Stiftsyfirvöld

Síðast breytt: 2021.06.10
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Í erindisbréfum stiftamtmannanna Peters Raben, 27. apríl 1720, Christians Gyldencrone, 2. júlí 1728, Henriks Ocksen, 11. desember 1730, Ottos Manderup Rantzau, 5. október 1750 og Laurits Thodal, 15. maí 1770, eru ákvæði um, að stiftamtmaður hafi eftirlit með andlegum yfirvöldum, prestum og skólamönnum, með konungskirkjum í landinu (ásamt biskupum og próföstum) og hospítölum og fátækrastofnunum (með próföstum og öðrum viðkomandi).1Lovsamling for Island I, bls. 784; II, bls. 90–91, 120; III, bls, 54–55, 661. Erindisbréf stiftamtmanna þar á eftir eru ekki tiltæk, en ljóst er, að þeir höfðu afskipti af þessum málum. Þegar biskup yfir Íslandi varð einn (árið 1801), og í framhaldi af því nágranni stiftamtmanns í Reykjavík, urðu samskiptin meiri, og sameiginlegt starfssvið þeirra kallaðist stiftsyfirvöld. Í bréfadagbók stiftamtmanns má sjá, að í desember 1804 skrifar kansellíið til stiftamtmanns og biskups sameiginlega, en í maí 1805 skrifar það stiftsyfirvöldum.2ÞÍ. Stiftamtm. II. 6. Bréfadagbók stiftamtmanns 1803–1809, bl. 163v–165r.

Stiftsyfirvöld voru til ársins 1873 ekki með sérstakt skjalasafn. Mál, sem féllu undir stiftsyfirvöld, finnast fyrir þann tíma í skjalasöfnum stiftamtmanns og biskups. Endanlegur úrskurður kom yfirleitt frá stiftamtmanni.

Amtmaður í Suður- og Vesturamti tók við hlutverki stiftamtmanns innan stiftsyfirvalda 1. apríl 1873.3Lovsamling for Island XXI, bls. 429–431. Landshöfðingi hafði þó úrskurðarvald í mörgum málum. Bréfadagbækur stiftsyfirvalda eru framan af eftir rentukammerkerfi (bréf skráð í komuröð). Málakerfi (kansellíkerfi) var tekið upp snemma árs 1895 með nýrri bréfadagbók. Henni fylgir bréfritaraskrá í sérstöku bindi, en þó er bréfritaraskrá einnig í sjálfri bréfadagbókinni. Sú bréfritaraskrá virðist í mörgum tilvikum hafa verið notuð frá upphafi, en stundum farið að færa í hana, þegar sérstaka bréfritaraskráin fylltist.

Stiftsyfirvöld voru lögð niður 1. október 1904.4Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 74–77 (6. grein). Samkvæmt tilskipun 23. ágúst 1904 fóru störf þeirra að því er snerti skóla- og kennslumál, yfirumsjón með Landsbókasafni og Forngripasafni, undirbúning verðlagsskráa og stjórn Thorkillibarnaskólasjóðs undir Stjórnarráðið. Forseti landsyfirréttar skyldi taka forsæti í synodalréttinum í stað amtmanns í Suður- og Vesturamti. Öll önnur störf stiftsyfirvalda skyldu fengin biskupi.5Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 36–39.

Mál stiftsyfirvalda á árunum 1873–1904.6Yfirlit þetta er gert eftir Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904–1964. Reykjavík 1969, bls. 63–64 og með athugun á bréfadagbókum stiftsyfirvalda. Er þó alls ekki allt talið.

I: Mál umboðslegs eðlis er snertu eignir og eignarrétt prestakalla. Þar á meðal ýmis afskipti af prestssetrum og prestakallajörðum (kirkjujörðum), svo sem umsjón með samningum um afnot á lóðum er lágu undir prestaköll, húsabyggingar og jarðabætur, jarðnæði þingapresta, kaup og sala kirkju- og prestakallaeigna (þar með kirkjugripum), þrætur út af landamerkjum og ráðstöfun á prestakallajörðum sem lögðust í eyði. Ráðsmennska yfir innstæðufé ýmissa prestakalla

II. Skólamál og kennslumál, þ.e. yfirstjórn æðstu skóla landsins (Lærða skólans, Prestaskólans og Læknaskólans), kaup skólakennara á lífsábyrgð vegna væntanlegra ekkna sinna, styrkir til bókaútgáfu og myndagerðar Benedikts Gröndal skálds, eftirlit með barnaskólum og sveitakennslu, sem nytu styrks af landssjóði. Umsjón með daufdumbrakennslu (þ.e. mál- og heyrnarlausra) og gagnfræðaskólum að nokkru leyti. Flensborgarskólinn og Kvennaskólinn í Reykjavík féllu undir stiftsyfirvöld auk þess sem þau höfðu einhver afskipti af kvennaskólum annars staðar á landinu. Styrkir til framhaldsnáms (guðfræði, læknisfræði) og kennslu í sjómannafræði og orgelspili og útgáfu sönglagahefta.

Þessi skólamál eru í séröskjum í stiftsyfirvaldasafni:

  • Ölmusur í latínuskóla 1878–1886,
  • fjárhagsvottorð lærisveina 1896–1903 (ekki færð í bréfadagbók),
  • Kvennaskólinn í Reykjavík 1878–1894,
  • barnaskólar og sveitakennarar 1878–1894.

Frá og með árinu 1895 og til 1904 eru þessi mál (nema ölmusurnar) undir málsnúmerum í skjalasafninu. Skal einkum bent á: Barnaskólar DbI, nr. 477 og 345, Sveitakennarar DbI, nr. 449.

III. Yfirumsjón með Landsbókasafni, Forngripasafni (Þjóðminjasafni), Landsskjalasafni (Þjóðskjalasafni).

Landsbókasafnið er í séröskjum fyrir árin 1872–1894. Eftir það undir málsnúmerum.

IV. Stjórn Thorkillii barnaskólasjóðs og hins almenna kirkjusjóðs.

Thorkillisjóðsreikningar 1873–1894 eru í séröskjum, svo og styrkir úr Thorkillisjóði 1878–1894. Síðan undir málnúmerum.

V. Ýmis nokkur sérstök störf. Réttindi kirkna og kirknafé, skipan prestakalla og sameining, brauðaskipti, sóknaskipun, umsóknir um prestaköll, aukaþjónusta presta, laun presta og sértekjur (heytollar og lambsfóður), bændakirkjur, lán til kirknabygginga og skyldur sóknarmanna til efnisflutninga, eftirlaun presta og prestaekkna, eftirlit með fornum munum kirkna og fornmenjum í kirkjugörðum og undirbúningur verðlagsskráa.

Þjónustufrímerkjareikningar 1878–1894 eru í séröskjum, eftir það á málsnúmerum.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island I, bls. 784; II, bls. 90–91, 120; III, bls, 54–55, 661.
2 ÞÍ. Stiftamtm. II. 6. Bréfadagbók stiftamtmanns 1803–1809, bl. 163v–165r.
3 Lovsamling for Island XXI, bls. 429–431.
4 Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 74–77 (6. grein).
5 Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 36–39.
6 Yfirlit þetta er gert eftir Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904–1964. Reykjavík 1969, bls. 63–64 og með athugun á bréfadagbókum stiftsyfirvalda. Er þó alls ekki allt talið.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 61