Sagt er, að biskupsstólarnir hafi verið álíka stofnanir og stærstu klaustur á 12.–14. öld hvað jarðeignir varðaði en eflst mest eftir setningu kristinréttar Árna Þorlákssonar biskups, í Skálholtsbiskupsdæmi árið 1297 og árið 1354 í Hólabiskupsdæmi. Við siðaskipti hafi jarðeignir staða og bændakirkna tekið til 13.616 hundraða, klaustraeignir verið virtar á 13.709 hundraða og stólseignir á 14.119 hundraða. Hlutfall kirkjueigna af öllum jarðeignum á landinu verið um 45% fyrir siðaskipti en nálægt 31% eftir siðaskipti. Jarðeignum staða og klaustra var stjórnað frá höfuðbólinu eða klaustrinu. Eignir biskupsstólanna voru miklu meiri að vöxtum og miklu umfangsmeira að gæta þeirra. Heimildir sýna, að Hólastóll hafi þegar á 14. öld skipt jarðeignum sínum í umboð eða lén.1Ólafur Ásgeirsson, „Kirkjueignir“, Lúther og íslenskt þjóðlíf. Erindi flutt á ráðstefnu um Martein Lúther, er haldin var 4. nóvember 1983 í tilefni þess að 500 ár voru liðin frá fæðingu hans. Reykjavík 1989, bls. 195–197.
Skálholtsstóll
Um siðaskipti átti Skálholtskirkja ríflega 300 jarðir og á þriðja þúsund kúgildi auk ýmissa ítaka.2Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, Saga biskupsstólanna. Reykjavík 2006, bls. 91. Skálholtsstóll var sviptur útvegsjörðum sínum á Suðurnesjum (Nesjajörðum) árið 1556, fékk í staðinn konungseignir í Hornafirði og dómkirkjan í Skálholti missti jarðir sínar í Gullbringusýslu árið 1563 en hlaut aftur jarðir krúnunnar og Viðeyjarklausturs í Borgarfjarðarsýslu og víðar.3Ísl. fornbréfasafn XIII, bls. 138–139; Ísl. fornbréfasafn XIV, bls. 155–158; Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, bls. 126–127.
Umboðaskipting Skálholtsjarða fyrir siðaskipti er óþekkt. Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður segir umboðin hafa verið þessi árið 1597: Flóaumboð, Hreppaumboð (Gnúpverja- og Hrunamannahreppar), Skammbeinsstaðaumboð, Biskupstungur, Grímsnessumboð, Heynessumboð, Grindavík, Bjarnanessumboð og að auki nokkrar jarðir á Ströndum.4Ólafur Ásgeirsson, „Kirkjueignir“, bls. 203. Ólafur studdist við jarðabók yfir kirkjueignir frá 1597, sem hafði fyrrum verið í rentukammeri. Barst síðan til Noregs, en Noregskonungur færði Íslendingum bókina að gjöf vegna 1100 ára Íslandsbyggðar árið 1974. ÞÍ. Kirkjueignir á Íslandi 1597–1984 I. Inngangur. Kirkjueignanefnd desember 1992. Handrit í Þjóðskjalasafni Íslands, bls. 3.
Guðrún Ása Grímsdóttir segir umboðin þessi um miðja 17. öld: Tungnaumboð, Grímsnessumboð með Ölfusi og út með sjó, Heynessumboð, Skeiðaumboð, Hreppar báðir, Flóaumboð, Skammbeinsstaðaumboð og Bjarnanessumboð.5Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, bls. 101.
Í bókinni Saga biskupsstólanna er skrá Guðrúnar Ásu yfir jarðir Skálholtskirkju, gerð eftir jarðabókum frá 1695 og 1697 með hliðsjón af skrá yfir tekjur Skálholtsstaðar af landskuldum og kúgildaleigum árið 1707. Sumar jarðirnar eru utan umboða en jarðaflokkarnir voru þessir: 1) Dómkirkjunnar jarðir fyrir austan (ein jörð og þrír jarðahlutar), 2) Bjarnanessumboð (12 jarðir eða jarðahlutar í Austur-Skaftafellssýslu), 3) Skammbeinsstaðaumboð (32 jarðir í Rangárvallasýslu, vestan Markarfljóts), 4) Hamraumboð (kennt við Hamra í Grímsnesi, 54 jarðir eða jarðahlutar í Grímsnesi, Laugardal, Þingvallasveit, Grafningi og Ölfusi), 5) Tungnaumboð (37 jarðir, sem töldust til Biskupstungna og 3 í Laugardal), 6) Ráðsmannsumboð í Hreppum (Skálholtsráðsmaður hafði umboð 34 jarða í Hrunamanna- og Gnúpverjahreppum og að auki ískyldu, þ.e. kvaðir, í einni), 7) á Skeiðum (21 jörð á Skeiðum og getið hjáleigna), 8) í Flóa (54 jarðir í Flóa og ískylda í einni til viðbótar), 9) dómkirkjunnar jarðir út með sjó (9 útvegsjarðir, frá Þorlákshöfn að Stað í Grindavík), 10) Heynessumboð (þar voru 41 jörð eða jarðahlutar, þar af 38 í Borgarfjarðarsýslu, Kalmanstunga í Mýrasýslu og tvær í Brynjudal í Kjósarsýslu), loks voru 11) dómkirkjunnar jarðir fyrir vestan (3 talsins, allar í Strandasýslu) .6Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, bls. 79–89..
