Upp úr 930 voru háð þrenns konar þing: 1) Alþingi, 2) vorþing (sóknar- og skuldaþing) og 3) leiðarþing (haustþing). Þessi þrjú þing nefnast í lögum Grágásar skapþing, þ.e. regluleg þing samkvæmt stjórnskipan þjóðveldisins. Um 965 var landinu skipt í fjórðunga til dómsagnar og fjórðungsþingum komið á.1Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 568.
Þingstaðir voru margir og mismunandi eftir þinghaldi og heimildir um þá oft harla takmarkaðar: 1) Alþingisstaðurinn Þingvöllur/ ingvellir, 2) vorþingastaðir, 3) leiðarþingastaðir og 4) fjórðungsþingastaðir.2Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 11–14, 329–330, 561–562, 568–569.
Auk þess voru ýmis önnur þing haldin: Regluleg þing hreppsbænda, svonefnd þriggja hreppa þing, einkum á 16. og 17. öld, ennfremur manntalsþing frá síðari hluta 13. aldar. Aukaþing eða héraðsþing hafa verið haldin í ýmsum landshlutum.3Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 569.
Lýður Björnsson nefnir nokkur dæmi um fjórðungsþing frá 17. og 18. öld.4Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi II. Reykjavík 1979, bls. 404–405.
Stundum voru haldin sérstök þing, sem náðu yfir þrjá eða fjóra hreppa. Um verksvið slíkra þinga er lítið vitað. Giskað hefur verið á, að upphafið megi rekja til þinghalda hirðstjóra á yfirreiðum um landið.5Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I. Reykjavík 1972, bls. 127. Slík þing voru ekki endilega haldin á hreppaþingstöðum, svo sem í Lambey í Fljótshlíð, á Þingskálum á Rangárvöllum, við Laxá í Leirársveit, á Leiðarhólmi í Miðdölum og í Spjaldhaga (við Grund) í Eyjafirði.6Ólafur Lárusson, „Þriggja hreppa þing“, Lög og saga. Reykjavík 1958, bls. 259–262.
Hreppsbændum var skylt að sækja eða senda fulltrúa á þrjár samkomur, þ.e. á einmánuði, eftir vorþing og um veturnætur. [Veturnætur eru tveir síðustu sólarhringarnir fyrir fyrsta vetrardag.] Á haustsamkomu, eftir setningu tíundarlaga, skyldu menn telja fram með svörnum eiði og greiða tíund fyrir Marteinsmessu (11. nóvember).7Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 205.
Tíund var skattur, sem var lögleiddur á Íslandi 1096 eða 1097, og skyldu allir telja fram og virða eigur sínar á haustsamkomu. Á Íslandi var tíund eignarskattur, og gert ráð fyrir 10% tekjum af skuldlausri eign. Af því átti að greiða 10% eða 1% eignarskatt. Allir (karlar og konur) voru tíundarskyldir frá 16 ára aldri, ef þeir áttu skuldlaust a.m.k. háft hundrað eða 60 álnir, fyrir utan hversdagsföt, og þeir, sem ekki greiddu þingfararkaup, nutu frádráttar vegna ómaga.8Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 509–511. (Tíund, sjá einnig Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.)
Í Jónsbók var hin forna hreppaskipan lögfest. Þá urðu hreppasamkomur að hreppstjórnarþingum á vori og hausti og hreppar breyttust í þinghár, þar sem sýslumenn eða umboðmenn þeirra tilnefndu dóma í málum innan hrepps.9Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 206.
Jónsbók segir bændur skylda að sækja fjögur þing:
Það þing sem konungsbréf skal upplesa og manndrápsþing og manntalsþing til jafnaðar, og það þing er hreppstjórn heyrir til.10Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 148.
Í reglugerð um tekjur presta og kirkna á Íslandi, 17. júlí 1782, 1. og 2. grein, segir, að hver bóndi skuli árlega sækja hreppstjóraþing og gefa þar upp eigur sínar til tíundarvirðingar.11Lovsamling for Island IV, bls. 664–666. Til þessara ákvæða er vísað í hreppstjórainstrúxinu frá 24. nóvember 1809, VIII. og IX. kafla.12Lovsamling for Island VII, bls. 312–313. Um framhald slíkra þinga sjá Hreppaskilaþing / hreppskilaþing / hreppstjóraþing í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.
Ætlað hefur verið, að hreppar hafi fljótlega eignast fasta þingstaði og verið orðnir fullmótaðar pólitískar og stjórnarfarslegar einingar fyrir lok þjóðveldisaldar.13Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I, bls. 48, 50. Samkvæmt Jónsbók skyldu löghreppar vera sem að fornu og eigi færri bændur í hrepp en tuttugu.14Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578, bls. 146. Vart verður tveggja eða þriggja breytinga á hreppaskipun á 15. og 16. öld.15Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I, bls. 55–57. Fastheldni á þingstaði hreppa virðist hafa ríkt.
Um 1700 bættust við nokkrir þingstaðir vegna skiptingu þingháa/ hreppa: Vallahreppi í Múlasýslu var skipt í þrennt, Valla-, Eiða- og Hjaltastaðahreppa, Suðursveit í Holtaþingsókn í Austur-Skaftafellssýslu varð Borgarhafnarhreppur. Einhvern tíma á 18. öld urðu breytingar vegna Þingvallasveitar og Grafnings í Árnessýslu. Á síðari hluta 18. aldar urðu ýmsar breytingar svo sem með skiptingu Neshrepps í Snæfellsnessýslu og tilfærslum milli þriggja hreppa í Dalasýslu.
