bls. 163–165.

Heimild

  • Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 200–201 (holdsveikraspítali), 471 (spítalafiskur)).

Biskupar höfðu yfirumsjón með spítölunum ásamt lögmönnum, en eftir afnám alþingis við Öxará og embætta lögmanna árið 1800 komst eftirlit með spítölunum í hendur amtmanna ásamt biskupi yfir Íslandi. Því eru skjöl vegna spítalanna í Austfirðinga-, Sunnlendinga- og Vestfirðingafjórðunga til 1801 í skjalasafni Skálholtsbiskups en í Norðlendingafjórðungi (Möðrufellsspítala) til 1798 í skjalasafni Skálholtsbiskups. Eftir það eru spítalaskjölin í skjalasafni biskups yfir Íslandi, eða til ársins 1849.

Magnús Stephensen yfirdómari (síðar landshöfðingi) sagði þetta um spítalagjald um 1880:

Spítalagjald er lagt á sjávarafla og fuglatekju og er svo nefnt, af því að það upprunalega rann til spítalanna hér á landi; eftir að læknasjóðurinn var stofnaður með kgsúrsk. [konungsúrskurði] 12. ágústmán. 1848, auglýstum með opnu bréfi 23. s.m., rann það í hann, en síðan 1. júlí 1876 hefur það runnið í landssjóðinn ásamt hinum öðrum tekjum læknasjóðsins. Gjald til spítalanna af sjávarafla var fyrst samþykkt á alþingi fyrir Sunnlendingafjórðung og Austfirðingafjórðung 30. júní 1652 og fyrir Vestfirðingafjórðung 30. júní 1853, síðan var það lögboðið um allt land, og einnig lagt á fuglatekju með tilskipun um spítalana 27. maí 1746 og konungsbréfi 26. maí 1824, og er nefnt konungsbréf enn í gildi að því er snertir spitalagjald af fuglatekju, en af sjávarafla er spítalagjald nú greitt eftir fyrirmælum tilskipunar 12. febrúar 1872.7Magnús Stephensen: „Skattar og gjöld til landssjóðs“. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags“ I. árgangur 1880, bls. 153–154.

Í sömu grein segir Magnús, að spítalagjald af sjávarafla eigi að greiða af alls konar fiski, sem væri verkaður sem saltfiskur eða harður fiskur, saltaður í tunnur eða seldur óverkaður, og ennfremur af hákarlslýsi og hákarlslifur, þegar hún væri seld óbrædd, en af hákarlinum sjálfum væri ekkert gjald greitt, ekki heldur af neinu öðru lýsi en hákarlslýsi. Aflinn væri því aðeins gjaldskyldur, að hann væri fenginn á skip (alls konar skip og báta), fiskur, sem ræki á land, væri ekki gjaldskyldur og sama virtist gilda um fisk sem væri dreginn á land í netum eða vörpum. — Samkvæmt konungsbréfi 26. maí 1824 ætti að greiða spítalagjald af öllum fuglum, sem veiddust hér á landi, en hingað til hefði ekki verið heimtað spítalagjald af öðrum fugli en bjargfugli og lunda.8Magnús Stephensen: „Skattar og gjöld til landssjóðs“, Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags“ I. árgangur 1880, bls. 154–158.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island I, bls. 241–241 (sjá einkum 2. lið).
2 Lovsamling for Island I, bls. 246–248, 367–368, 373–374.
3 Lovsamling for Island I, bls. 249.
4 Lovsamling for Island III, bls. 113–114.
5 Lovsamling for Island II, bls. 581–588.
6 Lovsamling for Island XIV, bls. 163–165.
7 Magnús Stephensen: „Skattar og gjöld til landssjóðs“. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags“ I. árgangur 1880, bls. 153–154.
8 Magnús Stephensen: „Skattar og gjöld til landssjóðs“, Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags“ I. árgangur 1880, bls. 154–158.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 52