Þessi skipting hélst ekki óbreytt. Í umboðareikningum frá síðari hluta 18. aldar er sérstakt Ölfusumboð, sem náði yfir Ölfus og Grafning. Jarðirnar tvær í Þingvallasveit (Gjábakki og Miðfell) voru þá í Grímsnessumboði. Sérstakir skreiðarreikningar voru af jörðum og skipum „við sjósíðuna“ (þ.e. dómkirkjunnar jörðum út með sjó).7ÞÍ. Bps. VII. 13. Umboðareikningar Skálholtsstóls m.m. 1753–1786; ÞÍ. Bps. VII. 14. Umboðareikningar Skálholtsstóls m.m. 1757–1779.
Ákveðið var með konungsúrskurði 15. apríl 1785 að flytja biskupsstól og skóla frá Skálholti til Reykjavíkur. Rentukammerið gaf út skilmála fyrir sölu á stólsjörðunum 27. sama mánaðar og fleiri bréf um stólseignirnar fylgdu í kjölfarið.8Lovsamling for Island V, bls. 142–143, 144–194, 196–198, 200–204, 206–207. Hófst jarðasalan árið 1787.9Jón Johnsen, Jarðatal á Íslandi. Kaupmannahöfn 1847, bls. 416–424. Árið 1984 voru einhverjar Skálholtsjarðir taldar kirkjueignir, svo sem Borg á Mýrum og Hafnarnes í Nesjum, sem höfðu verið í Bjarnanessumboði.10ÞÍ. Kirkjueignir á Íslandi 1597–1984 II. Skrár. Kirkjueignanefnd desember 1992. Handrit í Þjóðskjalasafni Íslands, bls. 32, 33.
Heimildir um jarðeignir Skálholtsstóls má finna í Biskupsskjalasafni, B. VII, í Þjóðskjalasafni, en einnig í öðrum embættum, m.a. vegna aðskilnaðar stóls og skóla.
Hólastóll
Hólastóll var stærsti einstaki jarðeigandi landsins um siðaskipti, átti 350 jarðir. Jarðeignum stólsins fækkaði nokkuð á dögum Ólafs biskups Hjaltasonar (í embætti 1552–1569), Guðbrandur Þorláksson biskup (í embætti1571–1627) bæði dró jarðir undir stólinn og undan honum. Um 1700 átti Hólastóll 333 jarðir og jarðahluta. Urðu á því litlar breytingar á 18. öld.11Björn Teitsson, „Um jarðeignir Hólastóls“, Saga biskupsstólanna. Reykjavík 2006, bls. 459, 468–480.
