Konungleg tilskipun um stiftsprófasta var gefin út 10. júní 1746. Þar segir í upphafi, að núverandi amtmaður hafi áður fengið fyrirmæli um að setja án tafar hæfan prest sem officialis eða stiftsprófast til þess að gegna biskupsembætti, ef superintendent (biskup) í Skálholts- eða Hólastifti dæi eða léti af embætti. Í þessari tilskipun eru nákvæmar reglur um, hvernig officialis eða stiftsprófastur skyldi gegna embætti sínu. Þar var meðal annars tekið fram, að væri stiftsprófastur jafnframt héraðsprófastur skyldi hann ekki vísitera hérað sitt og sinnti ekki biskupsvisitasíum nema biskupslaust væri í meir en tvö ár og mikil nauðsyn krefði. Laun eru ekki nefnd, nema stiftsprófastur skyldi njóta alls þess, sem hann þyrfti fyrir sig, einn skrifara og einn þénara, þegar hann þyrfti að dvelja á biskupsstólnum.1Lovsamling for Island II, bls. 633–636; Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 578–581 (íslensk þýðing). Johan Christian Pingel amtmaður sagði í bréfi, 18. ágúst 1746, um launaumsókn Finns Jónssonar officialis, að enginn konunglegur úrskurður hefði borist til landsins um laun officialis, en venja hefði verið að greiða honum 100 ríkisdali. Óskaði amtmaður eftir því að það yrði staðfest. Einnig að Finnur fengi þá 30 ríkisdali fyrir tímabilið 3. maí til 3. ágúst 1744, sem ákveðnir hefðu verið með tilskipun 16. júlí 1745. 2ÞÍ. Amtm. A/8. Bréfabók amtamanns 1742–1748, bls. 289–290. Um laun stiftsprófasta segir í reglugerðum um aðskilnað biskupsstólanna og stólsskólanna árið 1769, að stiftsprófastarnir njóti þess, sem boðið sé í tilskipuninni frá 1746, og í Skálholtsbiskupsdæmi að auki 100 spesíuríkisdali árlega en í Hólabiskupsdæmi 80 spesíuríkisdali árlega.3Alþingisbækur Íslands XV, bls. 179, 188. Þetta mun hafa átt við tímann, meðan biskupslaust var. Þá má benda á kansellíbréf 15. júní 1799 til stiftamtmanns og Skálholtsbiskups um laun stiftsprófasts á tímabilinu 4. ágúst 1796 til 9. ágúst 1797.4Lovsamling for Island VI, bls. 377.
Stiftspróföstum mun ekki hafa verið ætlað annað hlutverk en vera staðgenglar biskupa tímabundið eins og segir í tilskipuninni frá 1746. Þeir virðast þó, a.m.k. stundum, hafa verið kallaðir stiftsprófastar eftir að setningu þeirra lauk. Þannig fékk Árni Helgason eftirlaunaviðbót árið 1860 og þá var talað um hann sem stiftprófast.5Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I. Kaupmannahöfn 1864, bls. 338–360.
Heimildir um stiftsprófasta eru í brotum. Svo er að sjá sem þeir eða officialisar hafi verið skipaðir, þegar biskupslaust var eða biskupsefni í vígsluferð, en ekki verið um framtíðarskipun að ræða. Hér má sjá nokkurn samtíning, fyrst og fremst tekinn eftir ábendingum úr Íslenskum æviskrám Páls Eggerts Ólasonar og Æfum lærðra manna, sem Hannes Þorsteinsson tók saman. Þar eru ýmsar upplýsingar um þá menn, sem gegnt hafa störfum biskupa í forföllum eða eftir andlát þeirra. Vísar Hannes til bréfabóka amtmanna, stiftamtmanna og biskupa og fleiri heimilda um þessar skipanir.
Skálholtsbiskupsdæmi.