Tilskipun um tilhlýðilegt helgihald sabbatsins [hvíldardagsins/sunnudags] og annarra helgra daga á Íslandi, 29. maí 1744, bannar í 24. grein, að manntals- og héraðsþing séu haldin í kirkjum. Almenningur skuli koma upp þinghúsum í hverri þingsókn, þar sem þess gerist þörf. Það hafi verið orðin venja á Íslandi, að sýslumenn á ýmsum stöðum hafi haldið slík þing í kirkjum eftir þeirri átyllu, að engin heppileg hús væru til.16Lovsamling for Island II, bls. 517.
Manntalsþing til skattheimtu og dóma eru yngra fyrirbæri en hreppaskilaþing. (Sjá Manntalsbækur og Manntalsþing í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.) Manntalsþing sýslumanna voru að jafnaði haldin í hverjum hreppi og þá á þingstöðum hreppanna, en frá því voru undantekningar, t.d. munu fyrrum hafa verið haldin þing í Kópavogi fyrir Álftaness- og Seltjarnarneshreppa. Í Berufirði í Reykhólasveit voru haldin þing fyrir Geiradals- og Króksfjarðarhreppa, á Seylu í Skagafirði fyrir Staðar- og Seyluhreppa, í Viðvík í Skagafirði fyrir Viðvíkur- og Hólahreppa, við Trébrú (Jökulsárbrú) fyrir Jökulsárhlíðardals- og Tunguhreppa (jafnvel Fellahrepp) og í Vallahreppi í Múlasýslu jafnvel verið 2–3 manntalsþingstaðir.17Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I, bls. 94–95, 99, 105, 110 og 112–114.
Sýslumenn gerðu nokkuð að því að sameina manntalsþinghár í lok 18. aldar og framan af þeirri nítjándu. Sem dæmi má nefna, að Steindór Finnsson sýslumaður í Árnessýslu fékk samþykki héraðsbúa til þess að sameina ýmsar þingsóknir á fyrsta tug 19. aldar. Voru t.d mannntalsþing fyrir alla hreppa í Flóanum, fimm talsins, haldin í Hróarsholti í Villingaholtshreppi. Því var breytt með opnu bréfi konungs 22. febrúar 1855 og teknir upp hinir gömlu þingstaðir í Flóanum og sömuleiðis í Nesi í Selvogi.18Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I. Kaupmannahöfn 1864, bls. 32–34. Lýður Björnsson hefur skrifað um breytingar á hreppa- og þingsóknaskipun á tímabilinu 1703–1872 og ýmsar tillögur þar að lútandi og dregið saman í stutt yfirlit.19Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I, bls. 128–151. Yfirlit er á bls. 150–151.
Skipting hreppa hófst fyrir alvöru á síðustu áratugum 19. aldar og hélt áfram allan fyrri hluta 20. aldar. Hefur Lýður Björnsson gert nákvæma grein fyrir því á tímabilinu 1876–1972 ásamt breytingum á sveitarfélagamörkum og upphafi sameiningar sveitarfélaga.20Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi II, bls. 46–133. Yfirlit er á bls. 131–133. Samfara því urðu til nýir þingstaðir og jafnframt tilfærsla á þingstöðum vegna breyttra aðstæðna, svo sem vegna tilurðar skóla- og samkomuhúsa, sem voru heppilegri fundarstaðir en þinghús á gömlu þingstöðunum eða sveitabæir.
Vægi manntalsþinga minnkaði mikið, þegar innheimta þar var formlega afnumin með lögum nr. 60/1973, 30. apríl.21Stjórnartíðindi 1973 A, bls. 168–169, 8. grein. Síðan var farið að leyfa að sameina manntalsþing í sýslum eða sleppa þeim alveg. (Sjá Manntalsþing í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.)
(Heimildir: Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015. Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I–II. Reykjavík 1972–1979. — Sjá og Ólafur Lárusson, „Þriggja hreppa þing.“ Lög og saga. Reykjavík 1958, bls. 249–268.)
Tilvísanir
↑1 | Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 568. |
---|---|
↑2 | Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 11–14, 329–330, 561–562, 568–569. |
↑3 | Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 569. |
↑4 | Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi II. Reykjavík 1979, bls. 404–405. |
↑5 | Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I. Reykjavík 1972, bls. 127. |
↑6 | Ólafur Lárusson, „Þriggja hreppa þing“, Lög og saga. Reykjavík 1958, bls. 259–262. |
↑7 | Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 205. |
↑8 | Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 509–511. |
↑9 | Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, bls. 206. |
↑10 | Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 148. |
↑11 | Lovsamling for Island IV, bls. 664–666. |
↑12 | Lovsamling for Island VII, bls. 312–313. |
↑13 | Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I, bls. 48, 50. |
↑14 | Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578, bls. 146. |
↑15 | Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I, bls. 55–57. |
↑16 | Lovsamling for Island II, bls. 517. |
↑17 | Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I, bls. 94–95, 99, 105, 110 og 112–114. |
↑18 | Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I. Kaupmannahöfn 1864, bls. 32–34. |
↑19 | Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi I, bls. 128–151. Yfirlit er á bls. 150–151. |
↑20 | Lýður Björnsson, Saga sveitarstjórnar á Íslandi II, bls. 46–133. Yfirlit er á bls. 131–133. |
↑21 | Stjórnartíðindi 1973 A, bls. 168–169, 8. grein. |