Þrjú jarðaumboð Hólastóls eru nefnd á síðari hluta 14. aldar: Heimaumboð (náði yfir meginhluta Skagafjarðar og líklega jarðir í Húnaþingi og jarðir í Eyjafirði innan við Ólafsfjörð), Fljótaumboð (líklega jarðir í Sléttahlíð, Fljótum, Siglufirði, Héðinsfirði og Ólafsfirði) og Norðurumboð (sennilega jarðir norðan Vaðlaheiðar eða Varðgjár og náði því yfir þingeyskar eignir stólsins). Umboðunum var síðan skipt á stundum. Ný umboð komu til sögunnar á 16. öld, þegar jarðeignum stólsins hafði fjölgað mikið. Meðal þeirra var Myrkárumboð með 11 jarðir. Það var tekið undan stólunum með konungsboði 1553 og skyldu tekjurnar renna til uppihalds skólameistara og kennara á Hólum. Umboðið hvarf úr sögunni um 1570 og jarðirnar skiptust milli Urða- og Miklagarðsumboða. Björn Teitsson gerði yfirlit yfir Hólastólsjarðir eins og þær voru um 1700, flokkaðar eftir umboðum, en mörk umboða breyttust gjarnan: 1) Kúluumboð, kennt við Auðkúlu í Svínadal og náði yfir jarðir í Húnaþingi og fáeinar jarðir í Vestfirðingafjórðungi. Því var um skeið, fyrir siðaskipti, skipt í Ásgeirsár- og Kúluumboð. Um 1700 voru 39 jarðir í umboðinu. 2) Heimaumboð náði yfir mestallan Skagafjörð, frá Hrauni á Skaga að Höfðahólum á Höfðaströnd, með 137 jarðir um 1700. 3) Fljótaumboð náði frá Höfðahólum í Skagafirði til Ólafsfjarðar. Jarðirnar voru 67 um 1700. 4) Urðaumboð var kennt við Urðir í Svarfaðardal, en þeirri jörð náði Guðbrandur biskup Þorláksson undir sig. Í umboðinu voru jarðir á Upsaströnd, í Svarfaðardal og nokkrar á Árskógsströnd, 20 talsins um 1700. 5) Miklagarðsumboð með jarðir í Eyjafirði og sunnanverðri Þingeyjarsýslu, sem voru 45 um 1700. Austurmörk Miklagarðsumboðs virðast hafa verið hreyfanleg. 6) Norðurumboð með jarðir í norðanverðri Þingeyjarsýslu og tvær jarðir á Langanesi, sem voru í Múlasýslu, eða 25 að tölu um 1700. Um 1700 hafa vesturmörk Norðurumboðs verið við Mýrarkvísl.12Björn Teitsson, „Um jarðeignir Hólastóls“, bls. 470–482.
Heiti umboða og skipting þeirra er mjög á annan veg í jarðabók Hólastóls árið 1741.13ÞÍ. Bps. B. VIII, 11. Jarðabók Hólastóls 1741. Þar er farið rangsælis og byrjað á 1) Langanessumboði, sem var hið sama og Norðurumboð. Þá kom 2) Fnjóskadalsumboð, sem náði yfir þær jarðir í Þingeyjarsýslu, sem áður voru í Miklagarðsumboði. 3) Hörgárdalsumboð. Í því var hluti þeirra jarða í Eyjafirði, sem um 1700 voru taldar í Miklagarðsumboði. 4) Svarfaðardalsumboð, áður Urðaumboð. 5) Fljótaumboð. Þar hafði Sléttahlíð verið tekin undan. 6) Sléttahlíðarumboð. Í því voru Sléttahlíð (áður í Fljótaumboði) og Höfðaströnd, Unadalur, Deildardalur og jarðirnar Tumabrekka og Miðhús í Óslandshlíð, sem áður töldust til Heimaumboðs. 7) Heimaumboð. Það hafði minnkað um þann hluta, sem féll til Sléttahlíðarumboðs sem og jarðir á Reykjaströnd og á Skaga. 8) Skagaumboð. Þar voru jarðir á Skaga (í Skefilsstaðahreppi) og á Reykjaströnd. 9) Svínadalsumboð, sem var að mestu leyti hið sama og Kúluumboð. 10) Lénsjarðaumboð. Í því voru jarðir, sem ætlaðar voru biskupsekkjum frá Hólum sem eftirlaun samkvæmt leyfi konungs 30. maí 1721.14Lovsamling for Island II, bls. 29–30. 11) Skólameistarajarðaumboð. Þar voru sömu jarðir úr Skriðuhreppi hinum forna og Glæsibæjarhreppi, sem lagðar voru til skólameistara og heyrara á Hólum árið 1553, auk Efstalandskots.15Ísl. fornbréfasafn XII, bls. 526–528. Heiti þessa umboðs vekur upp vangaveltur um, hvort skólameistarar hafi notið afgjaldsins af þessum jörðum, þótt þær teldust til Miklagarðsumboðs um 1700. Þessi nöfn virðast hafa haldist síðan nema finna má dæmi um Heima- og Framumboð, sem mun hafa náð yfir sama svæði og Heimaumboð, árið 1741.16ÞÍ. Bps. B. VIII. 25a. Skrá um skjöl Hólastóls, dómkirkju- og stólsjarðir, jarðabók Hólastóls, umboðsreikningar m.m. 1708–1799.
