Umboðsleg endurskoðun – Ríkisendurskoðun

Síðast breytt: 2021.06.03
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Endurskoðun Jarðabókarsjóðsreikninga og annarra reikninga fór fram í Danmörku til ársins 1874, þegar umboðsleg endurskoðun hófst á Íslandi.

Ríkisreikningar voru endurskoðaðir í rentukammerinu,. Frá 1680 báru rentuskrifararnir ábyrgð á endurskoðuninni og árið 1720 voru settar nákvæmar reglur um reikningsskil og endurskoðun. Við uppstokkun danska kansellís í byrjun 19. aldar færðist þangað endurskoðun á reikningum ýmissa opinberra og hálfopinberra stofnana, ráða og stofnana, sem ekki heyrðu undir ríkið, sjálfseignarstofnana og ómyndugra fjár, sem í raun heyrði allt undir danska kansellí. Árið 1828 var ákveðið, að reikningar allra stofnana, gjafasjóða og annarra sjóða skyldi endurskoða í kansellíinu. Skipulagsbreytingar voru gerðar í rentukammerinu í árslok 1840, meðal annars á endurskoðuninni.1Frank Jørgensen og Morten Westrup, Dansk centraladministration i tiden indtil 1848. Dansk historisk fællesforening 1982, bls. 99-100, 117-118, 130-131, 171-172, Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse redigeret af Wilhelm von Rosen I, 1. bind, bls. 198-200, 347-348

Engar nefnandi breytingar urðu á endurskoðuninni við afnám einveldis í Danmörku árið 1848.2Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse redigeret af Wilhelm von Rosen II 1848-1990, 4. bind, bls. 1800-11808

Innanríkisráðuneytið tilkynnti 30. júní 1860 um stofnun endurskoðunardeildar innan innanríkisráðuneytisins. M.a. tæki hún yfir endurskoðunarskrifstofu íslenzkra, færeyskra og grænlenskra reikninga í dómsmálaráðuneytinu.3Lovsamling for Island XVIII, bls. 68-70

Þegar stjórnarráð fyrir Ísland varð til með auglýsingu um stofnun stjórnarráðs fyrir Ísland 14. júlí 1874, var mælt fyrir um, að endurskoðun íslenzkra reikninga skyldi 1. reikningastjórnardeild fjárhagsstjórnarinnar hafa á hendi fyrst um sinn eins og hingað til.4Stjórnartíðindi 1874 A, bls. 2-3

Í 2. grein erindisbréfis landfógeta frá 22. febrúar 1875 segir, að landshöfðingi skuli gera uppástungu til ráðgjafans fyrir Ísland í öllum sérstaklegum íslenzkum málum. Sama sé um mál, er snerti fjárhag Íslands. Þó geti ráðgjafinn falið landhöfðingja að leggja úrskurð á þau fjárhagsmál, viðvíkjandi hinni innlendu stjórn Íslands, sem eftir eðli þeirra væru til þess fallin, að yfirstjórn landsins gerði út um þau.5Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 4

Fjárlög fyrir árin 1876 og 1877 gerðu ráð fyrir 1600 krónum hvort ár sem þóknun fyrir endurskoðun reikninga í útgjöldum við umboðsstjórn, gjaldheimtur og reikningsmál.6Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 60-61

Landshöfðingi skrifaði landfógeta 4. apríl 1876 og sagði, að fyrrnefnd fjárhagslög hafi veitt nauðsynlega þóknun til þess að endurskoða hér á landi alla þá reikninga frá Íslandi, sem að undanförnu hafi legið undir endurskoðun erlendis. Landfógetanum væri ætlað að endurskoða alla þessa einstöku reikninga gegn 1200 króna árlegri þóknun og ráðgjafi mælt svo fyrir í bréfi 22. febrúar sama ár, að endurskoðun íslenskra reikninga fyrir árið 1874 skuli taka frá 1. reikningarannsóknardeild og færa til Íslands. – Fylgdu bréfinu reikningar og fylgiskjöl frá árinu 1874 sem og eldri reikningar og skjöl og boðuð koma fleiri skjala. – Athugasemdir við reikninga skyldi senda landshöfðingja, sem sæi um, að þeim yrði svarað af reikningshöldurum.7Stjórnartíðindi 1876 B, bls. 40-41

