Styrktarsjóður konungslandseta í Gullbringusýslu og Mosfellssveit / Styrktarsjóður þurfandi og maklegra konungslandseta í Suðuramtinu / Styrktarsjóður þurfandi og maklegra þjóðjarðalandseta og ekkna þeirra í fyrrverandi Suðuramti

Síðast breytt: 2023.06.20
Slóð:
  • Orðabelgur
  • Stjórnsýsla
  • Styrktarsjóður konungslandseta í Gullbringusýslu og Mosfellssveit / Styrktarsjóður þurfandi og maklegra konungslandseta í Suðuramtinu / Styrktarsjóður þurfandi og maklegra þjóðjarðalandseta og ekkna þeirra í fyrrverandi Suðuramti
Áætlaður lestími: 1 mín

Einhvers konar fátækraspítali virðist hafa verið í Viðey eftir siðaskipti, leif frá því að munkunum var heimilað að dvelja þar áfram. Viðeyjarspítala var ætlað var að framfæra 6 fátækustu og skilvísustu landseta konungs í Gullbringusýslu og Mosfellssveit, þegar þeir hættu búskap, og sama átti við um 6 ekkjur slíkra landseta. Viðey var lögð til landfógeta sem embættisbústaður árið 1751 og árið eftir var spítalinn fluttur að Gufunesi og kallaðist eftir það Gufunesspítali. Jörðin Eiði í Mosfellssveit var jafnframt lögð til spítalans. Gufunesspítali var lagður niður árið 1795 samkvæmt konungsúrskurði frá árinu 1793. Þá var ákveðið, að landsetarnir og ekkjurnar fengju eftirlaun, 96 ríkisdali árlega.(Sjá: Viðeyjarspítali — Gufunesspítali í Orðabelg Þjóðskjalasafns.)

            Fljótlega fór að safnast fyrir fé, því að aðeins hluti þessara eftirlauna var greiddur út. Nýjar úthlutunarreglur voru ákveðnar með konungúrskurði 14. mars 1832. Jafnframt skyldi stofna sjóð af því fé, sem ekki hafði verið útborgað og safnast fyrir í Jarðabókarsjóðnum. Sjóðinn skyldi ávaxta og nota vextina til þess að styrkja fátæka, gamla og verðuga landseta í Gullbringusýslu og Mosfellssveit, ef þeir væru fleiri en þeir, sem nytu styrks af áðurnefndum 96 ríkisdölum. Ef þeir væru ekki til, skyldi styrkja konungslandseta í Suðuramtinu, sem eins væri ástatt um. Því, sem ekki yrði úthlutað af hinum árlegu 96 ríkisdölum, skyldi bæta við styrktarsjóðinn sem og þeim vöxtum sjóðsins, sem ekki væri úthlutað.1Lovsamling X, bls. 40–43.

            Auglýst var árið 1875, að konungsúrskurður frá árinu 1793 um aftöku Gufunesspítala væri numinn úr gildi. Eftirleiðis yrði styrkur veittur leiguliðum og ekkjum á konungsgóssi í Gullbringusýslu og Mosfellssveit og, ef til kæmi, annars staðar í Suðuramtinu sem árlegar tekjur hrykkju til og landssjóður leggði til það, sem á vantaði.2Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 50. Raunar munu þá hafa verið orðnir tiltölulega fáir konungslandsetar í Gullbringusýslu og Mosfellssveit vegna sölu konungsjarða þar. Þeir voru hins vegar miklu fleiri í Vestur-Skaftafellssýslu vegna óseldra jarða Kirkjubæjar- og Þykkvabæjarklaustra og fjölda ábúenda á sumum jörðum.

            Síðar kallaðist sjóðurinn „Styrktarsjóður þurfandi og maklegra þjóðjarðalandseta og ekkna þeirra í fyrrverandi Suðuramti“. Hann var enn við lýði sem „Styrktarsjóður þjóðjarðalandseta“ í árslok 2017.3https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2016-utdrattur-Yfirlit-sjalfseignarstofnana-og-sjoda.pdf, sótt 10. maí 2023.

            Reikningar „Styrktarsjóðs þurfandi og maklegra konungslandseta í Suðuramtinu“ birtust meðal reikninga í B-deild Stjórnartíðinda. Væntanlega má finna skjöl um þennan sjóð í skjalasafni stiftamtmanns og síðar í skjalasafni amtmanns í Suðuramti, Jarðabókarsjóðsreikningum og enn síðar í II. skrifstofu Stjórnarráðsins og endurskoðunarskjölum. Leita þarf undir ýmum nöfnum, sem fylgja orðinu „Styrktarsjóður“ og einnig „Leiguliðasjóðurinn“, svo sem í skjalasafni stiftamtmanns.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling X, bls. 40–43.
2 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 50.
3 https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2016-utdrattur-Yfirlit-sjalfseignarstofnana-og-sjoda.pdf, sótt 10. maí 2023.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 14