Legat, orð dregið af latneska orðinu legatum, sem merkir ákvörðun í erfðaskrá. Þess voru ýmis dæmi, að menn gæfu jarðir eða jarðarhluta til einhverra málefna, sem þeir töldu þess verð, að þau væru styrkt með arði af þessum eignum, þ.e. landskuldum og kúgildaleigum. Meðal elstu dæma um slíkt voru: 1) Drápuhlíðarlegat frá árinu 1655, 25 hundruð í Drápuhlíð í Helgafellssveit, ætlað til þess að styrkja kirkju á Helgafelli og presta þar, en fimm kúgildi í Drápuhlíð voru til styrktar fátækum í Helgafellssveit. 1Lovsamling for Island I, bls. 249–251. 2) Hamarslegat frá árinu 1656, jörðin Hamar í Svínavatnshreppi gefin fátækum í Húnavatnssýslu. 2Lovsamling for Island I, bls. 251–252. 3) Reynislegat / Reynisgjöfin frá árinu 1662, jörðin Reynir í Akraneshreppi gefin fátækum, skyldu landskuld og kúgildaleigur renna til fátækrar ekkju, sem ætti þrjú skilgetin börn eða fleiri í ómegð. Ekkjurnar áttu að búa í Akraness-, Skilmanna- eða Skorradalshreppum í Borgarfjarðarsýslu. 3Lovsamling for Island I, bls. 271–273. Munu prestar og sýslumenn yfirleitt hafa haft umsjón með slíkum gjafasjóðum eða legötum.
Jarðir eða jarðarhlutar voru framan af yfirleitt undirstaða gjafa-, styrktar- eða minningarsjóða, sem raunar voru ekki ýkja margir. Á 19. öld voru þeir hins vegar jafnan byggðir á peningainnstæðum eða skuldabréfum. Slíkum sjóðum fjölgaði mjög við upphaf tuttugustu aldar og spruttu upp sem gorkúlur á haug, eftir því sem leið á öldina. Þeir brunnu yfirleitt upp í verðbólgu á síðari hluta sömu aldar. Í Ríkishandbók Íslands frá árinu 1965 eru taldir hátt í eitt þúsund opinberir sjóðir, sem fengið höfðu skipulagsskrár á árunum 1655–1963. 4Birgir Thorlacius, Henrik Sv. Björnsson og Páll Líndalendur: Ríkishandbók Íslands. Reykjavík 1965, bls. 344–367.
Thorkillisjóður (Legat Jóns Þorkelssonar). Jón Þorkelsson Thorkillius kannaði ástand fræðslumála á Íslandi á árunum 1743–1745 ásamt Ludvig Harboe, síðar Sjálandsbiskupi. Jón gaf árið 1759 allar eigur sínar til þess að kosta fræðslu fátækra og munaðarlausra barna í Kjalarnesþingi. Voru það annars vegar fjármunir, sem varðveittir voru í Kaupmannahöfn, hins vegar fasteignir á Íslandi og afgjöld af þeim. Jarðirnar voru síðar seldar, sú síðasta árið 1848.5Lovsamling for Island III, bls. 356–359; Lovsamling for Island XIV, bls. 38–39. Umsjónarmenn sjóðsins voru í fyrstu stiftamtmaður og Sjálandsbiskup, frá miðri 19. öld stiftamtmaður og biskup á Íslandi, en síðan tóku við stiftsyfirvöld. Stjórnarráð Íslands hafði umsjónina frá 1904.
(Heimild: Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 244 (Jón Þorkelsson), 508 (Thorkillisjóður).)
Skjala Thorkillisjóðs er að leita í skjalasöfnum stiftamtmanns, stiftsyfirvalda, fyrstu skrifstofu Stjórnarráðsins og menntamálaráðuneytisins.
Böggvisstaðaumboð eða „Jóns Sigurðssonar legat til þurfamanna innan Eyjafjarðarsýslu“, sem Jón Sigurðsson á Böggvisstöðum í Svarfaðardal stofnaði af fjórðungi eftirlátinna eigna sinna. Hlaut gjöfin konunglega staðfestingu 14. október 1831. 6Lovsamling for Island IX, bls. 798–804. Árið 1844 gerði Jón nýtt gjafabréf og lagði þá jarðirnar Hvamm, Kristnes og Merkigil í Hrafnagilshreppi og 21 hundrað í Æsustöðum í Saurbæjarhreppi í þennan fjórðungsgjafarhlut. Jafnframt gaf hann fátækum 40 hundruð í hinum bestu jörðum, sem hann léti eftir sig og ekki hefðu verið ánafnaðar öðrum, og skyldu þessi 40 hundruð fylgja áðurnefndum fjórða hluta eigna hans. 7Lovsamling for Island XIII, bls. 113–118. Árið 1846 gerði Jón þá breytingu, að jarðahundruðin 40, sem hann bætti við árið 1844, skyldu verða eign fátækra í Svarfaðardalshreppi. 8Lovsamling for Island XIII, bls. 482–483. Ekki kemur fram, hvaða jarðir það voru. Legatið mun hafa efnast vel á tímabili og bætt við sig jörðum og haft jarðaskipti, m.a. við „Gjafasjóð Jóns Sigurðssonar til fátækra í Svarfaðardalshreppi. 9Hjörtur E. Þórarinsson: Saga sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu 1874–1989 I. Akureyri 1994, bls. 172–193.
Nokkur skjöl frá Böggvisstaðaumboði eru í Þjóðskjalasafni Íslands með öðrum umboðsskjölum.
Tilvísanir
↑1 | Lovsamling for Island I, bls. 249–251. |
---|---|
↑2 | Lovsamling for Island I, bls. 251–252. |
↑3 | Lovsamling for Island I, bls. 271–273. |
↑4 | Birgir Thorlacius, Henrik Sv. Björnsson og Páll Líndalendur: Ríkishandbók Íslands. Reykjavík 1965, bls. 344–367. |
↑5 | Lovsamling for Island III, bls. 356–359; Lovsamling for Island XIV, bls. 38–39. |
↑6 | Lovsamling for Island IX, bls. 798–804. |
↑7 | Lovsamling for Island XIII, bls. 113–118. |
↑8 | Lovsamling for Island XIII, bls. 482–483. |
↑9 | Hjörtur E. Þórarinsson: Saga sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu 1874–1989 I. Akureyri 1994, bls. 172–193. |