Finnur Jónsson, prestur í Reykholti og síðar biskup, var settur officialis 14. febrúar 1743 og gegndi biskupsembætti í Skálholti til 1747.6ÞÍ. Amtm. A/8. Bréfabók amtamanns 1742–1748, bls. 31–33; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár II. Reykjavík 1949, bls. 10–11. Magnús Gíslason amtmaður setti Finn Jónsson stiftsprófast 8. janúar 1753 eftir lát Ólafs Gíslasonar biskups. 7ÞÍ. Amtm. A/9. Bréfabók amtamanns 1752–1753 A, bls. 155–154. Vegna vígslufarar Finns Jónssonar á árunum 1753–1754 setti Magnús Gíslason amtmaður Gísla Snorrason, prest og prófast í Odda, officialis/stiftsprófast Skálholtsbiskupsdæmis 13. júlí 1753.8ÞÍ. Amtm. A/9. Bréfabók amtamanns 1752–1753 A, bls. 229–230. Markús Magnússon, prestur í Görðum á Álftanesi og prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi, var settur stiftsprófastur af Ólafi Stefánssyni stiftamtmanni 18. ágúst 1796 eftir lát Hannesar Finnssonar biskups.9ÞÍ. Stiftmtm. I, 29. Bréfabók Ólafs Stefánssonar 1796–1797, bls. 140–144. Gegndi hann því til sumars 1797, þegar Geir Vídalín var vígður Skálholtsbiskup af Sigurði Stefánssyni Hólabiskupi.
Hólabiskupsdæmi.
Þorleifur Skaftason, prestur og prófastur í Múla í Aðaldal, var skipaður officialis í Hólabiskupsdæmi eftir Stein Jónsson biskup af Joachim Lafrentz amtmanni 26. júlí 1740.10ÞÍ. Amtm. A/7. Bréfabók amtamanns 1734–1742, bls. 444–445. Um Þorleif Skaftason, sem var kirkjuprestur á Hólum 1707–1724 og síðar prestur í Múla í Aðaldal, segir í Íslenzkum æviskrám, að hann hafi verið officialis eftir lát Björns biskups Þorleifssonar, officialis í veikindum Steins biskups Jónssonar og við lát hans og í þriðja sinn við burtför Harboes í júlí 1745 og fram á sumar 1746.11Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár V, bls. 186–187. Vegna veikinda Halldórs Brynjólfssonar biskups og ferðar til Kaupmannahafnar var Stefán Einarsson, prestur og prófastur í Laufási, gerður officialis, sem staðfest var með bréfi 27. júní 1752.12ÞÍ. Amtm. A/9. Bréfabók amtamanns 1752–1753 A, bls. 18. Stefán stóð þó stutt við eða eins og segir í Djáknaannálum við árið 1752: „Síra Stefán Einarsson í Laufási varð officialis í Hólastifti, hélt synodum á Flugumýri um haustið og sagði svo af sér það embætti.“13Annálar 1400-1800 VI. Reykjavík 1987, bls. 83. Því setti Magnús Gíslason amtmaður Jón Magnússon, kirkjuprest á Hólum og prófast í Skagafirði, sem officialis eða stiftsprófast 21. september 1752.14ÞÍ. Amtm. A/9. Bréfabók amtamanns 1752–1753 A, bls. 101–102. Eftir dauða Gísla Magnússonar biskups skipaði Lauritz Thodal stiftamtmaður Hálfdan Einarsson, rektor á Hólum, stiftsprófast 15. apríl 1779.15ÞÍ. Stiftmtm. I, 16. Bréfabók Thodals 1778–1779, bls. 431–432, sbr. bls. 410–412. Hálfdan var aftur settur stiftsprófastur 14. febrúar 1782 eftir lát Jóns Teitssonar biskups.16ÞÍ. Stiftmtm. I, 18. Bréfabók Thodals 1782–1784, bls. 12. Þar er aðeins minnisgrein, en ekki setningarbréf. Nýr biskup, Árni Þórarinsson, tók ekki við fyrr en árið 1784. Þorkell Ólafsson, kirkjuprestur á Hólum og prófastur í Skagafirði, var settur stiftsprófastur af Levetzow stiftamtmanni 19. júlí 1787, þegar Árni Þórarinsson biskup lést.17ÞÍ. Stiftmtm. I, 22. Bréfabók Levetzows 1786–1787, bls. 604. Þar er aðeins minnisgrein, en ekki setningarbréf. Gegndi Þorkell embættinu í tvö ár. Hann var aftur settur stiftsprófastur 8. júní 1798 eftir lát Sigurðar Stefánssonar biskups.18ÞÍ. Stiftmtm. I, 30. Bréfabók Ólafs Stefánssonar 1797–1798, bls. 278–279.. Var Þorkell stiftsprófastur þangað til Hólastóll og skóli voru lagðir niður. Var vera biskups á Hólum talin óþörf vegna sameiningar skólans við Reykjavíkurskóla eins og segir í konunglegum fyrirmælum um aftöku stóls og skóla 2. október 1801.19Lovsamling for Island VI, bls. 530–531.