Ákveðið var með tilskipun 13. mars 1802 að selja allar jarðeignir Hólastóls og skólans sem og jarðir, sem lagðar höfðu verið til biskupsekkna.17Lovsamling for Island VI, bls. 547–549. Fór salan fram á næstu árum.18Jón Johnsen, Jarðatal á Íslandi. Kaupmannahöfn 1847, bls. 425–434.
Gagna um jarðeignir Hólastóls er einkum að leita í Biskupsskjalasafni, B. VIII, í Þjóðskjalasafni, en einnig í öðrum embættum, m.a. vegna aðskilnaðar stóls og skóla.
(Heimildir: Björn Teitsson, „Um jarðeignir Hólastóls“, Saga biskupsstólanna. Reykjavík 2006, bls. 459–489; Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, Saga biskupsstólanna. Reykjavík 2006, bls. 79–134; Ólafur Ásgeirsson, „Kirkjueignir“, Lúther og íslenskt þjóðlíf. Erindi flutt á ráðstefnu um Martein Lúther, er haldin var 4. nóvember 1983 í tilefni þess að 500 ár voru liðin frá fæðingu hans. Reykjavík 1989, bls. 193–214; ÞÍ. Kirkjueignir á Íslandi 1597–1984 I. Inngangur. Kirkjueignanefnd desember 1992. Handrit í Þjóðskjalasafni Íslands; ÞÍ. Kirkjueignir á Íslandi 1597–1984 II. Skrár. Kirkjueignanefnd desember 1992. Handrit í Þjóðskjalasafni Íslands.)
Tilvísanir
↑1 | Ólafur Ásgeirsson, „Kirkjueignir“, Lúther og íslenskt þjóðlíf. Erindi flutt á ráðstefnu um Martein Lúther, er haldin var 4. nóvember 1983 í tilefni þess að 500 ár voru liðin frá fæðingu hans. Reykjavík 1989, bls. 195–197. |
---|---|
↑2 | Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, Saga biskupsstólanna. Reykjavík 2006, bls. 91. |
↑3 | Ísl. fornbréfasafn XIII, bls. 138–139; Ísl. fornbréfasafn XIV, bls. 155–158; Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, bls. 126–127. |
↑4 | Ólafur Ásgeirsson, „Kirkjueignir“, bls. 203. Ólafur studdist við jarðabók yfir kirkjueignir frá 1597, sem hafði fyrrum verið í rentukammeri. Barst síðan til Noregs, en Noregskonungur færði Íslendingum bókina að gjöf vegna 1100 ára Íslandsbyggðar árið 1974. ÞÍ. Kirkjueignir á Íslandi 1597–1984 I. Inngangur. Kirkjueignanefnd desember 1992. Handrit í Þjóðskjalasafni Íslands, bls. 3. |
↑5 | Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, bls. 101. |
↑6 | Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, bls. 79–89. |
↑7 | ÞÍ. Bps. VII. 13. Umboðareikningar Skálholtsstóls m.m. 1753–1786; ÞÍ. Bps. VII. 14. Umboðareikningar Skálholtsstóls m.m. 1757–1779. |
↑8 | Lovsamling for Island V, bls. 142–143, 144–194, 196–198, 200–204, 206–207. |
↑9 | Jón Johnsen, Jarðatal á Íslandi. Kaupmannahöfn 1847, bls. 416–424. |
↑10 | ÞÍ. Kirkjueignir á Íslandi 1597–1984 II. Skrár. Kirkjueignanefnd desember 1992. Handrit í Þjóðskjalasafni Íslands, bls. 32, 33. |
↑11 | Björn Teitsson, „Um jarðeignir Hólastóls“, Saga biskupsstólanna. Reykjavík 2006, bls. 459, 468–480. |
↑12 | Björn Teitsson, „Um jarðeignir Hólastóls“, bls. 470–482. |
↑13 | ÞÍ. Bps. B. VIII, 11. Jarðabók Hólastóls 1741. |
↑14 | Lovsamling for Island II, bls. 29–30. |
↑15 | Ísl. fornbréfasafn XII, bls. 526–528. |
↑16 | ÞÍ. Bps. B. VIII. 25a. Skrá um skjöl Hólastóls, dómkirkju- og stólsjarðir, jarðabók Hólastóls, umboðsreikningar m.m. 1708–1799. |
↑17 | Lovsamling for Island VI, bls. 547–549. |
↑18 | Jón Johnsen, Jarðatal á Íslandi. Kaupmannahöfn 1847, bls. 425–434. |