Endurskoðunarskrifstofan í Kaupmannahöfn sendi landshöfðingja ýmsa eldri endurskoðaða reikninga með bréfum 25. febrúar og 19. apríl 18768mál B 273-76, LhJ 1876, askja B nr. 250369 Þar voru m.a. Jarðabókarsjóðsreikningar 1829-1830, 1834-1873, skiptaskýrslur 1843-1869 og póstreikningar 1841-1872.

Þótt talað væri um, að landfógeti endurskoðaði reikningana, var hann sem reikningshaldari ekki hæfur til þess. Þannig skrifar Magnús Stephensen, síðar landshöfðingi, undir Jarðabókarsjóðsreikninga áranna 1874 og 1875 sem endurskoðandi og Bergur Thorberg, síðar landshöfðingi, undir Jarðabókarsjóðsreikninga áranna 1876-1877. Indriði Einarsson kand. polyt. endurskoðaði reikninga áranna 1878 og 1879.9ÞÍ. Skjalasafn umboðslegrar endurskoðunar. Jarðabókarsjóðsreikningar 1874-1880 En Indriði skyldi framkvæma endurskoðun á þeim reikningum landssjóðsins sem kæmu til rannsóknar á árunum 1880 og 1881 gegn þóknun þeirri, sem veitt væri á fjárlögum þeirra ára.10Stjórnartíðindi 1879 B, bls. 152 Seint á ári 1881 samþykkti ráðgjafinn fyrir Ísland í bréfi til landshöfðingja, að framkvæmd hinnar umboðslegu endurskoðunar mætti framvegis fela Indriða Einarssyni gegn þeirri greiðslu, sem ákveðin væri í fjárlögum.11Stjórnartíðindi 1881 B, bls. 151 Gekk Indriði síðan undir nafninu Indriði revisor, en revisor merkir endurskoðandi.

Þegar Ísland fékk heimastjórn árið 1904, féll yfirskoðun landsreikninga undir 3. skrifstofu stjórnarráðsins. Var öll endurskoðun ríkisreikninga unnin af starfsmönnum fjármálaráðuneytisins undir yfirstjórn skifstofustjóra þess. Voru iðulega fengnir til þess ýmsir fyrrverandi embættismenn (t.d. sýslumenn, prestar og læknar). 8. september 1931 voru sett ný lög um ríkisbókhald og endurskoðun sem tóku þegar gildi.12Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 179 Varð til sérstök endurskoðunarskrifstofa undir stjórn aðalendurskoðanda ríkisins, sem var undirmaður fjármálaráðherra. Síðar urðu til nöfnin Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðandi.13Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964 I, bls. 321, 394-395

Skjalasafn umboðslegar endurskoðunar er harla óaðgengilegt. Aðeins eru til gamlar og óskipulegar skrár og umbúðir að mestu leyti fornar.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Frank Jørgensen og Morten Westrup, Dansk centraladministration i tiden indtil 1848. Dansk historisk fællesforening 1982, bls. 99-100, 117-118, 130-131, 171-172, Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse redigeret af Wilhelm von Rosen I, 1. bind, bls. 198-200, 347-348
2 Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse redigeret af Wilhelm von Rosen II 1848-1990, 4. bind, bls. 1800-11808
3 Lovsamling for Island XVIII, bls. 68-70
4 Stjórnartíðindi 1874 A, bls. 2-3
5 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 4
6 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 60-61
7 Stjórnartíðindi 1876 B, bls. 40-41
8 mál B 273-76, LhJ 1876, askja B nr. 250369
9 ÞÍ. Skjalasafn umboðslegrar endurskoðunar. Jarðabókarsjóðsreikningar 1874-1880
10 Stjórnartíðindi 1879 B, bls. 152
11 Stjórnartíðindi 1881 B, bls. 151
12 Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 179
13 Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964 I, bls. 321, 394-395
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 59