Ísland eitt biskupsdæmi.
Árni Helgason, dómkirkjuprestur í Reykjavík, síðar prestur í Görðum á Álftanesi, prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi var settur stiftsprófastur 21. september 1823 eftir lát Geirs Vídalíns biskups.20ÞÍ. Stiftmtm. I, 48. Bréfabók Moltkes og Bjarna Þorsteinssonar 1823–1824, bréf nr. 783.. Árni var aftur settur stiftsprófastur 18. júní 1845 við andlát Steingríms Jónssonar biskups.21ÞÍ. Stiftmtm. I, 75. Bréfabók Jóns Jónssonar og Hoppe 1844–1846, bréf nr. 477..
Biskuparnir Helgi G. Thordersen, Pétur Pétursson og Hallgrímur Sveinsson sögðu af sér embætti með allnokkrum fyrirvara, þannig að nýir biskupar tóku við af þeim. Hefur þá ekki þurft stiftsprófast til þess að gegna biskupsembættinu. Þórhallur Bjarnarson biskup lést í embætti 15. desember 1916, eftir skamma legu, og 18. sama mánaðar setti ráðherra Jón Helgason guðfræðiprófessor sem biskup.22ÞÍ. Stjórnarrráð Íslands, I. skrifstofa 010 B/675, örk 11 (Db. 2, nr. 274, Db. 4, nr. 951). Magnús Helgason, „Þórhallur Bjarnarson“, Merkir Íslendingar III. Reykjavík 1949, bls. 382. Þá munu tengslin við stiftið hafa verið horfin, væntanlega eftir að stiftsyfirvöld voru lögð niður árið 1904.
Ekki hefur fundist, hvenær stiftsprófastatilskipunin frá 1746 var afnumin sem lög.
Einar Arnórsson lýsti árið 1912 störfum stiftsprófasta eða officialis þannig: Þeir skyldu gegna þeim störfum, sem biskupsembættinu fylgdu, nema þeir væru undanþegnir visitasíum. Þeir nytu embættislauna, að frádregnum þeim hálfu launum, sem biskupsekkja fengi (náðarár). Officialis þyrfti að hafa sömu þekkingarskilyrði og biskup og vera þjóðkirkjutrúar, því að hann ætti að hafa eftirlit með kenningu presta og sitja andlega dóma. Einar fann mjög að því, að vígslubiskupar væru kallaðir officialis í lögum um þá nr. 38/1909. Vígslubiskupar ættu aðeins að framkvæma vígslu biskups, ef fráfarandi gæti ekki vígt eftirmann sinn, og vígslur presta í forföllum biskups. Því yrði eftir sem áður að skipa mann til þess að gegna störfum biskups, þegar hann andaðist eða léti af embætti.23Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 74–75.
Eftir að Jón Helgason var skipaður biskup árið 1917 hafa biskupar ekki látist í embætti nema Sigurgeir Sigurðsson, sem dó árið 1953.
Finnur Jónsson officialis 1743–1744 og 1745–1747.24Hannes Þorsteinsson, Biskupasögur Jóns prófats Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti. II. Reykjavík 1911–1915, bls. 388.
Gísli Snorrason officialis 1753–1754, Markús Magnússon officialis 1796–1797.25Hannes Þorsteinsson, Biskupasögur Jóns prófats Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti. II. Reykjavík 1911–1915, bls. 388.
