Tíund

Síðast breytt: 2020.05.09
Áætlaður lestími: 1 mín

Skattur samþykktur á alþingi 1096/1097. Á Íslandi var tíundin greidd af eign og því eignaskattur eða öllu heldur eignaaukaskattur. Gert var ráð fyrir því, að eignir manna ykjust um 10% árlega og þeir greiddu 10% af eignaaukanum, eða 1% af heildareign. Allar eignir manna, sem náðu lágmarkseign, voru „tíundaðar“.

Skatturinn skiptist í fjóra staði: 1/4 rann til biskups til uppbyggingar biskupsstóls og rekstrar hans, 1/4 gekk til þurfamanna, og fengu hreppsmenn þann hluta til þess að deila út meðal fátækra, 1/4 rann til kirkna, til viðhalds og uppbyggingar og 1/4 til presta.

Erlendis var tíundin eignarskattur.1Magnús Stefánsson, „Tiend“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 287–291; Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju. Kristni á Íslandi I. Reykjavík 2000, bls. 200–208. Kirknaeignir og klaustra (þær síðarnefndu seinna í konungseigu) voru tíundarfrjálsar. Þær uxu mjög á miðöldum, sem olli því, að fátækratíund fór síminnkandi.

Magnús biskup Eyjólfsson gerði þá skipun 25. júní 1479, að tíundir skyldu ævinlega gjaldast af jörðum, sem komið hefðu undir Skálholtskirkju og aðrar kirkjur og klaustur síðustu 20 ár og ættu eftir að koma í þeirra eigu.2Íslenzkt fornbréfasafn VI, bls. 209–211. Magnús biskup, Eyjólfur Einarsson, lögmaður, og Diðrik Píning, hirðstjóri, samþykktu hið sama um jarðir í eigu kirkju og konungs á alþingi árið 1489.3Íslenzkt fornbréfasafn VI, bls. 661–675; Magnús Stefánsson, „Tiend“, dálkur 290. Loks var dæmt á alþingi árið 1604, að prests- og fátækratíund skyldi goldin af öllum jörðum kóngs og kirkna, að undanskildum þeim, sem kirkjurnar stæðu á.4Alþingisbækur Íslands III, bls 322; Lovsamling for Island I, bls. 144–145.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Magnús Stefánsson, „Tiend“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 287–291; Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju. Kristni á Íslandi I. Reykjavík 2000, bls. 200–208.
2 Íslenzkt fornbréfasafn VI, bls. 209–211.
3 Íslenzkt fornbréfasafn VI, bls. 661–675; Magnús Stefánsson, „Tiend“, dálkur 290.
4 Alþingisbækur Íslands III, bls 322; Lovsamling for Island I, bls. 144–145.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 6 af 6 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 372