Stiftisjarðir / stiftsjarðir

Síðast breytt: 2025.03.17
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Þetta voru tólf jarðir á Austurlandi, sem Skriðuklaustur hafði átt, ætlaðar til þess að styrkja fátæka presta í Skálholtsstifti/Skálholtsbiskupsdæmi, þ.e. með afgjöldum jarðanna: Fagridalur í Vopnafirði, Hvanná, Eiríksstaðir og Skeggjastaðir á Jökuldal, Seljamýri í Loðmundarfirði, Austdalur og Brimnes í Seyðisfirði, Kross í Mjóafirði, Krossanes og Karlsskáli í Reyðarfirði, Kolmúli í Fáskrúðsfjarðarhreppi og Ánastaðir í Breiðdal.

Tilurð þessara stiftisjarða var með þeim hætti, að konungur bauð Henrik Bjelke lénsmanni Íslands 10. maí 1651 að láta selja óþörf kúgildi kirkna í Skálholtsbiskupsdæmi fyrir peninga. Skyldi Bjelke koma þeim til ávöxtunar hjá ábyrgum aðilum og nýta vextina til uppbótar fátækum prestaköllum.1Lovsamling for Island I, bls. 241–242. Bjelke kom peningunum fyrir hjá „Elsta verslunarfélaginu“. Þeim var skilað til hans við slit félagsins og ákveðið með opnu bréfi 3. apríl 1674 að leggja í staðinn þessar fyrrnefndu jarðir til fátækra presta í Skálholtsbiskupsdæmi. Þeim var síðan úthlutað til brauða á Austurlandi.2Lovsamling for Island I, bls. 352–354; Alþingisbækur Íslands VII, bls. 311–313. Skeggjastöðum var makaskipt fyrir Stóru-Breiðuvík í Borgarfjarðarhreppi árið 1799.3Lovsamling for Island VI, bls. 363–364.

            Þessar jarðir voru síðar seldar nema Krossanes og Kolmúli, sem töldust kirkjueign samkvæmt kirkjueignaskrá 1597–1984. Sala á jörðunum hófst árið 1862.

(Heimildir: Jón Johnsen: Jarðatal á Íslandi. Kaupmannahöfn 1847, bls. 353 (Fagridalur), 355–356 (Hvanná, Eiríksstaðir, Skeggjastaðir), 361 (Seljamýri), 362 (Austdalur, Brimnes), 372 (Kross), 374 (Krossanes, Karlsskáli), 376 (Kolmúli), 378 (Ánastaðir), 443 (almennt). Um sölu á óþarfakúgildum eftir 1651 sjá t.d. Alþingisbækur Íslands VI, bls. 337–342; ÞÍ. Kirkjueignir á Íslandi 1597–1984, handrit unnið fyrir Kirkjueignanefnd, lokið í janúar 1992)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island I, bls. 241–242.
2 Lovsamling for Island I, bls. 352–354; Alþingisbækur Íslands VII, bls. 311–313.
3 Lovsamling for Island VI, bls. 363–364.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 4