Tilskipanabækur

Síðast breytt: 2020.05.09
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Eitt af því, sem prestum bar að halda til haga, voru konunglegar tilskipanir, en á einvaldstímum stjórnuðu konungar með tilskipunum og fyrirmælum, sem höfðu lagagildi.

Í erindisbréfi biskupa 1. júlí 1746, 27. grein, var Hólabiskupi boðið að láta prenta á íslensku allar tilskipanir til biskupa, sem síðan átti að úthluta til skjalasafna biskupa og amtmanns, svo og til allra prófasta og sýslumanna.1Lovsamling for Island II, bls. 656. Prestar skyldu skrifa þær upp í endurritabækur sínar samkvæmt 29. grein erindisbréfsins.2Lovsamling for Island II, bls. 657. Ýmsir prestar söfnuðu þeim saman í sérstakar bækur, sem nefndar eru tilskipanabækur. Eru þessi söfn mynduð af skrifuðum og prentuðum tilskipunum, sem bendir til þess, að stofninn sé kominn úr skjalasafni prófasts, þótt bækurnar hafi að endingu lent í skjalasafni prests.

Með bréfi dómsmálastjórnarinnar til landshöfðingja 17. júlí 1874 var tilkynnt ákvörðun um útgáfu „Tíðinda um stjórnarmálefni Íslands“, þ.e. Stjórnartíðinda. Tíðindin átti að senda borgunarlaust öllum stjórnvöldum, landsyfirrétti, landfógeta, landlækni, sýslumönnum, sveitarstjórnum, embættismönnum andlegrar stéttar og umboðsmönnum þjóðjarða á Íslandi.3Stjórnartíðindi 1874 B, bls. 1–2. Komu Stjórnartíðindi þá í stað tilskipana og laga, sem prestar áttu að færa inn í endurritabækur. Urðu tilskipanabækur sérstakar því úr sögunni.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island II, bls. 656.
2 Lovsamling for Island II, bls. 657.
3 Stjórnartíðindi 1874 B, bls. 1–2.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 39