Jón Magnússon officialis 1752–1755, Hálfdan Einarsson officialis 1779–1780, 1781–1784, Þorkell Ólafsson officialis 1787–1789 1798–1802.26Hannes Þorsteinsson, Biskupasögur Jóns prófats Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti. II. Reykjavík 1911–1915, bls. 391.
Árni Helgason officialis 1823–1825 og 1845–1846. Fékk biskupsnafnbót 1858,27Hannes Þorsteinsson, Biskupasögur Jóns prófats Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti. II. Reykjavík 1911–1915, bls. 391.
Tilvísanir
↑1 | Lovsamling for Island II, bls. 633–636; Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 578–581 (íslensk þýðing). |
---|---|
↑2 | ÞÍ. Amtm. A/8. Bréfabók amtamanns 1742–1748, bls. 289–290. |
↑3 | Alþingisbækur Íslands XV, bls. 179, 188. |
↑4 | Lovsamling for Island VI, bls. 377. |
↑5 | Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I. Kaupmannahöfn 1864, bls. 338–360. |
↑6 | ÞÍ. Amtm. A/8. Bréfabók amtamanns 1742–1748, bls. 31–33; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár II. Reykjavík 1949, bls. 10–11. |
↑7 | ÞÍ. Amtm. A/9. Bréfabók amtamanns 1752–1753 A, bls. 155–154. |
↑8 | ÞÍ. Amtm. A/9. Bréfabók amtamanns 1752–1753 A, bls. 229–230. |
↑9 | ÞÍ. Stiftmtm. I, 29. Bréfabók Ólafs Stefánssonar 1796–1797, bls. 140–144. |
↑10 | ÞÍ. Amtm. A/7. Bréfabók amtamanns 1734–1742, bls. 444–445. |
↑11 | Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár V, bls. 186–187. |
↑12 | ÞÍ. Amtm. A/9. Bréfabók amtamanns 1752–1753 A, bls. 18. |
↑13 | Annálar 1400-1800 VI. Reykjavík 1987, bls. 83. |
↑14 | ÞÍ. Amtm. A/9. Bréfabók amtamanns 1752–1753 A, bls. 101–102. |
↑15 | ÞÍ. Stiftmtm. I, 16. Bréfabók Thodals 1778–1779, bls. 431–432, sbr. bls. 410–412. |
↑16 | ÞÍ. Stiftmtm. I, 18. Bréfabók Thodals 1782–1784, bls. 12. Þar er aðeins minnisgrein, en ekki setningarbréf. |
↑17 | ÞÍ. Stiftmtm. I, 22. Bréfabók Levetzows 1786–1787, bls. 604. Þar er aðeins minnisgrein, en ekki setningarbréf. |
↑18 | ÞÍ. Stiftmtm. I, 30. Bréfabók Ólafs Stefánssonar 1797–1798, bls. 278–279. |
↑19 | Lovsamling for Island VI, bls. 530–531. |
↑20 | ÞÍ. Stiftmtm. I, 48. Bréfabók Moltkes og Bjarna Þorsteinssonar 1823–1824, bréf nr. 783. |
↑21 | ÞÍ. Stiftmtm. I, 75. Bréfabók Jóns Jónssonar og Hoppe 1844–1846, bréf nr. 477. |
↑22 | ÞÍ. Stjórnarrráð Íslands, I. skrifstofa 010 B/675, örk 11 (Db. 2, nr. 274, Db. 4, nr. 951). Magnús Helgason, „Þórhallur Bjarnarson“, Merkir Íslendingar III. Reykjavík 1949, bls. 382. |
↑23 | Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 74–75. |
↑24 | Hannes Þorsteinsson, Biskupasögur Jóns prófats Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti. II. Reykjavík 1911–1915, bls. 388. |
↑25 | Hannes Þorsteinsson, Biskupasögur Jóns prófats Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti. II. Reykjavík 1911–1915, bls. 388. |
↑26 | Hannes Þorsteinsson, Biskupasögur Jóns prófats Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti. II. Reykjavík 1911–1915, bls. 391. |
↑27 | Hannes Þorsteinsson, Biskupasögur Jóns prófats Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti. II. Reykjavík 1911–1915, bls. 391. |